<$BlogRSDUrl$>

22 janúar 2003

Á toppi veraldar

3500 m hæð í miðjum Ölpunum. Heiðskýrt og glampandi sólskin. Óaðfinnanlegt veður. Útsýni yfir ægifögur og drungaleg snæviþakin fjöll. Líkaminn þarf að hafa aðeins meira fyrir því en venjulega að fá sinn eðlilega súrefnisskammt vegna þess hve þunnt loftið er þarna uppi. Þetta er góð tilfinning. Svo þegar ég þeystist á ógnarhraða niður brekkurnar hugsaði ég með mér að þessi dagur, þessi eini dagur bætir upp allt vesenið sem ég er búin að lenda í hérna í Frakklandi. Þó Air France hafi týnt bakpokanum okkar sem var 140.000 króna virði og þó margt hafi gengið illa: dvalarleyfið, húsnæðisleitin, húsaleigubæturnar, bankaviðskiptin, atvinnuleitin, öll biðin út af seinum lestum og flugvélum, stress í skólanum......

Helgin var sem samt alveg meiriháttar en mér tókst reyndar að slasa mig aðeins á sunnudeginum. Er reyndar ekki alveg viss um hvernig en nú er mér illt í kálfanum og átti erfitt með að ganga fyrst á eftir. Vöðvinn er allur eitthvað stífur og asnalegur en þetta er allt að koma. Er að vonast til að hann verði kominn í lag fyrir næstu helgi, þá er líka stefnt að því að fara á skíði. Ég held hins vegar að ég hafi sjaldan verið jafn þreytt og á laugardagskvöldinu.

Maria, I once met a girl named Maria, and suddenly that name will never be the same to me...

Maria er snillingur. Annað verður ekki sagt um hana. Maria er stelpan frá Ekvador sem býr hérna og hef ég eitthvað minnst á hana áður. Ég á í huga mínum óteljandi sögur af henni og ætla að reyna að koma frá mér nokkrum þeirra. Hún kom s.s. með okkur um helgina og sýndi þar geysilega snilli sína. Hún er dálítið náttúrubarn í sér, lætur utanaðkomandi áreiti, eins og klukkur, svefn og næringu, ekki stjórna lífi sínu. Við fórum saman að kaupa okkur nesti fyrir helgina og til að kaupa inn fyrir matinn sem við ætluðum að borða saman á laugardag. Það var hennar hlutverk að kaupa sveppi og lauk fyrir matinn, sem var fyrir 5. Hún keypti hátt í 10 lauka og fullan glæran haldapoka af sveppum. Ég sprakk úr hlátri þegar hún sýndi mér þetta og spurði hvort þetta væri passlegt, nahhh. Hún sagði, "Æ, ég var að tala við strák sem ég þekki og gleymdi mér alveg í að moka sveppum ofan í pokann". Svo þar að auki finnast henni sveppir mjög góðir.
Maria keypti sér einn ost í nesti fyrir helgina. Einn lítinn geitaost. Hann borðaði hún í morgunmat á laugardag og í hádeginu á sunnudag og þar með var nestið hennar búið og hún var ekki að hafa stórar áhyggjur af því.
Eftir erfiðan skíðadag elduðum við svo heilan helling af pasta. Allir tóku vel til matar síns enda menn upp til hópa svangir og þreyttir. Þegar allir voru alveg að springja sagði Maria að hún ætlaði að fá sér aðeins meira, sem var sjálfsagt enda nóg til. Svo kláraði hún af disknum og fékk sér annan disk, og annan, og annan... Ég hef aldrei sér stelpu borða svona mikið. Við vorum nokkuð undrandi á þessu og þá fór hún að segja okkur sögur af matarvenjum sínum. Hún sagðist vera fyrir löngu búin að gefast upp á að fara í búð og kaupa inn. Þegar hún kæmi heim æti hún þar til allt væri búið, sama hversu mikið hún keypti. Hún bjó með bróður sínum síðasta vetur og hann hætti líka að versla því að það kláraðist alltaf allt um leið. Hann greip því til þess ráðs að fara í búðina rétt fyrir kvöldmat og kaupa bara passlega inn fyrir matinn. Hún er samt alveg þvengmjó.
Fyrir jól gerði Maria þó smá innkaup, hún fór og keypti sér nokkra lauka, sem henni finnast líka góðir eins og sveppirnir. Á svipuðum tíma fór Elsa aftur heim til Svíþjóðar og gaf Mariu restina af laukunum sínum áður en hún fór. Á sama tíma fóru ensku stelpurnar heim í jólafrí og skildu eftir enn fleiri lauka hjá Mariu svo að nú sat hún uppi með helling af laukum. Það var svo sem bara ágætt, fannst henni, og borðaði hún því ekkert nema lauk í nokkra daga, og fannst það bara fínt. Maria a Salomon strigaskó sem eru mjög skrítnir á litinn, allir svona hálf mislitir og óreglulegir á litinn. Hún sagði að hún hefði fengið leið á litnum á skónum og þess vegna tússað þá rauða, nýtni það.

Jæja, ég á enn þónokkuð af Mariusögum en hugsa að ég láti þetta duga í bili, geymi meira þar til seinna.

Annars er ég byrjuð í skólanum aftur sem er alveg ágætt. Við horfðum á Amores Perros í gær en ég missti af seinustu mínútunum, hmmm, horfi á það seinna. Góð mynd samt!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?