<$BlogRSDUrl$>

30 janúar 2003

Dirty Dancing

Við horfðum á Dirty Dancing í fyrrakvöld, magnað. Það er bara verst hvað maður dillar mikið í mjöðmunum eftir að horfa á svona mynd, t.d Dirty Dancing, Flashdans... og langar að dansa. Við verðum nú svo bara að sjá til með hvernig það gengur!

Af heilsu og öðrum skyldum málefnum

Þó mér finnist ekki gaman að blogga um heilsumálefni get ég ekki annað en sagt örfá orð um tilviljanakennda röð krankleika sem hafa verið að hrá mig undanfarið. Ég var búin að minnast á að ég tjónaði á mér kálfvöðvan, það er reyndar komið í lag. Stuttu seinna slasað ég mig við eldamennsku, ég skar mig á álpappír sem er sko miklu verra en að skera sig á blaði. Álpappírinn sker miklu dýpra, svo ég varð um leið öll í blóði. Það er að verða komið í lag. All myndarlegur frunsuher gerði innrás um daginn og nú er einn hermaður enn eftirstandandi. Og þá er það punkturinn yfir i-ið, rúsínan í pylsuendanum, vona ég a.m.k. Haldiði ekki að ég hafi vaknað með blöðrubólgu á þriðjudag. Í fyrsta skipti á ævinni. Algjört æði sko! Og hvað á svo að gera í því??? Seinnipart á miðvikudag hugsaði ég með mér að þetta gengi nú ekki lengur, ég yrði að fara til læknis, en þá vandast málið. Hvernig, hvert, hvar, hvenær.... spurningar hlóðust yfir mig. Ég hef aldrei rekist á neitt sem líkist heilsugæslustöð eða læknamiðstöð. Eftir árangurslausa leit í símaskránni fékk ég þá snilldar hugmynd að senda kennaranum mínum e-mail, sem gaf mér svo upp númerið hjá heimilislækninum sínum. Eftir að hafa séð hvað allt annað gengur hægt og asnalega leist mér ekkert sérstaklega vel á þetta allt saman. Var hálf illa við að fara til læknis hérna. Ég hringdi og mér til mikillar undrunar fékk ég tíma samdægurs. Ég rölti á staðinn í grenjandi rigningu og leist svo sem ágætlega á þetta þegar ég kom og fékk mér sæti í biðstofunni. Svo kom að mér, og viti menn, þetta gekk bara eins og í sögu. Læknirinn var mjög indæll, skoðaði mig í bak og fyrir, spurði mig ótal spurninga, potaði í mig hér og þar og skrifaði svo uppá lyf handa mér. Það kom mér alveg á óvart hversu fínt þetta var, stofan hans var mjög snyrtileg en samt ólík öðrum læknastofum, miklu meira kósý og heimilislegri. Lyfið var reyndar í frönsku formi, þ.e. ekki töflur heldur duft sem á að blanda út í vatn. Þeir virðast vera nokkkur hrifnir af því. Ég er nú hrifnari af að gleypa töflur því ég er ekkert rosalega hrifin af því að drekka eitthvað ógeð. Þetta blessaðist þó því sullið var með mildu sítrónubragð og mér tókst að drekka það allt. Núna, á föstudagsmorgni er þetta allt að verða komið og einkennin næstum horfin. Ég verð þó að segja að ég var mjög ánægð með þjónustuna, aldrei þessu vant!

Taxi 3

Við fórum að sjá Taxi 3 í gær, hún var ágæt, samt ekki jafn góð og fyrr myndirnar, eins og vill svo oft verða. Aðdáendur Taxi ættu samt að gera sér ferð að sjá þessa mynd.

Hjólastólarallý

Við vorum að rölta í miðbænum áðan þegar við mættum manni á hjólastól á fullri ferð. Maðurinn var með tvo sheffer hunda, annan stóran og stæðilegan en hinn aðeins yngri, í bandi og lét þá draga sig, ekki ólíkt og á hundasleða eða jólasveinasleða. Hundarnir virtust kunna þessu vel, enda er það almennt viðurkennt að hundar hafa gaman af því að hlaupa. Þetta vakti mikla kátínu viðstaddra sem horfðu á eftir manninum bruna í burtu. Þetta kalla ég sko að bjarga sér.

28 janúar 2003

Erasmus

Mér var bent á það um daginn að ef maður ruglar stöfunum í "Erasmus" kemur út franska sögnin "s'amuser" sem þýðir að skemmta sér, sbr. enska lýsingarorðið "amusing" og sögnin "to amuse". Finnst mér þetta ansi skondið í ljósi þess hve mikið skemmtana- og partýlíf erasmus líf er. Svona er þetta nú sniðugt já!

27 janúar 2003

Engan æsing

Mér hefur svona fundist að eftir því sem maður kemur sunnar í Evrópu, þeim mun afslappaðri væru íbúarnir. Þess vegna gerist allt frekar hægt og rólega hérna í Frakklandi, en umferðin er þó undantekningin sem sannar regluna. Allt sem tengist opinberri stjórnsýslu gengur lúshægt, það tók okkur t.d. um 2 mánuði að fá húsaleigubætur, kassadömurnar eru ekkert að stressa sig á því að það sé komin ógnar löng röð við kassann þeirra, þær afgreiða alltaf jafn hægt o.s.frv. Ítalía var ennþá verri, ég var nálægt því að fá taugaáfall eftir nokkra daga. Þetta er vont en venst, sérstaklega erfitt fyrir íslendinga sem eru vanir því að búa í töluvert hraðara samfélagi. Það gekk þó alveg fram af mér um daginn. 29. janúar á að frumsýna jólamyndina í "ár"! Aðeins mánuði of seint! Nú geri ég mér alveg grein fyrir því að í hinu langa framleiðslu ferli einnar myndar getur eitthvað farið úrskeiðis sem verður til þess að hennir seinkar, sérstaklega hérna í Frakklandi, en þegar hún er auglýst sem jólamynd löngu eftir jól er eitthvað athugavert við það. Á plakatinu eru jólagreinar og blóm! Engu að síður hef ég hugsað mér að fara að sjá jólamyndina, sem er ekki af verra tagi, Taxi 3! Það ættu nú allir að kannast við Taxi 1 og 2 enda um snilldar myndir að ræða.

Meiri skíði

Við fórum á skíði seinasta laugardag. Veðrið var æðislegt og færið betra en seinast því það var búið að snjóa töluvert. Það var því mjög gaman að skíða fyrir utan brautina, sem var þó heldur skrautlegt hjá mér. Í eitt skiptið flaug ég á hausinn, með höfuðið á undan og fór langt inn í skafl. Þegar ég loks stoppaði var ég komin hálf inní skaflinn og sá ekkert nema hvítt, get ímyndað mér svipinn á fólkinu sem sá þetta. Ég pikkföst og sá ekkert nema hvítt. Mér tókst að lokum að blaka af mér skíðunum og grafa mig upp úr prísundinni. Stuttu á undan var ég að láta mig renna í rólegheitum í lítið brattri braut. Svolítið fyrir framan mig datt saklaus stúlkukind sem er ekki í frásögur færandi nema fyrir það að rétt eftir að stúlkan datt kom brjálaðu brettagutti og keyrði mig niður og kútveltumst við niður brekkuna og lentum á stúlkunni sem lá enn í miðri brekkunni. Greyið strákurinn var alveg miður sín og spurði mig í gríð og erg hvort ég hefði meitt mig, sem var nú ekki því ég lá skellihlægjandi að reyna að átta mig á hvaða lappir og skíði ég átti í allri hrúgunni. Þessi dagur einkenndist því af stórum byltum hjá mér!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?