<$BlogRSDUrl$>

11 apríl 2003

Íslendingakvöld

Við fórum út að borða með íslendingunum í kvöld (föstudagskvöld). Það var voða fínt. Manni líður alltaf eins og maður sé kominn til Íslands þegar við situm svona saman og spjöllum, sértstaklega af því að Gísli var í bol með íslenka skjaldarmerkinu á. Við fórum á uppáhalds pizzastaðinn minn, "Il Vaporetto" sem er einn af 26 ítölskum stöðunum við árbakkann. Rosalega flott hverfi og skemmtilegir staðir. Pizzurnar þarna eru alveg sjúklegar og eru, miðað við það sem maður þekkir á Íslandi, mjög ódýrar. Ég borgaði 1000 krónur fyrir mitt, risastóra pizzu, 2 hvítvínsglös og ís á eftir. Það er alltaf gott að fá smá update á slúðrinu frá Íslandi, sérstaklega hafði ég gaman af sögunni af því hvernig það æxlaðist að Grindavík fékk stórstjörnuna Lee Sharpe, fyrrum leikmann Manchester United, til að spila með sér í fótbolta. Það var í grunndráttum þannig að blindfullir íslendingar í fótboltaferð á Englandi fóru að spjalla við hann, með þessum niðurstöðum. Fólkið í Grindavík safnaði svo saman peningum til að hægt væri að borga honum. Íslendingar eru eingum líkir. Hvað þá fullir íslendingar. Annars er þetta myndar drengur, ekkert út á það að setja: sko bara! Mér skilst þó að Lee kallinn sé nokkuð duglegur í skemmtanalífinu og hafi oft lent í vandræðum vegna drykkju og kvennafars. Hann ætti því að verða ágætist lyftistöng fyrir skemmtanalífið í Grindavík, ekki það að ég þekki það nokkuð. Þetta verður líklega eins og á stríðsárunum, mætti kannski líka þessu við nýtt "ástand". Það er kannski bara jákvætt að fjölga aðeins í bæjarfélögunum úti á landi.

Við íslendingarnir ákvaðum að skreppa saman til Lyon, þriðjudaginn eftir páska, til að kjósa. Ég verð reyndar komin heim á kosningunum en ætla samt með þeim. Þetta er allt skipulagt út í ystu æsar hjá okkur. Við ætlum á Subway í hádeginu og um kvöldið ætlum við á stað sem heitir "Bouchon", eða það minnir Siggu og Gísla, þar fær maður heilan helling að borða fyrir svo gott sem engan pening. Já, við ætlum s.s. bara að kjósa og borða í Lyon, ef tími vinnst til gæti verið að við túrhestuðumst eitthvað. Það er aldrei að vita nema að við hittum einhverja fræga franska fótboltagutta og gætum dílað eitthvað við þá. Til í að klípa í lærin á þeim sko!

Próf

Annars geri ég sossum ekkert spennandi núna, bara að rembast við að les 900 blaðsíðna bókmenntasögubókina mína. Voðalega spennandi. Ekki það að mér finnist bókmenntasaga leiðinleg, það er bara svo niðurdrepandi að setjast niður með svona skruddu. Okkur var boðið í grillveislu á morgun, því miður held ég að við höfum ekki tíma fyrir það, þó það væri gaman. Læralæralæra. Það er samt líklega best að ég fari að sofa núna, þarf víst að vakna á morgun til að lesa.

10 apríl 2003

Enn og aftur tekst þeim að koma mér á óvart

Frakkar eru alveg dæmalausir. Ég ætla að reyna að lýsa í grófum dráttum skipulaggningu eins kúrsins sem ég var í núna eftir jól. Þetta er kúrs sem snýst um að kenna útlendingum "dissertation" sem er sértstakt franskt ritgerðarform, mjög flókið fyrir útlendinga því það byggir á allri franskri bókmenntasögu og samfélaginu í heild sinni. Auk þess sem það einkennist af miklu heimspekilegri hugsun en litlar íslenskar stelpur eru vanar. Þetta er því algjör heilabrjótur. Jamm, jæja. Kúrsinn var skipulagður þannig að hann var 2 tímar á viku í 12 vikur, sem var fyrirlestrartími. Að auki vorum við í 2 tíma á viku í 8 vikur í vinnutímum, það byrjaði því í 5. viku. Í janúar byrjuðum við því í fyrirlestrartímum hjá Madame Marié (Frú Gift). Hún er svaka gella og ef ég hefði verið strákur hefði ég ekki heyrt neitt af því sem hún sagði. Alltaf í stuttum pilsum og þröngum fötum. Hún byrjaði eins og lög gera ráð fyrir á að kenna okkur hvernig á að gera dissertation. Hún tilkynnir okkur að í 5. viku munum við fá nýjan kennara. Mjög skynsamlegt að skipta um kennara á miðri önn, því jú, hann byrjaði auðvitað líka á að kenna okkur hvernig á að gera dissertation. Í 5. viku byrja líka vinnutímarnir, þar kenndi okkur önnur gella sem virtist þó hafa mesta hæfileika af þrímenningunum. Hún kenndi okkur líka hvernig á að gera dissertation og skild ég það best hjá henni. Merkilegt þó að þetta var frekar ólíkt hjá kennurunum þrem. Við ættum s.s. að vera farin að kunna ágætlega að gera dissertation, búin að heyra þrisvar hvernig á að gera hann auk þess að hafa fengið að spreyta okkur töluvert. Seinasta þriðjudag svo prófið, allir frekar stressaðir. Við komum í prófið og kennarinn dreifir prófinu sem er ekki í frásögur færandi nema fyrir það að hann nennti ekki að leggja það á sig að setja það inn í tölvu. Það var handskrifað og ljósritað og gallinn er sá að hann hefur með öllu óskiljanlega skrift. Það tók því dágóðan tíma að skilja hvað stóð þarna, ekki eins og maður væri í nógu mikilli tímaþröng fyrir. Þegar hálftími var eftir af 2 klukkustunda próftíma virtust einhverjir vera búnir að gefa upp vonina, ein bandarísk stelpa var tvisvar búin að fara fram grátandi. Kennarinn spyr hvort að við séum ekki búin að finna út grunnatriðin sem þarf að finna (sem ætti að gerast á fyrsta hálftímanum í prófinu) og bekkurinn fer að hlægja. Nokkrir segjast ekkert vera búnir að gera. Kennarinn var þó það almennilegur að segja að fólk mætti skila verkefninu í pósthólfið hans, klára það heima, en að það yrði dæmt harðar fyrir þau verkefni, sem er náttúrulega alveg skiljanlegt. Mér gekk þó ágætlega og náði að gera það sem til var ætlast af okkur á réttum tíma. Ég held að þetta sé mjög gott dæmi um að kúrs hafi með öllu mistekist. Þó við höfum lært þrisvar hvernig á að gera þetta náði ekki nema um helmingur bekkjarins þessu. Fæ svo út úr þessu á þriðjudaginn næsta, það verður spennandi!

06 apríl 2003

:(

Jæja, þá er Jens farinn. Hann þurfti að taka rútu út á flugvöll kl 6 í morgun og þá voru sporvagnarnir ekki farnir að ganga. Þurftum þess vegna að taka leigubíl. Hann var að sjálfsögðu of seinn en hann bætti það upp með ekta "Taxi"-leigubílaakstri, enda ekki franskur leigubílstjóri fyrir ekki neitt. Ég held ég hafi aldrei keyrt svona hratt innanbæjar. En jæja, það blessaðist nú allt að lokum og Jens náði rútunni (því miður). Við vorum búin að reikna það út hvenær ég gæti tekið sporvagn til baka og varð ég að passa mig að missa ekki af honum því það var síðan hálftími í þann næsta. Það tókst nema hvað að á meðan ég var að bíða var eldgamall tannlaus kall að bögga mig. Voða gaman. Eflaust ástæða fyrir því að hann er tannlaus.

Ég s.s. orðin ein eftir í kotinu, ekkert spes hrifin af því. Hef reyndar alveg nóg að gera, tveggja vikna próftörn og svo ein vika í frágang og einkunna-eftirgang. Ég þarf nebbla að sjá til þess að ég verði komin með allar einkunnirnar mínar í litla appelsínugula einkunnaheftið mitt áður en ég fer heim. Jæja, best ég reyna að fara læra eða eitthvað.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?