<$BlogRSDUrl$>

25 mars 2003

"Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt"

(...ef ég man rétt, s.s. með fyrirvara um villur)
Ég sat, einu sinni sem oftar, í sporvagninum í dag sem er í sjálfur sér ekki í frásögur færandi. Hins vegar sat kona um sextugt fyrir framan mig og var hún augljóslega að koma frá því að sækja myndir í framköllun. Hún dró umslagið með myndunum upp úr "Fnac"-pokanum, opnaði það og dróg út myndabunkann. Við það að horfa á myndirnar færðist risastórt ánægjubros yfir andlit hennar og vellíðan skein af henni. Hún gekk frá myndunum og hélt svo að stara dreymandi út í loftið, með sama brosið límt á vörunum. Nú veit ég ekki hvað það var á myndunum sem kætti hana svona, en það skiptir svo sem ekki máli. Mér fannst rosalega gaman að sjá þetta því ég hugsaði með mér að hún hlyti að eiga góða fjölskyldu og/eða vini sem eru þess virði að eiga myndir af.
Rúdolf með rauða nefið...

Á sunnudaginn fórum við einu sinni sem oftar á skíði en í þetta skiptið var án efa besta veðrið sem við höfum fengið til þessa. Glampandi sólskin og ekki skýhnoðri á himni allan daginn. Færið bar þess reyndar aðeins merki, en þegar það er svona gott veður skiptir færið aðeins minna máli, oftast. Það skipti hins vegar máli þegar ég var komin í svarta brekku, rosalega bratta, og það hefði verið skynsamlegra að vera á skautum því brekkan var líkari skautasvelli en skíðabrekku. Þetta hafðist þó að lokum. En það voru víst ekki bara brekkurnar sem voru gott dæmi um afleiðingar góða veðursins. Það er vægt til orða tekið þegar ég segist hafa brunnið í framan. OG!! ég fékk geðveikt mikil sólgleraugnaför, og húfuför. Svo að frá miðju enni og niður á háls var ég eld eld rauð, að augnasvæðinu undanskildu. Svo stóru eyrnasneplarnir útundan húfunni svo að þeir svo líka rauðir og svæðið fyrir neðan þá. Bar samt á mig sólarvörn um morguninn, það hefur augljóslega ekki dugað. Skemmtilegur dagur samt.

Enn um skattamál

Nú eru liðnar næstum 3 vikur síðan pabbi sendi okkur pakkann, hann er ekki enn kominn. Jens ákvað því að senda e-mail til skattstjóra og athuga hvort hægt væri að senda okkur ný leyniorð. Það var augljóslega ekki erfitt því hann fékk sent svar um hæl. Við brösuðum því við skattskýrsluna í gærkvöld og hafðist það nú að lokum. Ótrúlega fljót viðbrögð hjá skattinum samt.

Manifestation

Nú eru frakkar alveg að fara yfir um. Stríðinu í Írak er mótmælt dag eftir dag með tilheyrandi sporvagnavandamálum. Mér fannst þetta nú full langt gengið á föstudagskvöldið, þegar við ætluðum á sinfóníutónleikana. Við vorum komin út á stoppustöð þegar það kom tilkynning í hátalarakerfinu, jú, vegna mótmæla í miðbæ má búast við seinkunum á sporvögnum. Jeii, s.s. við verðum of sein, því þegar allt er stopp í miðbænum stoppar vagninn einni stöð fyrr en miðbærinn, í báðar áttir. Það þarf því að labba í um 10 mín til að taka næsta vagn ef maður ætlar að halda beint áfram. Við höfðum ekki alveg 10 mín til þess. Ákváðum samt að láta reyna á þetta og hittst svo skemmtilega á að mótmælunum var ný aflokið og komumst við því í gegnum miðbæinn. Ég verð reyndar að vera sammála því að það eigi ekki að samþykkja þetta stríð án nokkurrar mótstöðu en mér finnst fólkið ekki fara alveg rétt að þessu. Hvað í ösköpunum hefur það upp úr sér að stöðva sporvagnana. Sjáum nú til, hverjir eru það aðallega sem taka sporvagna, jú þeir sem eiga ekki bíla. Hverjir eiga ekki bíla? Námsmenn, gamalt fólkt og þeir sem að öðru leiti hafa ekki efni á bíl. Eru einhverjar líkur að valdamenn þjóðarinnar eða að þeir sem geta einhverju ráðið með þetta stríð falli undir þennan flokk? Til að koma einhverju framgengt ættu þeir frekar að mótmæla fyrir framan sendiráð Bandaríkjanna eða Bretlands, jú eða jafnvel stöðva bjórdælurnar á "London Pub" því að stöðva mig gerir barasta ekkert gagn þó ég glöð vildi geta breytt gangi heimsins!!!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?