<$BlogRSDUrl$>

25 október 2003

Snjór

Það fór sko að snjóa í gærkvöldi, alveg á miljón. Eftir mikið tuð tókst mér að draga Jens út í smá göngutúr, það var alveg frábært.
Núna snjóar enn, alveg kyngir niður snjó. Vorum að dást að þessu áðan, horfa út um gluggann, þegar við sáum svaka fínan BMW sem var alveg í vandræðum, hehe, þarf líklega að fara að skipta yfir á vetrardekk.

Allavega, erum að fara inn í Helsinki núna, í miðbæinn. Ætlum m.a. að fara á Subway, það er sko tími kominn til! Svo er líka nammidagur í dag, ekki slæmt það. Nebbla, eins og síðast þegar ég fór til Helsinki, förum við í Stockman, þar er geeeeðveikur nammibar!

Jæja nóg um það, ætla að fara að elda hafragraut svo ég komist sem fyrst á nammibarinn ;)

24 október 2003

Jól

Ég vildi bara benda fólki á að það eru akkúrat 2 mánuðir í jólin núna, ekki slæmt það. Best að byrja að fara að hlakka til!
Nú fer hver að verða síðastur að ákveða hvað hann ætlar að gefa mér í jólajöf ;)
Heilsum vetri

Nú held ég að það sé kominn vetur, þó að finnarnir séu að reyna að telja mér trú um að það sé haust. Það var 10 stiga frost kl 7 í morgun, 7 stiga frost klukkan 10. Það er byrjað að snjóa í skólanum hjá Jens, reyndar ekki heima hjá okkur, en í morgun var allt hvítt af frosti. Á sunnudaginn skiptir svo yfir í vetrartíma, þá verður 2ja tíma munur á Finnlandi og Íslandi.

Þegar ég var nýbúin að kíkja á hitamælinn kíkti ég á mbl.is, þar var sagt að spáð væri 3-9°hita á Íslandi í dag, það er aldeilis munur þar eða hér.

Ég er í svona samræðutímum í frönsku einu sinni í viku, svona til að gleyma ekki öllu sem ég er búin að læra. Fólkið þarna er reyndar soldið gamalt en þetta er samt mjög gaman. Ég var að segja þeim frá því að ég hefði farið þarna í eyjuna um síðust helgi, já, þetta var s.s. í tíma síðasta þriðjudag. Þau spurðu mig hvort ég hefði áður komið í skerjagarðinn. Jájá, það hélt ég nú, ég sagðist bara aldrei hafa komið þar að vetri til áður. Þá sögðu allir finnarnir í kór "abbababba, þú meinar að hausti!" jájá, vottever sko! Fyrir mér er vetur þegar skólinn er og sumar þegar skólinn er ekki, það er miklu einfaldara. Nú er skólinn búinn að vera lengi og þá hlýtur að vera vetur. Finnar eru allavega farnir að skipta yfir á vetrardekk og allt, hvað þýðir það ef ég má spurja, jú, það er kominn vetur.

Anna klám
Sko, ég er alltaf að læra finnsku. Ég er búin að læra fullt af sögnum, þar á meðal "panna" sem þýðir venjulega "að setja". Hún getur þó líka þýtt "að ríða", eins og á íslensku "að setja í einhvern". Ég heiti því "Anna Ríða" í Finnlandi, en smekklegt það. Svo þýðir "anna" líka soldið sniðugt, það þýðir "réttu", s.s. sem skipum. Allavega, við eigum mannagrjón sem heita "Anna Manna". Það er því tækinlega séð hægt að segja við mig: "Anna, anna Anna Manna", það er hræðilegt! Annars eiga allir nafnadaga í Finnlandi sem er jafn merkilegur dagur og afmælisdagur. Þar sem ekkert varð úr afmælinu mínu síðast er ég búin að ákveða að halda uppá nafnadaginn minn, það er 9. desember. Öllum boðið í kaffi!

23 október 2003

Stórlax

Úff, laxinn í gær var alveg frábær. Sinneps-hunangshjúpaður, grillaður í ofninum, með kartöflum, sósu og svaka góðu salati. Í eftirrétt var svo heit eplakaka og ís. Ótrúlega sniðugur ís sem að ég keypti. 2l dolla með þrem bragðtegundum í, súkkulaði, toffee og banana. Rosa gott.

Ítalir

Jens er að gera verkefni í skólanum með þrem ítölum, Fabio (greyið að heita þetta), Giuseppe og Alfredo. Þeir eru algjörir trúðar, alltaf eitthvað vesen á þeim. Allavega, Jens var í gær að tala við Fabio og Alfredo um hvenær þeir ættu að hittast til að gera verkefnið næst. Þeir ákvaðu að hittast á þriðjudaginn og Jens stakk uppá að hittast klukkan 1. Þá horfðu ítalarnir hvor á annan og á Jens til skiptis, alveg furðu lostnir. Svo svöruðu þeir: "Við erum ítalskir, klukkan 1 borðum við", ok, klukkan 2 stakk Jens þá uppá, "jájá, það er miklu betra" svöruðu þeir þá. Ótrúlegt!!

22 október 2003

100 og 101 hlutur

Mæli með þessum lesningum:
Kata er búin að skrifa 100 hluti um sjálfa sig sem ég þekkti fyrir, næstum alla. Gaman samt að lesa þetta.
Villi vildi ekki vera minni maður en Kata og skrifaði 101 hlut um sjálfan sig, ég verð hins vegar að segja að þetta varpaði töluvert nýju ljósi á hann Villa, frá mínu sjónarhorni. Gaman að lesa þetta líka.

Norjan lohifile

Fór og keypti norskan lax áðan, ætla að elda hann í kvöld. Hef engan fisk fengið síðan ég kom út, er ekki hrifin af fiskinum hérna. Vona samt að sá norski standi fyrir sínu. Ætla að gera sinneps-hunangs hjúp á hann, það er sko uppáhaldið mitt. Annars er ég að fara í húggalabúggala-tíma á eftir og á eftir að gera nokkur verkefni fyrst svo að ég ætti að fara að koma mér að verki. Annars, ef þið viljið þykjast vera rosa góð og kunna finnsku þá er gott að segja "úrgallabuxunum" rosalega hratt, með mjög hörðu erri. Þetta hljómar ótrúlega finnskt. Fyrst ég er nú byrjuð á tungumálakennslunni þá er ekki úr vegi að kenna smá ítölsku. Uppáhalds ítalska orðið mitt er: Mammella, það er sagt með ítölskum hreim og helst með handapati. Þetta þýðir brjóst!

Annars mæli ég ekki með því að kyssa breta!


Veröld/Fólk | Morgunblaðið | 21.10.2003 | 5:30

Andfúlli en gæludýrin


Yfir helmingur Breta er andfúlli en gæludýr þeirra, samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar.
Sérstaklega reyndist andremma útbreidd meðal brezku kvenþjóðarinnar; þrjár af hverjum fimm konum komu illa út úr andremmuprófinu sem lagt var fyrir þátttakendur í rannsókninni.

"Sumir hálsar kunna að vera skítugri en kattasandur," segir í tilkynningu brezka tannlæknisins Brian Grieveson, sem gefin var út ásamt niðurstöðum rannsóknar sem unnin var á vegum tannkremsframleiðanda og greint er frá í svissneska blaðinu Tages-Anzeiger. 1000 manns tóku þátt í rannsókninni.

Samkvæmt niðurstöðunum hafa Skotar hreinni munnhol en Englendingar. Aðeins 10% þeirra Skota sem þátt tóku féllu á andremmuprófinu. Aftur á móti féllu 27% Lundúnabúa á því. Að meðaltali yfir allt Bretland má samkvæmt niðurstöðunum segja að 52% íbúa landsins sé andfúlli en heimilishundar og -kettir flestir eru.

Að sögn Grieveson tannlæknis nægir ekki að bursta tennurnar. Bretar séu "meðal síðustu þjóða, sem gerir sér grein fyrir nauðsyn þess að hreinsa líka tunguna í sér".

Ritarar voru sú starfsstétt sem kom einna bezt út úr rannsókninni, en afgreiðslufólk verst. Frá aðstandendum rannsóknarinnar fékk það viðvörunina: "Þið gætuð fælt frá ykkur viðskiptavinina."


20 október 2003

Uppskriftahorn til heiður Sunnu

Sem stuðningur við "breytts lífstíls" átakið hennar Sunnu set ég holla og góða uppskrift í uppskriftahornið að þessu sinni. Verði ykkur að góðu!

Wok-réttur


Innihald:
Smá olía
3 hvítlausgeirar
Ca 300-400 g kjúklingakjöt í litlum bitum
1 grænmetis soðkraftsteningur leystur upp í 2 dl af brokkolísoði
1 laukur
1 gul paprika
1 rauð paprika
200 g brokkolí
1 lítil dós ananas í bitum, með safanum
sojasósa
balsamvínedik (eða annað vínedik)
2 msk fljótandi hunang

Aðferð:
Skerið brokkolíið í litla bita og sjóðið vel.
Pressið hvítlaukinn og brúnið í olíunni. Skreið laukinn í strimla og bætið við. Steikið vel. Leysið grænmetisteninginn upp í brokkolísoðinu og hellið yfir laukinn, látið malla í nokkrar mínútur. Takið af pönnunni og steikið kjötið. Skerið paprikuna í strimla og setjið svo allt grænmetið á pönnuna með kjötinu. Kryddið með sojasósu, vínediki og hunangi. Látið malla rólega í um 10 mínútur. Einnig má bæta við karrýi og chili kryddi til að fá meira bragð.

Berið fram með hrísgrjónum og snittubrauði.

Brölt

Föstudagur

Jæja, þá er ég komin heim frá Uvlotti, nokkuð ósködduð. Atso, móðurbróðir Jens og eyjueigandi, sótti okkur á lestarstöðina í Turku og keyrði okkur heim til ömmu Jens því að það væri náttúrulega glæpur að koma til Turku án þess að heimsækja hana. Hún er svooo mikil amma, í þeirri merkingu orðsins að hafa über áhyggjur og láta mann borða allt of mikið. Allavega, hún var rosa glöð að sjá okkur og lét okkur strax setjast við eldhúsborðið, þar sem við vorum reyndar mest alla þá 2 tíma sem við stoppuðum hjá henni, já, við vorum mest allan tíman að borða. Sko, fyrst fengum við kjötbollur sem hún gerir rosa oft því Jens finnst þær svo góðar en mér finnst þær ekkert spes, fengum reyndar rosa góða kartöflustöppu með. Ég borðaði mig þokkalega sadda því ég var ekki viss hvenær við fengjum að borða næst. Jæja, ég náttla gleymdi að reikna með því að þetta væri ekki eini rétturinn. Næst fengum við hrísgrjónagraut og reyndi ég að fara pent í hann þar sem ég var orðin södd. En það voru nú ekki allir sáttir með hvað ég borðaði lítið! En þetta hefði nú alveg dugað mér, og vel rúmlega það. En þá var ekki allt búið enn! Þá skellti hún einhverju eplabrauði í ofninn og við fengum kaffi, epladótið og muffins. Og ég var aaaaalveg að springa. Þá fór hún að nesta okkur upp fyrir ferðina. Byrjaði á að láta okkur frá meetwursti sem er finnsk salamipysla sem Jens er rosa hrifinn af. Við eigum samt ennþá byrgðir af þessu sem hún gaf okkur í haust. Svo ætlaði hún að láta okkur fá brauð, en við afþökkuðum það, sögðum að við fengjum nú alveg nóg að borða um helgina. Jæja jæja, en oststykki, viljið þið fá eitt með ykkur. Neinei! En hrisgrjónagraut, en kjötbollur, en........ Hvað var svo það fyrsta sem við gerðum þegar við komum út í eyju, jú borðuðum!

Ferðafélagarnir voru þessir:
Atso og Titta konan hans, þau sem eiga eyjuna. Þau voru með hundin Sanni með sér sem er finnskur hundur, svipaður og sá íslenski nema minni.
Juha sonur þeirra og Tiina (sagt dýna) kærastan hans. Hún tók svo með sér hundinn sinn hann Viktor sem er svaka sætur en vitlaus dalmatíuhundur.
Katri, systir Jens, og Juha kærastinn hennar. Til að aðskilja Juha-na er þessi kallaður Juha stóri því hann er bæði stærri og eldri.

Það var byrjað að drekka strax í bátnum á leiðinni og drykkjunni haldið áfram þegar á áfangastað var komið. Ég fékk rosa gott rauðvín, langt síðan ég hef fengið rauðvín, viðbrygði frá því í Frakklandi. Annars gerðum við svosem ekki mikið um kvöldið, horfðum á finnska Idols og einhverjir fóru í gufu. Eitthvað gekk mér nú illa að sofa um nóttina, allar höfðu svo hátt og það var alltaf einhver eitthvað að brölta, fara að pissa eða að fá sér að drekka. Eitthvað var Viktor ekki sáttur, var alltaf að væla eða að hoppa upp í rúm til mín. Það er sko ekkert djók að vera með dalmatíuhund ofan á sér!

Laugardagur

Strákarnir fóru að veiða snemma um morguninn og svo aftur eftir hádegi. Veiðin var ágæt. Þarna veiðist gedda, mér líst ekki vel á solleis. Í matinn fengum við grænbaunasúpu sem er eitthvað svona hefðbundið finnskt. Þetta var ágætt. Eftir hádegið fórum við stelpurnar með Atso og Tittu í búðina og svo í heimsókn. Það var nú alveg leiðinlegt sko. Vorum í heimsókninni í 2 tíma og allir töluðu finnsku og ég bara beið þar til þetta var búið. Alveg búin að vera af leiðindum þegar við svo loksins fórum. En þegar við komum til baka var kominn gufubaðstími. Atso hafði hitað heitapottinn líka í þetta skiptið. Þetta er samt enginn venjulegur heitur pottur. Hann er úr við og er með viðarofni sem hitar vatnið. Hann er svaka flottur. Hann var um 40-42°heitur allan tíman, það er sko ekki slæmt. Það var því skipst á að vera í 42°heitum potti og 90°heitu gufubaði og kælt sig með bjór eða cider. Ansi áhugavert! Einhverjir fóru svo í sjóinn, hann er samt ískaldur núna og mig langaði ekkert. Að þessu loknu var svo heljarinnar partý og allir blindfullir. Við vorum að spá því að bráðum myndi Sanni eignast litla doppótta hvolpa!

Sunnudagur

Við fórum öll að veiða þegar við vöknuðum, ég veiddi ekkert. Þegar við vorum búin að veiða borðuðum við og gengum frá. Juha stóri var að skola á sér puttana í sjónum og rann óvart til og beint út í sjó! Hehehe, hann var sko rennandi blautur. Við sigldum svo aftur til Turku, komum við hjá ömmunni áður en lagt var af stað heim, vissara að belgja sig út, það er aldrei að vita hvenær við komum til hennar næst!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?