<$BlogRSDUrl$>

07 febrúar 2003

Prjónaskapur

Jæja, alltaf aukast nemendurnir og nú er ég komin með tvo í prjónakennslu, fyrir utan Jens. Hrund er búin að vera að læra síðan svolítið fyrir jól en í fyrradag byrjaði Jan (Kanada) og gengur bara ágætlega. Þetta er þó allt frekar dramatískt hjá honum og hann talar mikið við vetlingana sem hann er að prjóna, sem og lykkjurnar, t.d. "come here your little!" eða "you bastard!" og svo öskrar hann stundum "NOOOOOOOOOOOOO" ef hann er við það að missa lykkju. Hann er samt mjög áhugasamur um prjónaskapinn og sagði mér stolltur að hann væri sko búinn með 2 eða 3 cm núna, búinn að vera ekkert smá duglegur að prjóna. Hann var reyndar pínu hræddur um að vinir hans myndu gera grín að honum. Svo að í gærkvöldi sátum við hérna og vorum fjögur að prjóna, Jan, Jens, Hrund og ég. Voða fínt!

Og ég vaknaði upp með andfælum

Ég far frekar syfjuð þegar ég kom heim í hádeginu í gær og ákvað að leggja mig stundarkorn. Þegar ég var búin að sofa í um 10 mínútur var bankað (damn) og í dyrunum var húseigandinn, sem kvaðst vera með nýjan ísskáp handa okkur en hann vantaði hjálp við að bera hann! Loksins, hann er búinn að lofa okkur nýjum ísskáp síðan í október því hinn er alltof lítill, vægst sagt. Þetta er minnsti ísskápur sem ég hef á ævinni séð. Hinn er miklu betri, ég segi ekki að hann sé stór en við hliðina á hinum er hann sem svarthol. Það er því búin að ríkja mikil gleði á heimilinu og það var ekkert smá gaman að raða í ísskápinn. Hinn var venjulega stappaður út að hurð og það komst aldrei allt sem þurfti í hann. Aldrei fyrr hafa ísskápar verið svona spennandi fyrir mér. Fyndið hvað allar skoðanir manns og ánægjur í lífinu breytast hérna. T.d. í jólafríinu var æðislegt að komast í venjulegt eldhús og að vaska upp í venjulegum vask. Mér hefur aldrei fundist svona gaman að laga til í eldhúsinu hjá mér. Eldhúsið var því glansandi fínt öll jólin. Þess vegna held ég að maður hafi gott af þessu, kynnast einhverju öðru en mestu þægindum þó að við búum svo sem ekki við neina vosbúð hérna. Ég á eftir að fá víðáttubrjálæði næst þegar við búum á stúdentagörðum og týnast í ísskápnum! Hlakka til að koma heim.

04 febrúar 2003

Brjálaður þjóðverji

Seinnipartinn í gær sat ég í rólegheitum og var að prjóna. Skyndilega heyri ég einhvern öskra fram á gangi, og öskra og öskra... hélt fyrst að einhverjir væru að rífast en ákvað svo að best væri að kanna málið, þ.e. ef einhver þyrfti á hjálp minni að halda... eða þá að ég er bara rosalega forvitin. Um leið og ég kíkti fram á gang lokaði Thomas hurðinni sinni og hann var með sameiginlega símann. Fleiri voru komnir fram á gang í sömu erindagjörðum og ég en enginn virtist vita neitt í sinn haus. Ekki hjálpaði það svo til þegar Thomas kom hlaupandi fram á gang, með símann í annari hendi og freyðivínsflösku í hinni, skaut tappanum með tilheyrandi látum, spreyjaði víni um allan ganginn og á þá sem fyrir voru, fékk sér sopa, rétti Sylviu flöskuna og fór aftur inn í herbergi. Loks gáfumst við upp á biðinni og ákvaðum að krefjast svara síðar meir. Eftir drjúga stund heyrði ég að Thomas kom út, setti símann á sinn stað, stóð svo kjurr og brosti að eyrum. "Jæja", sagði ég "þarftu nú ekki að útskýra eitthvað?" Hann kom ekki upp orði alveg um leið en sagði svo "ég er svo glaður", já og... Þá var það s.s. þannig að mamma hans hafði verið að hringja því hann var að fá úrlausn úr prófi senda heim, prófi sem hann tók í Þýskalandi í lok seinustu vorannar, þess ber e.t.v. að geta að Thomas er að læra lögfræði. Ég spurði hann hvort hann hafi s.s. náð, jú sagði hann, ég fékk 8. Þar sem það virðist ekki vera neitt samræmt einkunnakerfi milli landa fannst mér nauðsynlegt að spurja 8 af hve mörgum mögulegum hann hafi fengið, og hann svaraði stolltur: "af 18", jú vááá, en frábær árangur... "Hvað þarf til að ná?" sagði ég, "4" var svarið. Dularfullt kerfi. Fyrst 8 er svona frábært hvað gera menn þá ef þeir fá 10, 12, 14... Mér fannst mér bera skylda til að óska honum til hamingju þó sú ósk hafi verið örlítið blendin í huga mínum. Svo rauk hann út til að djamma. Ussusussu, þjóðverjar.

Jummííí

Við borðuðum nokkur saman í kvöld og var rétturinn að þessu sinni grænmetis chili. Það er voða voða gott. Alveg jummí. Hins vegar var Camille (eini frakkinn sem býr í húsinu) að segja okkur frá vinkonu sinni sem er læknir. Hún lenti s.s. í því að fara og sækja lík konu sem hafði af ótilgreindum ástæðum hengt sig. Sem er, þrátt fyrir auðvitað að vera sorglegt, kannski ekki í frásögur færandi nema fyrir það að hún hafði fengið að hanga þarna óáreitt í 3 vikur áður en nokkur skipti sér af. Þegar þau svo ætluðu að reyna að losa hana niður losnaði búkurinn frá hausnum og allt út um allt... ég leyfi ímyndunaraflinu að klára söguna! Góða martröð!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?