<$BlogRSDUrl$>

15 janúar 2003

Þá er það bara búið!

Í dag kláraði ég seinna prófið mitt svo að núna er ég þreytt og ánægð en samt full af orku og löngun í að gera eitthvað skemmtilegt. Jens gaf mér blóm í tilefni dagsins sem var æði. Þetta próf var ansi skrautlegt samt sem áður. Mér gekk ágætlega, það var ekki það, heldur var skipulagningin í molum. Við vorum um 200 manns í of litlum fyrirlestrarsal og því sat fólk oft ansi nálægt hvoru öðru. Salurinn er ekki eins og í háskólabíói heldur eru eldgamlir viðarbekkir með viðaborði og er þetta allt í lengjum, engin hlé í rununum og því þarf fullt af fólki að standa upp ef manneskjan í miðjunni vill komast í burtu. Borðin eru svo jafnfram hluti af bakinu á bekknum fyrir framan. Þetta er allt mjög þröngt og lítið svo að það er mjög auðvelt að sjá á prófblaðið hjá manneskjunni fyrir framan. Þarna voru sameinaðir þeir tveir hópar sem eru í faginu en einungis annar kennarinn komst svo að hún greyið þurfti að sjá um að dreifa próförkum, krassblöðum og prófblöðum til allra sem tók ekkert smá langan tíma. Ekki nóg með það heldur þegar hún var búin í dreifingu blaðraði hún um allt og ekkert í 10 mínútur svo að við gátum ekki byrjað á prófinu fyrr en korter yfir. Hún lofaði okkur reyndar lengri tíma fyrir vikið svo að þetta var nú ekki alslæmt. Svo er ekkert kerfi á neinu þarna en hún tilkynnti okkur að aðeins einn mætti fara fram í einu því í fyrra hafi komið upp vandamál með óæsklegt upplýsingaflæði á klósettunum. Það var engan veginn farið eftir þessari reglu og fólk óð eftirlitslaust fram og til baka á klósettið.

Mmm, kakó

Við ætlum að hitta Alex, sem er þýsk vinkona okkar, og kærastann hennar á uppáhalds kaffihúsinu okkar í kvöld. Þar fæst undursamlega gott kakó. Venjulegt kakó með þeyttum rjóma, svo fær maður sýróp og kanil með til að setja útá. Hjómar undarlega, ég veit, en er rosalega gott. Þetta kaffihús er líka það eina sem ég hef séð hérna sem er með reyklausan hluta, það er svona herbergi aðeins á bakvið. Mér finnst það rosalega gott því að frakkar reykja óheyrilega mikið. Við förum því alltaf á þetta kaffihús en þegar við gerum tillögu til að komast inn í reyklausaherbergið stökkva þjónarnir í ofboði fyrir framan okkur og segja "nei, nei, þetta er reyklaust svæði" og gera þetta af svo mikilli einlægni og krafti að það er eins og þeir hafi verið að bjarga heiminum frá glötun.

14 janúar 2003

1 down - 1 to go

Þá er eitt próf afstaðið. Það gekk svo sem ágætlega en ég er samt nokkuð viss með að ná þessu fagi þar sem prófið gildi 50% á móti ritgerð sem ég fékk 16/20 fyrir. Ég fékk líka málfræðiprófið mitt til baka í dag: 17/20. Í prófinu í morgun voru um 200-250 manns allir í einum stórum fyrirlestrarsal. Þar sem það er janúar og frost úti var annar hver maður að sjúga upp í nefið og snýta sér í tíma og ótíma, ofsalega hvetjandi! Nú er bara að bretta upp ermar og læra í nokkra klukkutíma í viðbót og þá er það afstaðið. Veit nú reyndar ekki hvernig það á eftir að ganga, langar mest að fara að sofa núna, allavegana í smá stund...

Draumahelgi

Þá er skipulag helgarinnar að líta dags síns ljós. Við verðum líklega 7 hérna úr húsinu sem ætlum í helgarreisu. Lagt verður af stað á föstudagskvöld, þá tökum við rútu upp í 30 manna bæ sem heitir Clavans le bas og er 9 kílómetra frá Les 2 Alpes. Þar býr maðurinn sem við leigjum af og rekur þar eins konar gistiheimili. Þar er hægt að leigja 2-15 manna íbúðir og erum við með þannig díl hjá honum að við getum fengið ókeypis gistingu hjá honum nema þegar það eru skólafrí, því þá er svo mikið að gera. Við fáum 8 manna íbúð út af fyrir okkur og þurfum bara að hugsa um mat. Hann ætlar að skutla okkur á skíði á morgnanna og sækja okkur seinni partinn. Húsið sem hann býr í er risastórt týpískt alpahús, svona eins og í Heiðu, frá seinni hluta 17. aldar. Ég reikna því með því að þetta verði nokkuð skemmtilegt og er farin að hlakka mikið til. Ekki sakar náttúrulega að fá ókeypis húsnæði!! Jens er því kominn í skíðaundirbúning og er að dúlla við að gera skíðin sín fín og jafna sig í lærunum eftir síðustu skíðaferð, sem var víst all rosaleg.

Gasleki

Í gær varð vart við gasleka í herberginu hjá spænsku stelpunum. Thomas, tveggja metra þýski ofurhuginn, kom og fékk hjá okkur höfuðljós og gekk til atlögu við óargadýrið. Eftir að hann hafði verið inni í herberginu í dágóða stund kom hann aftur út og lýsti því yfir að hættuástandið væri gengið yfir þegar hann komst að þeirri niðurstöðu að það var alls ekki gasleki í herberginu, heldur var þetta lyktin af gólfsápunni sem Sylvia notaði við að skúra gólfið hjá sér sem hann ruglaði við gaslykt! Allur er þó varinn góður.

12 janúar 2003

Eilífur próflestur

Nú eru tveir dagar í prófin hjá mér, þ.e. er í prófi þriðjudag og miðvikudag. Lesturinn gengur frekar hægt og ekki hjálpar til að Jens fór á skíði í dag með strák sem býr hérna í húsinu. Ég bara aðeins abbó! En nei, ég þarf bara að vera heima og lesa. Er búin að vera að lesa fyrir kennslufræði núna, það er rosalega spennandi að lesa um sögu kennslufræði frá því sautjánhundruðogsúrkál, þ.e. allskonar kenningar og stefnur í kennslufræði. Alveg drep sko!

Eftir eilífan próflestur

Í gærkveldi vorum við að skipuleggja næstu helgi sem mun einkennast af próflokafangaði. Planið er s.s. þetta að við munum fara nokkur saman hérna úr húsinu líklega upp í "Les 2 Alpes" á laugardagsmorgni og koma aftur seinnipart á sunnudegi. Þar ætlum við að leigja saman litla íbúð, skíða á daginn og gera svo eitthvað skemmtilegt á laugardagskvöld. Ég hef trú á því að þetta geti verið nokkuð áhugavert.

Snjór og frakkar

Það hefur snjóað nokkrum sinnum uppá síðkastið, ekkert að ráði samt. Það snjór í svona klukkutíma-einn og hálfan í einu, kemur smá föl á göturnar sem fer strax og hér er um 5 stiga frost. Nú er frökkunum rosa kalt og ég sá einn svaka töffara í sporvagninum um daginn sem var örugglega í öllum fötunum sínum, allavega sá ég nokkur lög af peysum og jökkum. Til að missa ekki alveg "töffarafílinginn" var hann með sólgleraugu að auki, ekkert smá svalur sko :) Svo er líka mjög skemmtilegt að horfa á frakkana sópa bílana sína. Þeir virðast bara eiga pínulitlar sköfur, enga sópa. Við sáum í gær tvo heimamenn hreinsa af bílunum sínum. Sá fyrri hélt sig við sköfuna og reyndi að skafa snjólagið af bílnum sínum, sem gekk upp og ofan og þegar hann keyrði loks af stað var útsýnið ekki upp á marga fiska. Sá seinni virtist hafa gefist upp á sköfunni en hélt þó á henni í annarri hendinni. Hann virtist þó hafa meira hugmyndaflug en sá fyrri og tók upp á því í gríð og erg að skella bílhurðunum af öllu afli í þeirri von um að snjórinn hryndi af. Það gekk ágætlega, nema með framrúðuna, þar var ennþá töluverður snjór. Hann fór því inn í bílinn og setti rúðuþurrkurnar af stað og lét þetta duga. Þetta var ansi fróðlegt en við skulum vona að slæma skyggnið út úr bílunum þeirra hafi ekki hamlað þeim mikið í umferðinni.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?