<$BlogRSDUrl$>

22 febrúar 2003

Vor

Nú er ég viss um að vorið sé komið. Í gær var alveg frábært veður, eins og mjög góður dagur í seinnihluta maí á Íslandi. Sól, logn og heitt. Málið er nefnilega það að sólin er svo hátt á loft hérna, eins og hún verður hæst á Íslandi. Síðan hins vegar í júní og júlí er ekki líft hérna, hitinn fer oft upp í 40°C og er þetta víst heitast borg Frakklands. Mikið er ég fegin að vera ekki hérna í sumar. Vandamálið er að það er svo mikið logn hérna að það er engin hreyfing á loftinu og mengunin safnast bara saman fyrir ofan borgina. Mig grunar að það gæti orðið erfitt að hanga inni og lesa fyrir próf í maí.

Frí

Annars er komið 10 daga vetrar-skíðafrí hjá mér núna. Ekki slæmt sko. Vona bara að veðrið verði svona frábært áfram. Sýnist það svona út um gluggann þó ég hafi enn ekki hætt mér út í dag. Frekar löt svona í fríinu en það er nú líka alveg leyfilegt.

21 febrúar 2003

Flensuskrens

Jæja, þá er ég fallin líka. Lögst í rúmið! Flensan hefur herjað all svakalega á fólk hérna undanfarið, mjög margir í húsinu búnir að vera veikir. Í tímum gerir fólk ekki annað en að hósta, hnerra, sjúga upp í nefið og snýta sér. Og ég get sko sagt ykkur það að frönsk flensa er ekki skemmtileg.

Til að bæta gráu ofan á svart var gærdagurinn alveg dularfullur. Ég drattaðist á fætur, þó mig langaði að vera heima upp í rúmi, og fór í skólann. Gleymdi auðvitað gleraugunum og þá, einmitt þá skrifaði kennarinn helling á töfluna og ég náttla sá ekki neitt. Í frímínútum var að alveg að skrælna úr þorsta og skrepp fram í sjálfsalana. Miða einn út og ræðst á hann. Sé að þar er til sölu rosalega girnirleg vatnsflaska á 1 evru og 10 sent. Set 2 evrur í þar sem ég sé að maskínan gefur til baka (sem er ekki alltaf hérna) og vel drykkinn. Svo Maskínan gefur mér svo samviskusamlega 90 sent til baka en það virtist gera út af við hana því hún gafst upp eftir það og ég fékk ekkert að drekka. Ég gafst ekki upp því ég var að drepast úr þorsta og set enn á ný pening í, í þetta skiptið 1 evru og 20 sent. Jú, hún gefur mér samviskusamlega til baka en ekkert að drekka. Það var ekki einu sinni svo gott að ég gæti sparkað í hana því hún er í svona hlífðarboxi með smá götum til að ná í drykkinn og til að setja pening í. Reyndi að berja hana í gegnum götin en það gerði ekki mikið gagn. Var mjög svekkt enda sjaldan verið jafn þyrst. Fór aftur inn í stofuna heldur betur súr, kláraði tímann og drattaðist svo heim og aftur upp í rúm.

Sendiboði siðmenningar

kemur til mín á mánudaginn. Fríður vinkona ætlar að koma að heimsækja mig, kemur á mánudaginn og verður í nokkra daga. Ekkert smá gaman sko! Við ætlum að gera rosa margt skemmtilegt, t.d. skíði, klifur o.þ.h. Vonum bara að flensan verði farin! Kannski ég sendi smá af henni til Íslands með Fríði! Nei, vil ekki vera svo vond.

Jæja, best ég haldi áfram að láta mér leiðast. Veit nebbla ekkert hvað ég á að gera þegar ég er veik hérna. Er vön því að skríða fram í stofu með sængina og horfa á sjónvarpið. Þar sem ég á hvorki sjónvarp né sófa hérna hef ég ekki hugmynd um hvað ég á að gera, ekki gott!

17 febrúar 2003

"Er gott að vera stór?"

Ég fékk pakka í dag frá Íslandi með dagblöðum, tímaritum og rjómakúlum! Meðal annars Helgarblað DV frá því 25. janúar þar sem finna má grein sem heitir "Er gott að vera stór?", sem er einmitt spurning sem ég hef velt mikið fyrir mér. Eftir lestur þessarar geinar ákvað ég að vera sátt við að vera 1,63 vegna þess hve margar kjarakonur eru það einnig (og karlar), en niðurstaðan er allavega sú að ég er jafn há og: Björk, Madonna, Janet Jackson, Alanis Morrisette, Drew Barrimore, Jodie Foster, Sarah Jessica Parker, Rosanne, Michael J. Fox og Woody Allen. Munurinn er bara tæknin! Þau geta látið líta út fyrir að þau séu stærri, ekki ég!

Helgin

Helgin að þessu sinni var fremur skrautleg. Fórum, aldrei þessu vant, ekki á skíði heldur einbeittum okkur meira að skemmtanalífinu. Á fimmtudaginn hittum við Íslendingana hérna og það var stuð. Töluðum um heima og geima, vorum öll með gamansögur af vitlausum frökkum og franska ó-skipulaginu. Við skemmtum okkur öll vel og stefnum á að gera eitthvað saman aftur við fyrsta tækifæri.

Á föstudaginn var okkur boðið í crêpes með franska laginu og horfðum svo á Auberge Espagnole sem er skyldumynd fyrir alla sem hafa verið, eru eða ætla að verða erasmus skiptinemar. Myndin fjallar um franskan strák sem fer sem skiptinemi til Barcelona og er hún þverskurður af lífi okkar hér. Hann þarf að glíma við nákvæmlega sömu vandamál og við sem gerir þetta svolítið skemmtilegt allt.

Á laugardag fórum við loksins á hinn víðfræga Family pub og það var sko ekki slæmt! Við drukkum 5 metra af bjór og borðuðum fullt af flögum. Fyrstu tveir metrarnir voru Cherry bjór en næstu þrír voru "Royal sampler", s.s. sitt lítið af hverju. Við unnum svo vinadrykkinn sem við drukkum af bestu lyst. Bardaman kom með vinaglasið til okkar, risa risa risastórt í laginu eins og rauðvínsgla. Í því var einhver vökvi sem hún var búin að kveikja í og svo hellti hún tveim stórum bjórum út í fyrir framan okkur. Svo þarf glasið að ganga á milli þangað til allt er búið. Ekki amarlegt það. Annars var þetta fínn bar, fjörugur en lítill írskur pub.

Á sunnudag voru menn hins vega orðnir hálf sjúskaðir og skelltum við (ég, Jens, Monika og Maria) okkur því klifur sem hressti vel upp á liðið. Um kvöldið var svo súkkulaðifondue úr Toblerone, mmmmmmmmmm!

Helgin hefur því ekki nýst vel til náms en það kemur dagur eftir þessa helgi!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?