<$BlogRSDUrl$>

12 desember 2002


Find your inner Smurf!


10 desember 2002

Ekkert að frétta. Er að læra fyrir próf. 10 dagar í jólafrí :)

09 desember 2002

Dagurinn í dag var mjög skemmtilegur fyrir utan lærdóminn sem tók þó allan daginn. Ástæðan var sú að það voru litlu jólin hjá okkur í dag því við fengum pakka frá pabba sem innihélt mörg eintök af fréttablaðinu, eitt mannlíf, eina viku og fullt af rjómakúlum. Ég er því búin að vera í sæluvímu í dag við að skoða allar jólaauglýsingarnar og helstu fréttir líðandi stundar.

Lærdómurinn virðist ganga hægt sem aldrei fyrr sem er ekki gott því ég er að fara í próf í fyrramálið. Frakkar eru, sem í öðru, skítnir hvað varðar einkunnir. Þeir gefa einkunnir á bilinu 1-20, það þarf 10 til að ná en samt er 14 eiginlega ekki það sama og 7 á íslandi. 12 er góð einkunn og 14 frábær. 16 er svo gott sem það hæsta sem er gefið, yfir það er ekki möguleiki. Það virðist ekki vera nein regla fyrir því hvernig kennarar eiga að gefa einkunnir og þó flestir gera það á skynsamlegan hátt, þannig að hún endurspegli framistöðu í prófum og verkefnum, þá eru samt sumir sem fara nær eingöngu eftir sínum dutlungum. Þ.e.a.s. að ef kennara finnst nemandi ekki eiga heima í faginu má hann, án nokkurra mótmæla, gefa nemandanum 1 sem skilaboð um að hann skuli leita á önnur mið. Það sem er þó helsta vandamál þessa kerfis núna er að kennarar eru orðnir mildari en áður fyrr og hafa í hjarta í sér að gefa jafn lágt og 1 þá gefa þeir 9 í staðinn, til að sýna a.m.k. að nemandinn hafi fallið þó að hann hefði átt skilið lægri einkunn. Þessi einkunn gefur þó samt þær hugmyndir að það hafi nú ekki munað svo miklu, þá reynir nemandinn í annað skipti næsta ár. Þess vegna eru nú franskir háskólar að fyllast af nemendum sem halda að þeir nái prófunum í næstu tilraun en eiga alls ekkert heima í þessu fagi, eða bara yfirleitt ekki í háskóla. Einn kennarana okkar, þ.e. sem kennir í erasmus kúrs var að segja okkur frá stelpu sem var komin á sitt seinasta ár og var að klára maîtrise, sem er sama og masters próf. Var hún reyndar búin að vera 8 ár að klára þessi 5 því hún reyndi alltaf aftur og aftur því enginn kennaranna hafði hjarta í sér að gefa henni 1. Svo var komið að því að skrifa stóru ritgerðina sem þarf að vera um 100 blaðsíður, enda engin ritgerð skrifuð eftir fyrstu 3 árin. Sem fyrr fékk hún 9 fyrir ritgerðin sína sem þýðir það að hún gat ekki útskrifast. Hún varð alveg brjáluð og rauk upp á skrifstofu skólastjórnar til að kvarta þar sem hún reif sig ofan í ra**gat. Kennarinn okkar varð vitni að þessu og hafði fylgst með skólaferli hennar í gegnum tíðina. Hann tók hana á eintal og sagði henni hreint út að hún ætti alls ekki heima í þessari deild og rættast væri ef hún færi og prófaði eitthvað annað. Þótt ótrúlegt megi virðast tók hún þessu ekki illa og skráði sig næsta vetur í hagnýtt lögfræðinám, svona stutt nám, sem gekk mjög vel og er hún nú farin að vinna á lögfræðistofu.
Meiningin með þessu er s.s. sú að 4.5 (í íslenskum einkunum) þýðir ekki að maður geti gert betur næst heldur að maður eigi að hypja sig!
Þar sem ég er svo stollt af mér að hafa tekist að setja inn gestabók á síðuna mína þá bið ég ykkur vinsamlegast að rita í hana.

Takk

p.s. 11 dagar í jólafrí

08 desember 2002

Þá er enn ein helgin búin! Venjulega er það nú þannig að fólk kvartar sáran yfir því að helgarnar séu allt of fljótar að líða og er ég sammála því en ég held samt að ég hafi aldrei verið í jafn mikilli draumastöðu og núna, hið ógerlega hefur gerst, hið óskeðlega hefur skeð, draumur minn hefur ræst. Helgin er lengri en skóladagarnir (frí á mánudögum og föstudögum) sem er þó ekki mikið gang í þegar það þarf endalaust að læra. Ég þarf að fara í þrjú lokapróf í næstu viku, þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag auk þess sem ég á að halda fyrirlestur á miðvikudaginn. Í vikunni þar á eftir er ég í einu enn lokaprófinu og þarf að skila ritgerð í bókmenntasögu. Líf mitt er því enginn dans á rósum þessa dagana auk þess sem ég stend í miklu stríði við Air France sem tekur því bara rólega yfir því að hafa týnt bakpokanum hans Jens sem var fullur af dóti.

Vegna anna í næstu viku hef ég lítið gert annað en að reyna að læra alla helgina, með mis góðum árangri þó. Ég var alltof dugleg við að gera eitthvað annað en að læra, en mér skilst að það sé það sem eramsus-lífið gangi útá svo að ég hlýt að vera ánægð með þetta allt saman. Á okkur var boðið í afmæli á föstudagskvöldið hjá þýskri stelpu sem heitir Alex og er með okkur í málfræði. Hún er rosalega yndæl, er að læra málvísindi og er hérna með kærastanum sínum sem er að vinna mastersverkefni í rafmagnsverkfræði. Þetta var notalegt afmæli. Manuel, kærastinn hennar, hafði í tilefni dagsins bakað fjórar pizzur (þar af tvær með kartöflum) og vorum við því maulandi pizzur og "religieuses" sem eru bollur fylltar með búðing allt kvöldið. Hún ákvað að bjóða fáum til að hafa þetta persónulegra og svo að allir gætu spjallað saman í einu. Þarna voru nær eingöngu skiptinemar, þó tveir frakkar sem höfðu mjög gaman af því að kenna okkur allskonar "óvandað" franskt mál. Það er nefnilega merkilegt hvað það eru til mörg stig af frönsku. Það er til stig sem heitir "argo" og er það mál sem ungt fólk talar og er með miklu slangri, svipað og ungt fólk á Íslandi talar. Það vill oft verða þannig að útlendingar tala eins og bók því að það er frekar ólíklegt að kennararnir í háskólanum tali við okkur eins og 13 ára krakkar tala. Ég á oft erfitt með að skila þetta stig málsins en þegar komið er út í "verlan" er ekki nokkur möguleiki að ég skilji eitt einasta orð. Verlan er viðsnúningsmál, þ.e. það eru tekin orð, þau klippt í tvennt og límd öfugt saman, oft þarf líka að bæta eða sleppa einum staf. Verlan er einmitt viðsnúningur á orðinu l'envers (=ranghverfa, bakhlið) - l'en+vers -> ver(s)len -> verlan. Svo er það farið að gerast að fleiri en ungt fólk fara að nota verlan orð og þau verða viðurkennd í málinu og í nýjustu útgáfu franskrar orðabækur er eitt slíkt orð búið að smeygja sér inn. Það er orðið beure sem varð svona til: arabe -> ara+be -> be+(a)ra -> beure. Arabe merkir að sjálfsögðu arabi en beure er nú orðið víðtækara. Það er meira að segja búið að búa til kvenkyns mynd af orðinu, þ.e. beurette.

En nóg um frönsku, áfram með helgina. Á laugardaginn hitti ég vinkonu mína hana Julie. Hún var stödd fyrir tilviljun í Grenoble en er annars að læra í Lyon. Það var mjög skemmtilegt, við fórum á kaffihús sem heitir "La boîte a sardines", eða sardínudósin. Þetta er uppáhalds kaffihúsið mitt afþví að þeir eru með sér herbergi sem er reyklaust (sem er mjög óvenjulegt hérna í Frakklandi) og svo eru þeir með langt besta kakóið, það er alveg magnað. Það er með þeyttum rjóma en svo fær maður vanillusýróp og kanil með, til að setja úti kakóið. Alveg ótrúlegt!

Í kvöld vorum við þrjár hérna heima hjá mér að vinna í fyrirlestrinum fyrir miðvikudaginn, það gekk ágætlega enda vorum við með fulla skál af snakki til að narta í á meðan. Já, talandi um snakk, í Lidl (sem er rosa rosa ódýr búð) kostar 300 gramma snakkpoki 50 krónur!!! Íslendingur með kaupæði fær alveg kaupæði þarna inni og kaupir alveg æðislega mikið! (Sérstaklega af snakki)

Fleira gerði ég sossum ekki um helgina (minnir mig) og held ég fari upp í rúm til að halda áfram að lesa Tinna.

p.s. 12 dagar í jólafrí, næstum því 11 því klukkan er orðin svo margt :)


Ég hef tekið eftir því að það er tvennt sem heillar frakka umfram annað, þ.e. fyrir utan rauðvín og osta. Í fyrsta lagi má nefna kröfugöngur og verkföll í mótmælaskyni. Þeir eru mjög duglegir við að rölta niðri í miðbæ með skilti og fána, öskrandi hvatningarræður til ríkisstjórnarinnar. Ég held stundum að þeir hafi ekki hugmynd hverju þeir eru að mótmæla, þetta er orðin svona hefð hjá þeim, eins og hjá reykvíkingum að fá sér "pulsu" á Bæjarins bestu eftir djamm. Það sem þykir þó fínast í þessum mótmælum öllum er að stoppa sporvagnana í miðbænum því um hann fer bæði lína A og B, þ.e. báðar línurnar. Þetta veldu bæjarbúum að sjálfsögðu mikilli gremju og finnst mér mjög ósanngjarnt af þeim að tefja heimferð mína úr skólanum þegar mig hefur hlakkað til allan morguninn að fara heim að leggja mig. Um daginn sáum við flokk byltingarsinnaðra kommúnista í Isere rölta um á sporvagnasporinu og það vildi svo skemmtilega til að ég var með myndavél á mér, svo að ég smellti einni mynd af þeim.

Hitt sem að einkennir frakka er smekkleysi í vali á hárlitum. Það er það heitasta hérna að lita hárið á sér í allskonar litum, t.d. rautt, blátt, bleikt o.s.frv. Ég meira að segja sá hárgreiðsludömu með eld-rautt hár, ekki myndi ég þora að fara í klippingu til hennar.

Frakkar eru orðnir samdauna þessum skrítnu siðum og finnst ekki lengur neitt athugavert við þetta. Um daginn voru í mat hjá okkur franskir vinir okkar og ég var að sýna Marie myndaalbúmið mitt. Þar var meðal annars mynd af kommúnistunum og ég gerði góðlátlegt grín að þessu öllu saman, minnist á hvað frakkar væru rosalega duglegir við þetta. Hún spurði þá hvenær þetta hefði verið, sem ég mundi ekki nákvæmlega en sagði að þetta hefði verið líklega í byrjun september. "Nú!", sagði hún "þetta hefur alveg farið fram hjá mér, eða þá að ég hef gleymt þessu", hún var s.s. alveg miður sín yfir því að hafa misst af mótmælunum. Þá sagði ég við hana hversu skrítið mér þætti hvernig frakkar lituðu á sér hárið, þá svaraði hún að bragði "ég lita oft hárið á mér blátt, það er svo skemmtilegt"

Eftir þetta ákvað ég að það væri best að þegja!

Annars á ég að vera að læra fyrir ungverskupróf núna en ég er að fara yfirum af að reyna að læra öll þessi orð utanað, "Téssek parancsolni", "Milyen nyélven bésel?", "A fa itt van, az etterem az épület köszött", úff segi ég nú bara.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?