<$BlogRSDUrl$>

12 febrúar 2003

Grenoble-Anglet: 4-3

Okkar menn unnu æsispennandi leik. Eftir fyrsta leikhluta höfðu Anglet skorað tvö mörk en Grenoble ekkert. Okkar menn skoruðu svo eitt mark í örðum leikhluta og það þriðja um miðjan þriðja leikhluta. Ég var orðin nokkuð sigurviss þegar staðan var 3-2 og tvær mínútur eftir af leiknum, en nei! Þá tókst Anglet að jafna. Þvílíkur skandall. Þegar venjulegum leiktíma var lokið var staðan því jöfn. Það var því bráðabani, sem virkar þannig að það lið sem skorar fyrr, vinnur. Eftir um tveggja mínútna leik skoruðu Grenoble svo og allt varð viltaust í höllinni, menn réðu sér ekki fyrir kæti. Leikurinn var mjög góður og gríðarlega spennandi.

Við sátum hins vegar við hliðina á stuðningsmönnunum sem arga og garga heimasamin lög eða lög með nýjum texta allan tímann. Skapar vissulega góða stemningu en getur gert mann hálf heyrarlausan. Næst okkur var hins vegar gömul kona sem lifði sig alla inn í leikinn. Stóð allan tímann hún var svo spennt. Var þess vegna dugleg skyggja á. Hún var í rosalega "smart" buxum, röndóttum strech-buxum. Nýjasta tíska líklega. Hún leit svo dálítið út eins og norn því hún var með svo útstæða höku. Virtist þó að öðru leiti mjög indæl. Gallinn var bara að hún hafði ekki alveg, jahh, það sem maður gæti kallað tóneyra. Hún hitti ekki oft á laglínuna heldur gaulaði bara eitthvað. Svo sökum aldurs hafði hún ekki alveg í við unga fólkið og var stundum aðeins á eftir þeim í textaframburði. Okkur til happs hafði hún ekki orku í að syngja með allan tímann en lét í sér heyra á spennandi augnablikum. Gaman að þessu samt. Ég hef aldrei gamla konu sem lifir sig jafn mikið inn í íþróttir.

Fyrir utan gaularana vorum við á ágætum stað, beint fyrir aftan refsiboxin, sem þýddi það að við höfðum fullkomið útsýni yfir gæjana sem voru í refsingu, sveittir massaðir gæjar, mmmmmmmmmmm!

Family pub

Hljómar eins og krakkavænn staður ekki satt! Ónei ónei, alls ekki. Þeir selja bjór, þ.á.m. kirsuberjabjór, í metratali. Það virkar þannig að maður biður um X marga metra af bjór og fær þá trjádrumba, einn metri hver, með bjórum í. Svo þykir voða fínt að segja daginn eftir: "Ég drakk sko 2 metra af bjór í gær!". Síðan er það hápunktur kvöldsins. Fjölmennasti vinahópurinn á staðnum fær "vinadrykk". Hann er borinn fram í risastóru glasi, innihaldið er óþekkt, og svo á glasið að ganga á milli þar til það er tómt. Það er s.s. markmið okkar að fá þennan vinadrykk á laugardaginn svo að nú er verið að smala saman ölllum sem gætu hugsanlega haft gaman af þessu. Vill einhver koma með?

11 febrúar 2003

Heilaskaði

...mætti halda því mér tókst aldeilis ekki að koma öllu frá mér sem ég hafði ætlað mér í morgun. Ég ætlaði nú líka að minnast á snillar smíðahæfileika manns nokkurs sem við sáum á skíðum. Það var nefnilega þannig að við ákváðum að fara alla leið upp á topp, höfum aldrei farið þangað áður. Við vorum s.s. í seinustu lyftunni sem er t-lyfta þegar hún stöðvast skyndilega. Við erum rétt hjá einum stauranna og upp í hann klifrar maður nokkur með stóra sleggju í hendinni. Þegar upp var komið byrjaði hann að berja af öllu í afli í hina og þessa hluta staursins, t.d. járnið sjálft og líka hjólin fyrir vírinn. Mér leist nú ekki á blikuna og hélt að við færum ekkert hærra. Allan tímann blótaði hann eins og hann fengi borgað fyrir það og ekkert á lágu nótunum heldur. Hann hélt áfram að berja og berja, hætti barsmíðunum svo að lokum og klifraði aftur niður staurinn en hélt þó áfram að blóta. Í dag sá ég svo annan mann sem var upp á þaki með hamar og virtist berja á það af jafn óreglulega og óskipulega og maðurin í staurnum. Ég fer því að hallast að því að frakkar séu ekki miklir smiðir, meiri bakarar svona, þó heldur duglegir við að baka vandræði.
Hins vegar var ansi fínt þarna uppi á toppi, þaðan á maður víst að sjá Mont Blanc en við vorum ekki viss hvert þessara fjalla það var. Engu að síður var þetta mjög skemmtilegt, þarna vorum við komin í næstum því 3600 m hæð og varla hægt að fá betra útsýni yfir alpana.
Helgin

Helgin var nokkuð týpísk í þetta sinn, fórum á skíði á sunnudaginn og hina dagana hefði ég átt að vera að læra. Þetta var þó með skrautlegri skíðadögum hjá mér. Ég held ég hafi aldrei dottið svona mikið, en snilldin við þetta er að þetta voru öll svona fáránleg dett sem að áttu í rauninni ekki rétt á sér. Tvisvar datt ég þegar ég var svo gott sem stopp! Á svona 10m kafla datt ég þrisvar og í síðasta skiptið lenti ég þannig að ég lá á bakinu með hausinn niður í móti og lappirnar (með skíðunum á) hinu megin við hausinn, ég var s.s. föst í kleinu. Í eitt skiptið kom travers braut þvert á brekkuna, og á miðri brautinni flækti ég skíðastafinn undir skíðinu, datt að sjálfsögðu og á flöt á miðri brautinni. Og þar með er þó ekki allt upptalið heldur verð ég að minnast á seinasta og flottasta dettið. Ég toppa það seint. Við vorum að renna okkur í frekar erfiðri svartri braut (af litamerkingunum grænn - blár - rauður - svartur) sem var sú síðasta þennan daginn og gekk það eftir aðstæðum vel (skafin, brött braut). Brautin var þannig að það voru tveir brattir kaflar en á milli þeirra kom svo gott sem flatur flötur. Jú, þar datt ég, missti jafnvægið gjörsamlega og datt framfyrir mig í X, skíðin hentust bæði af mér ég rúllaði af stað, fór í kollhnísa og stoppaði svo loks í X liggjandi á bakinu. Þá sé ég mér til skelfingar að það er stólalyfta beint yfir brautinni og einhverjir töffarar beint fyrir ofan mig að veifa og öskra að þetta hafi verið glæsilegt. Ég brosti mínu blíðasta og veifaði til baka. Svo kom hjálpsamur maður með skíðin mín og þurfti auðvitað að hafa orð á því að þetta hafa verið nokkuð flott hjá mér. Ég meina, við hverju er að búast, æfingin skapar meistarann. Ég slapp þó nokkuð heil út úr þessu öllu en er auðvitað með, eins og vanalega, nokkra marbletti hér og þar.

Annars vorum við að hugsa um að fara á íshokkíleik í kvöld og svo erum við að fara á íslendingadjamm á fimmtudaginn, erum að fara að hitta hina 4 íslendingana sem eru hérna. Við sjáum nú til hvernig það endar.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?