<$BlogRSDUrl$>

09 janúar 2003

...næst syndi ég!

Jólafríið var mjög gott eins og við mátti búast en að sjálfsögðu allt of fljótt að líða. Að morgni 6 janúar héldum við svo út á Keflavíkurflugvöll eftir að hafa verið í góðu yfirlæti hjá ömmu og afa jens um helgina. Þegar við komum út á flugvöll, um 6:30 sáum við að fluginu okkar, sem átti að vera 7:50 hafði verið seinkað til 9:00 (Fór svo ekki í loftið fyrr en 9:30) sem og um 4 öðrum evrópuflugum þennan morgun vegna seinkunnar á vél frá ammríku. Sú vél var örugglega of sein út af hertu öryggi og nákvæmari farangurskoðun þar í landi. Er þetta þá normið? Má maður reikna með 2 tíma seinkun á öllum flugum nú til dags?? Þetta t.d. kom okkur mjög illa því vegna seinkunarinnar misstum við af lestinni til Grenoble og Flugleiðum var alveg sama, ekki þeirra ábyrgð! Ekki nóg með það heldur tók rúmlega klukkutíma að fá farangurinn okkar á flugvellinum, fyrst ætluðu töskurnar aldrei að koma og svo þurftum að fara eitthvert allt annað að sækja skíðin okkar. Það tókst þó að lokum, ótrúlegt en satt, en lestin okkar náttúrulega löngu farin! Við fórum á lestarstöðina og fengum nýjan miða og þurftum að borga u.þ.b. helming af verði miðans. Lestin fór svo ekki alveg strax en þar sem frakkarnir virðast spara bæði sæti og hitun í lestarstöðinni vorum við í nokkrum vanda. Öll að krókna úr kulda og fundum ekki stað til að sitja á. Að lokum fundum við ofna á 4. hæð sem við gátum beðið á, aðeins svona að baka rasskinnarnar. Ekki hjálpaði það til að Jens var kominn með flensu og vampýruaugu (eldrauður í augunum) og ískalt fyrir. Við komumst þó að lokum í lestina og alla leið heim til Grenoble. Það var svo sem fínt, gott að losna úr þessu ferðalagi þó að betra hefði verið að vera lengur á Íslandi. Ég tók samt með mér smá "minjagripi": þau jólakort sem ég fékk með myndum af íslandi (eitt rosa flott með mynd af Akureyri), tvo pakka af harðfiski (nú ilmar allt), 3 pakka af hangiáleggi, einn skyrpakka, tvo pakka af lýsis-heilsutvennu, lítinn mackintosh-bauk af smákökum sem ég bakaði fyrir jól, tröllatópas, lakkrís og bingókúlur. Þetta ætti að duga eitthvað frameftir vori til að slá á fráhvarfseinkennin.

Próflestur og skíði

Nú er engin miskun! Harður próflestur í nokkra daga bíður mín, próf 14. og 15. Byrja svo aftur í skólanum 21. svo að ég fæ þarna nokkra daga í frí sem við ætlum að nota óspart til skíðaiðkunnar. Vorum að hugsa um að skreppa í helgarferð upp í Les 2 Alpes sem er mjög frægt skíðasvæði í um klukkustundar akstursfjarlægð frá borginni. Hún er í 1300-3600 metra hæð, þar eru 64 skíðalyftur og 69 brautir. Ég er orðin töluvert spennt að prófa svona stór skíðasvæði, það stæsta sem ég hef farið á er í Hlíðarfjalli sem er ekki nema brot af þessu öllu. Hérna nálægt okkur eru 13 skíðasvæði, fyrir utan alla tugina sem eru í ölpunum öllum, þetta ætti því ekki að vera slæmt! Er meira að segja í 10 daga skíðafríi í lok feb-byrjun mars.

Jæja, ætli maður fari ekki að hátta, þarf að vakna snemma í fyrramálið til að læra (jee ræt!)

This page is powered by Blogger. Isn't yours?