<$BlogRSDUrl$>

20 september 2003

Helsinki

Skruppum inn í miðbæ í dag. Það var alveg ágætt, kíktum í nokkrar búðir. Fengum tvo boli og eina peysu, svaka fína, á Jens í H&M. Það var samt allt of mikið af fólki. Keyptum okkur bland í poka sem maður velur sér sjálfur í tilefni nammidagsins. Það er alltaf svo gaman að velja sjálfur en stundum kaupir maður allt of mikið. Mér tókst hins vegar að hafa hemil á mér í þetta skiptið og keypti bara fyrir um 250 krónur (handa okkur tveim). Þegar leið á daginn og við vorum búin að rölta um allt urðum við svöng og ákváðum að fara á Hesburger sem er finnskur McDonaldsstaður. Ef eitthvað er þá er Hesburger bara betri. Svo er ég líka í fýlu við Bandaríkin núna. Horfðum á Bowling for Columbine í fyrrakvöld og ég verð að segja að álit mitt á Bandaríkjunum, sem var nú ekki mikið fyrir, hríðlækkaði. Ég fæ bara hroll af tilhugsuninni um þetta úr sér vaxna samfélag. Það er sko komið alveg á brún siðmenningar og það kæmir mér ekkert á óvart þó að það færi fram af. Ég hef samt ekki nógu mikinn viljastyrk til að sniðganga allt Bandarískt þó að það væri það eina rétta í stöðunni.

Nóg um það! Allavega, á Hesburger stóðum við í biðröð þar sem það var nokkuð fjölmennt þar. Fyrir aftan mig stóð eldri kona. Réttara væri að segja uppvið mig stóð eldri kona. Hún stóð svo nálægt mér að brjóstin á henni snertu bakið á mér. Ég HATA þegar fólk stendur svona nálægt manni í biðröðum, það alveg gerir mig brjálaða. Ég gat ekki annað en fært mig og þá var hún fyrir aftan Jens og þar lék hún sama leik. Hann var þó með tösku á bakinu og hana snerti hún með brjóstunum. Jens gaf henni nokkur harkaleg töskuhögg og hélt hún sig á mottunni eftir það. En hversu sorglegt er það ef eina snertingin sem þess brjóst fá sé af bökum á fólki á hamborgarastað!!

19 september 2003

Líkamleg misþyrming

Í haust sendum við 2 pakka til Finnlands með sjópósti. Nú, mánuði seinna (sem var umsaminn tími), komu þeir. Við erum ekki með bílinn þessa stundina og þurftum við því að labba heim með pakkana. Pósthúsið er ekkert langt í burtu en þetta var samt hræðilegt. Jens tók 30 kg pakkann en ég fékk þann léttari sem var þó 21 kg. Það er sko hægara sagt en gert að í fyrsta lagi finna almennilegt tak á svona stórum pappakassa og í öðru lagi að bera þetta alla leið heim. Það tókst þó en ég er alveg ónýt í höndunum núna, ég verð með hræðilega strengi á morgun. Fengum þá góðu hugmynd að fara að klifra um helgina en ég held að vöðvarnir leyfi það ekki, verðum að sjá til með það. Nú er aðeins minna tómlegt í stofunni hjá okkur úr því að við erum búin að setja eitthvað af dóti í hilluna, t.d. nokkrar beyglaðar bækur. Pakkarnir voru ekkert spes vel farnir, það var risastórt gat á öðrum þeirra og er ég að vona að ekkert hafi dottið út. Held að einhverjir hafi verið að leika sér að því að kasta þeim til. Svona er þetta, það er ekki hægt að fara fram á allt. Þetta var ódýrasta leiðin til að senda dótið og hana völdum við.

Þar sem að það er ógeðslega vont að pikka því ég er að drepast í höndunum ætla ég að hætta þessari viltleysu.

Hyvää viikonloppua! (Góða helgi)
Kommentakerfi

Jæja, nú er ég loksins búin að laga síðuna að fullu. Það seinasta var að seta upp kommentakerfi og nú er það komið og er sko ekki amarlegt. Það eru því allir skildugir til að segja mér eitthvað skemmtilegt!

Helgin

Við getum ekki með góðu móti ákveðið hvað við eigum að gera um helgina. Til boða stendur að fara í heimsókn til Katri sem býr í Lahti, hún hefur áhuga á að fara í berjamó. Ef við nennum ekki að leggjast í ferðalög gætu Katri og Juha, kærastinn hennar, hugsanlega komið í heimsókn til okkar eða þá að þau kæmu einn dag hingað og við gerðum e-ð skemmtilegt í Helsinki. Þau hins vegar eiga einhvern frímiða á söfn í Helsinki og vilja gjarnan nýta hann. Við Jens aftur á móti erum ekkert svakalega spennt fyrir því. Nú er klukkan orðin 4 á föstudegi, Jens kemur bráðum heim úr skólanum og við vitum ekkert hvað við erum að fara að gera um helgina, ástand er þetta!

Ugly naked guy!

Við búum í blokkarhverfi. Blokkirnar eru frekar nálægt. Við búum á 5. hæð og höfum gott útsýni. Það er mjög áhugavert að standa úti í glugga og horfa yfir í næstu blokk. Ekki halda að ég sé perri eða neitt, en svona er þetta bara. Er búin að sjá gellu sem var að læra á nærfötunum og gæja sem var ber að ofan að strauja skyrtuna sína. Ég skal ekki samþykkja að þetta sé perralegt fyrr en ég fæ mér kíki til að sjá betur. Þetta er samt áhugavert!

18 september 2003

Beint flug til Helsinki

Ef einhver skildi hafa áhuga á að heimsækja mig, sem ég efast ekki um, þá vildi ég bara benda ykkur á að Icelandair verða með beint flug til Helsinki í haust á mjög góðu verði: 23.840 krónur. Það er nú ekki slæmt! Alls ekki dýrt fyrir flug og gistingu í Helsinki. Ef þið biðjið fallega gæti jafnvel verið morgunmatur innifalinn í verðinu. Þið getið lesið allt um þetta hérna.

16 september 2003

Blogg vesen

Einhverra hluta vegna hvarf neðri hlutinn af template-inu mínu í blogginu og þessvegna fór allt í klúður. Ég varð að velja mér nýtt template og setja allt inn aftur, linkar, teljari, gestabók o.þ.h. kemur því inn í passlegum skömmtun núna á næstunni. Vona að allir séu sáttir með nýja útlitið þó að ég sé hundfúl yfir þessu veseni.

Já, og ef ég skyldi hafa gleymd að linka á einhvern eða ef einhver linkurinn virkar ekki látið mig þá vita, gerði þetti svona eftir minni.

15 september 2003

Helgin

Við fórum til Turku um helgina, fyrir þá sem ekki vita þá er Turku bærinn sem Jens fæddist og þar búa líka ættingjar hans. Katri systir hans kom líka, hún býr í Lahti. Við vorum hjá ömmu þeirra í góðu yfirlæti. Við fengum okkur símanúmer sem að blessaðist á endanum og þetta er númerið mitt: +358 44 2646 333 og ykkur er velkomið að hringja í mig. Munið bara að reikna með tímamismuninum ;) Mér fannst reyndar Jens, Katri og amman vera full dugleg að nýta sér að ég skil þau ekki. Við fórum út í eyju og svo voru þau að rífast um hver ætti að róa og sögðu svo öll "pant ekki ég" á finnsku og sögðu svo "Anna rær þá", og það fannst mér ekki sanngjarnt. Það fór nú samt þannig að Jens réri enda hefðum við ekki endað á réttum stað hefði mér verið treyst fyrir jafn mikilvægu verkefni.

Finnskunámskeið

Finnskunámskeiði mitt byrjaði í dag. Það var alveg ágætt nema hvað að maðurinn talaði eiginlega bara finnsku, ég meina komm on, þetta er nú einu sinni byrjendakúrs. En allavega, ég er með ekkert smá fyndnu fólki þarna. Einni rússneskri konu sem að kynnti sig sem "Everest", heitir víst Eva Räst en það er sagt alveg eins og Everest, magnað það. Aðrir með mér: Stelpa frá Suður-Afríku, ein frá Jamaíka, belgi, pólverji, dularfullt áströlsk stelpa sem er búin að vera hérna í 9 mánuði en getur samt ekkert tjáð sig. Mjög dularfullt fólk þarna margt, pólverjinn er svo ótrúlega glær að náði ekki neinu sem við áttum að læra í dag. Rússneska konan hins vegar er búin að búa hérna í 10 ár og talar alveg finnsku, sanngjarnt það ha! Hún kann samt ekki að skrifa og er þess vegna á þessu námskeiði. Hún þarf nefnilega að læra að skrifa til að finna sér betri vinnu. Ég hjólaði á námskeiði og tekur það um 20 mínútur. Það er sossum ekki svo slæmt nema hvað að ég er á gömlu hjóli með engum gírum og þetta er ekkert nema upp og niður brekkur. Alveg búin í lærunum sko!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?