<$BlogRSDUrl$>

22 mars 2003

Sinfóníu-band

Í gær gerðum við aðra tilraun til að fara á tónleika, það tókst betur í þetta skiptið. Við fóru á tónleika hjá sinfóníuhljómsveit háskólanna í Grenoble og voru verk eftir Vivaldi og Beethoven á efnisskránni. Gloria eftir Vivaldi fyrir tvo sóprana, alt, kór og hljómsveit. Mjög fallegt verk. Eftir Beethoven var spilaður "Triple concert", konsert í þremur þáttum fyrir tríó (fiðlu, selló og píanó) og hljómsveit. Þetta verk var rosalega flott, sérstaklega sellóparturinn sem leiddi hin hljóðfærin í tríóinu. Framistaða hljómsveitarinnar sjálfrar var einnig frábær og ber hún þess ekki merki að þetta séu fyrstu tónleikar hennar, þar sem hún var stofnuð síðastliðið haust. Ég skemmti mér mjög vel.

Skattamál

Jú, á mánudaginn á víst að skila skattaskýrslum. Pabbi er búinn að senda mér lykilorðið frá skattstjóra sem og öll nauðsynleg fylgiskjöl sem voru send heim. Þetta gerði hann samviskusamlega fyrir tveim vikum en (!!!!!!) þetta er ekki komið. Franska póstkerfið er alveg í molum sko. Þar sem að það lítur allt út fyrir að við fáum pakkan ekki fyrir þann tíma sem þarf að skila skýrslunni sóttum við um frest, það var nú soldið skrítið, því Jens fékk frest til 6. apríl en ég til 8. Er nú ríkið farið að reikna með náttúrulegri óheppni minni og búast við að ég lendi í einhverju veseni og að ég fái þar af leiðandi meiri tíma en aðrir?? Ég ætla rétt að vona að skrambans pakkinn sé ekki týndur, þá veit ég ekki alveg hvað ég á að gera. Að því ógleymdu að það var íslenskt nammi og nokkur tímarit líka í pakkanum. Ohhh, frakkar!!

16 mars 2003

Bílskúrsband

Í gærkvöld fórum við á tónleika. Til að gera langa sögu stutta get ég sagt að ég er a.m.k. glöð að þeir voru ókeypis. Lagavalið var mjög gott hjá þeim en því miður kunni söngvarinn ekki að syngja. Það hefði kannski verið allt í lagi því annar gítarleikaranna tók stundum lagið, sem hefði alveg bjargað þeim ef þeir hefðu verið í takt. Stundum spiluðu þeir líka lög án þess að syngja, sem var skömminni skárra nema hvað að gítarinn var falskur. Ég held ég hafi aldrei heyrt Creep m. Radiohead svona illa spilað. Red hod chili peppers urðu líka eins og hljóð sem maður gæti ímyndað sér að kæmu úr ketti sem hoppað væri ofan á. En jæja, það er alltaf gott að skreppa út, fá sér eitt rauðvínsglas og spjalla, sem var reyndar ekki hægt því hátalarnir voru í botni. Ágætis afþreying!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?