<$BlogRSDUrl$>

17 október 2003

Nú legg ég land undir fót

Við erum að fara núna á eftir til Turku og þaðan förum við með bát til Uvlotti, sem er eyja sem frændi og frænka Jens eiga. Þar verða líka Katri, systir Jens og kærastinn hennar, og Juha (sonur þeirra sem eiga eyjuna) og kærastan hans, hún talar frönsku svo að nú get ég loksins talað við einhvern! Allavega, á eyjunni eru 3 sumarbústaðir, einn sem þau eru í, einn gestabústaður og einn sem er gufubað og setustofa. Þetta verður nú aldeilis fínt, alltaf þegar ég hef komið þarna áður a.m.k. hefur það verið mjög gaman. Ég hef reyndar ekki komið núna eftir að við komum út en við fórum þangað í bæði skiptin sem ég hef komið hingað áður. Lýsi þessu betur eftir helgi.

Allavega, þarf að klára að pakka og fá mér að borða áður en ég fer, það er örugglega ekki sniðugt að missa af lestinni!

14 október 2003

Stjörnuleit

Jæja, er ekki einhver áhugasamur sem er að taka upp alla stjörnuleitarþættina og vill lána mér þá þegar ég kem heim í jólafrí? Langar svo rosalega að sjá þetta... Er á fullu að fylgjast með finnsku og þýsku þáttunum en það er bara svo leiðinlegt að ég skil ekki allt sem er sagt og svo er ekki sjens að ég þekki einhvern þarna. Spennandi samt, gaman að heyra svona marga syngja svona vel.

En allavega, látið mig endilega vita ef þið eigið þetta og viljið lána mér, þó ekki nema ef þið vitið um einhvern sem er að taka þetta upp...

13 október 2003

Sofðu unga ástin mín

Í gær vorum við að renna í gengum sjónvarpsstöðvarnar til að sjá hvort að það væri eitthvað merkilegt í sjónvarpinu og rákumst við á ansi áhugaverða mynd. Hún var á þýskri barnastöð sem heitir KiKa. Við sáum strax að þetta gerðist á Íslandi og fórum svo að sjá leikara sem við könnuðumst við. Þetta var samt talsett á þýsku, auðvitað. Þarna mátti sjá leikara eins og Hilmi Snæ og Eddu Heiðrúnu, en einnig voru leikarar sem við þekktum ekkert. Fólkið virtist vera á einhverju ferðalagi og komu þau að skála þar sem þau virtust ætla að eyða nóttinni. Fólkið var kátt og spjallaði saman en tók sig svo til og fór að syngja. Ekki völdu þau verra lag en "Sofðu unga ástin mín", þetta var ekki talsett. Þau sungu rosa fínt, raddað og allt. Hafði ég mjög gaman af að heyra þetta, því þetta lag var í miklu uppáhaldi hjá mér þegar ég var lítil. Ég söng það oft þó að textinn virðist hafa eitthvað skolast til hjá mér því ég söng alltaf: "Sofðu unga ástin mín, úti regnið lætur" í staðinn fyrir grætur, en það er nú aukaatriði. Myndin endaði suttu síðar og þá sáum við að einnig var mikið um finnska leikara. Jens kannaðist þá eitthvað við þetta og sagði að þetta hefði verið einhver finnsk-íslensk samvinna en nafnið mundi hann ekki. Skiptir ekki máli, ég hafði mjög gaman af að sjá smá frá Íslandi og fá að heyra "Sofðu unga ástin mín".

Megrun

Jæja, nú held ég að það sé kominn tími til að Jens fari í megrun, þetta gengur ekki lengur. Áður en sagan hefst þarf að ég segja að rúmmálum okkur er háttað þannig að við erum með tvö 80cm rúm sem eru sett saman. Jens ákvað að taka sér smá frí frá lærdómi í gær og hoppaði upp í rúm til að slappa aðeins af. Þegar hann lenti heyrðist ógurlegur hávaði í rúminu. Ég sagði að nú hlyti hann að hafa brotið eitthvað en hann sagði að gormarnir hefðu bara farið alveg saman. Ég bað hann nú samt að gá, og viti menn, hann braut rúmið! Ein spýtan undir rúminu er í molum. Eins gott að hann gerði þetta ekki við mitt rúm, þá hefði ég verið alveg brjáluð (því ég er með betra rúmið)

This page is powered by Blogger. Isn't yours?