<$BlogRSDUrl$>

01 nóvember 2003

Nammidagur 

Ég hugsa að ég slappi bara af í dag. Ég hef margar góðar ástæður fyrir að taka þá ákvörðun:
1. Það er nammi-, pepsi- og pizzudagur svo að það er vissara að halda sig heima, hjá öllu góðgætinu. Svo þarf ég líka að baka pizzu á eftir.
2. Ég er með sjúklega strengi ALLSSTAÐAR því ég var svo dugleg í ræktinni í gær og í fyrradag.
3. Ég er í svo þægilegum "náttfötum" að mig langar ekkert að skipta í venjuleg föt (kannski ekki góð ástæða, gæti farið út í náttfötunum)
4. Það er allraheilagramessa og þessa vegna er allt lokað. Mér finnst það ótrúlega hallærislegt því að allraheilagramessa er kaþólsk hátíð og finnar eru ekki kaþólskir. Svo er þetta
ekki einu sinni á skóladegi svo að þetta er ekki einu sinni afsökun fyrir nemendur til að fá frí. Við vorum búin að ákveða að fara í IKEA í dag, en neinei, allt lokað!
5. Það er s.s. ekkert hægt að gera úti nema að fara í göngutúr og ég er ekki í göngutúrafæruástandi þessa stundina.

Hugsa að þetta dugi, ég er allavega sannfærð.

Við horfðum á "A view from the top" í gær. Ótrúlega dularfull mynd, var samt alveg skemmtileg. Mike Myers er líka í uppáhaldi hjá mér svo að þetta var bara gaman.

31 október 2003

MBL 

Það er hræðilegt að lesa mbl.is núna, það eru ekkert nema fréttir um bílslys, og það sem verra er, banaslys. Það kemur alltaf svona árekstrahrina á haustin þegar það kemur hálka í fyrsta skiptið en mér finnst eins og þetta sé óvenju slæmt núna.


30 október 2003

URRG

Jæja, nú er ég hætt að prjóna vetlinga á Jens, hann er alltaf að týna þeim. Það ætti að kenna honum eitthvað að vera með frostpinnaputta þegar það fer að vera 20-30°C frost hérna. Annars möguleiki í stöðunni er að setja svona band í vetlingana sem maður setur inn í úlpuna, fyrir litlu börnin. Ég er alltaf að prjóna svaka fína og góðu vetlinga á hann sem mér finnst nú að hann ætti að passa upp á, en alltaf týnast þeir. Hvað finnst ykkur að ég eigi að gera í þessu? (Sjá könnun)

Uppskriftahorn

Jæja, nú finnst mér vera kominn tími á uppskriftahorn, að þessu sinni ætla ég að deila með ykkur uppskrift af grænmetislasagna. "Grænmetislasagna", það hljómar rosalega hollt en er soldil kaloríubomba því það er mikill ostur og smá rjómi. Það er samt rosalega gott og ég mæli eindregið með því að þið prófið, mér finnst það sko miklu betra en venjulegt lasagna. Það er auðvitað í boði líka að setja eitthvað annað grænmeti en er í uppskriftinni en ég hef það venjulega fyrir reglu að fyrst þegar ég prófa nýja uppskrift fer ég alveg eftir henni, svo í næsta skipti má breyta til. Verði ykkur að góðu:

Grænmetis lasagne

400 g niðursoðnir tómatar, í bitum
1 dós dómatpúrra
2½ dl rjómi
250 g ferskir sveppir
1 piparostur
1/2 spergilkálshöfuð
1 laukur
nokkur hvítlauksrif
½ stk blaðlaukur
ólífuolía til að steikja upp úr
rifinn ostur
salt og pipar
kryddjurtir að eigin vali, t.d. oreganó, steinselja eða villijurtir
grænar lasagneplötur
smjör, hveiti, mjólk (=béchamel, er eins og ósætur uppstúfur)
Parmesan
Það má líka setja chili eða cayenne pipar fyrir meira bragð

Matreiðsla
Sjóðið spergilkálið í nokkrar mínútur, steikið laukinn, blaðlaukinn og nokkur hvítlauksrif í ólífuolíu (ekki brúna). Takið laukinn af og steikið sveppina. Bætið kálinu og lauknum, tómötunum og tómatpúrrunni út í. Kryddið. Hellið rjómanum út á og látið krauma í smástund.

Sósa
Bræðið 4 msk. af smjöri í potti og bætið 1 dl af hveiti út í. Hrærið stöðugt í á meðan. Bætið 1/2 til 1 lítra af mjólk varlega út í, hrærið á meðan, setjið brytjaðan piparost út í, nokkur rif af mörðum hvítlauk og steinselju. Látið suðuna koma upp.

Aðferð
Raðið lögunum í eldfast mót með hefðbundnum hætti, þ.e. ostasósa, plötur, ostasósa, grænmetissósa, plötur, ostasósa, grænmetissósa o.s.frv. Það er líka gott að strá parmesanosti með jöfnu millibili í lögunum. Þakið plöturnar efst með ostasósu og rifnum osti. Bakið við 200°C í 45 mínútur með álpappír yfir og u.þ.b. 15 mínútur án álpappírs.

Berið fram með snittubrauði og parmesan.

29 október 2003

Íslendingar

Talaði við formann Íslendingafélagsins hérna í gær. Var svona að fá upplýsingar um þetta allt saman. Hann sagði að félagið væri ekkert rosalega virkt en það eru litlu-jól og þorrablót a.m.k. Svo er skóli og leikskóli einu sinni í viku fyrir íslensk börn. Það væri nú samt gaman að taka þátt í einhverju með þeim, svona til að komast aðeins í íslenska fílinginn.

ISS

Sá að ISS (hreingerninafyrirtæki) var að auglýsa eftir starfsfólki og það mátti koma á atvinnuskrifstofuna til að tala við einhvern á þeirra vegum í dag, klukkan 12, 13 eða 14. Klukkan 12 vorum við tvær mættar. Hvorug okkar talaði finnsku. Önnur kvennanna tveggja sem um þetta sáu hélt dágóðan fyrirlestur sem ég held að hafi verið um skipulag fyrirtækisins og hvernig þetta gengur fyrir sig. Svo fengum við umsóknir, á finnsku. Jæja, þær voru þó almennilegar konurnar og hjálpuðu okkur við þetta en sögðu jafnframt að fyrirtækið væri að leita að fólki sem talaði finnsku. Konan sem hjálpaði mér virtist vera svaka spennt fyrir því að ég væri frá Íslandi og var að spurja mig fullt af spurningum um það. Henni virtist lítast vel á mig, var líka mjög áhrifamikil ;) Kom með CV og tvö meðmælabréf og allskonar pappíra sem ég bauð henni. Við sjáum hvað kemur út úr þessu, er svo sem ekkert alltof bjartsýn því konan sagði að þau væri að leita að fólki sem talar finnsku, en aftur á móti, þegar bara tveir mæta og hvorugur talar finnsku, þá kannski, vonandi, endurskoða þau mál sitt.

Tallinn

Finnskuhópurinn minn er að skipuleggja ferð til Tallinn, okkur Jens langar að fara og vorum að spá í því, en vorum aldrei búin að gera neitt í því. Það er mjög ódýrt að komast þangað, um 1800 kr fram og til baka með bát, og svo fann ég youth hostel sem kostar um 900 kr nóttinn á mann, í tveggja manna herbergi og morgunmatur kostar 150 kr. Svo er allt rosalega ódýrt þarna. Fór í dag og keypti mér Lonely Planet bók fyrir Eistland, Lettland og Litháen. Við erum nú svo sem ekki komin langt í skipulaginu en þó að þetta detti uppfyrir hjá finnskuhópnum er ég viss um að við Jens skellum okkur. Vill einhver koma með?

Já, lyftan er komin í lag, tók 2 daga núna!

28 október 2003

Sorg

Það ríkir mikil sorg hérna núna, snjórinn er allur bráðnaður, *sniff*, það er nefnilega kominn 6 stiga hiti. Það jafnast svo sem ekki á við 15 stiga hitann á Akureyri! Hefði nú samt frekar viljað hafa snjóinn, nú er allt blautt og subbulegt.

Gleði

Gleymdi einu í búðarfrásögn gærdagsins. Það var nefnilega svo að þegar við gengum inn í búðina blöstu við okkur jóladagatöl og við vorum sko ekki lengi að næla okkur í svoleiðis. Ég fékk flottasta dagatal sem ég hef á ævinni fengið. Það er sko Winnie the Pooh súkkulaðidagatal og "+ mini organizer", það er sko ekki slæmt! Að sjálfsögðu er dagatölin svo komin upp á vegg. Svo fór ég að hugsa, það er nú dálítið langt þar til 1. desember kemur og stakk þá Jens upp á því að hafa eitt dagatal fyrir nóvember og eitt fyrir desember, ekki svo slæm hugmynd það. Hugsa samt að ég falli ekki í þá freistingu og láti mér nægja að horfa á dagatalið mitt og slefa þar til 1. desember.

Annars fer nú að líða að næsta uppskriftahorni hjá mér, set inn einhvurja girnilega uppskrift á næstu dögum.

27 október 2003

*********=eitthvað rosalega ljótt orð, þið megið velja það sjálf!

Lyftudruslan er biluð aftur, alveg eins og síðast í þokkabót, föst á fjórðu hæð. Seinast tók 3 daga að fá viðgerð og ég nenni ekki að hlaupa upp á fimmtu hæð í nokkra daga. Úff, bjévítans!

Sjaldan er ein báran stök

Já, það var víst raunin dag. Fórum í okkar vikulegu búðarferð í dag. Keyptum sitt lítið af hvurju eins og gengur og gerist. M.a. keyptum við forláta mýkingarefni svo að ég rispi mig ekki á handklæðunum okkar. Þegar komið var að kassanum tókst Jens að missi mýkingarefnið í gólfið með þeim afleiðingum að gat kom á og við urðum græn (jú, þannig var efnið á litinn) svo gott sem upp á mitti. Slettist út um allt og eftir var grænn pollur á gólfinu. Jæja jæja, við réttum afgreiðsludömunni ónýtan brúsann og héldum áfram eins og ekkert hafi í skorist. Svo kom að því að borga. Ég rétti afgreiðsludömunni, sem var nú ekki lengur jafn brosandi, tilskylda seðla og læddist svo ofan í vasann minn til að finna það klink sem upp á vantaði. Það vildi þá ekki betur til en svo að ég missti nær allt klinkið mitt á gólfið, sem betur fer var hjálpsöm stelpa á eftir okkur í röðinni sem hjálpaði mér við að týna þetta upp og ég gat loksins klárað að borga. Svo ætlaði ég að ganga frá restinni af klinkinu og þá missti ég meira í gólfið.

Við komumst heim að lokum en þá vildi ekki betur til en svo að smjörstykkið var allt kramið og ísinn lak í töskuna. Þetta er ekki sanngjarnt!

26 október 2003

Helsinkiferð

Jæja, þá er kominn sunnudagur. Það er kominn vetrartími hjá okkur, græddum einn klukkutíma í nótt. Nú er s.s. tveggja tíma munur á Íslandi og Finnlandi. Við skelltum okkur inn í miðbæ Helsinki í gær, það var mjög gaman. Það kyngdi niður snjó allan daginn og mér fannst það sko ekki leiðinlegt. Það var mjög mikil jólastemning í bænum, því það snjóaði, og svo var eitthvað sirkusdæmi í gangi svo að það glumdi tónlist og allar götur. Við fórum á Kilroy travels og keyptum miða til Danmerkur, erum svo búin að kaupa miða með Air Greenland frá Köben til Akureyrar, frábært það. Það er s.s. allt klappað og klárt fyrir jólafrísheimkomuna. Komum 18. desember og förum aftur út 12. janúar. Held ég hafi aldrei fengið svona langt jólafrí. Að því loknu kíktum við í nokkrar búðir, m.a. risastóra H&M búð, fór þangað til að leita mér að svona "heima/kvöld fötum", æ þið vitið, svona þægileg föt sem maður fer samt ekki í út. Fann rosalega þægilegar buxur ljósbláköflóttar, og ljósbláan bol við. Ég komst nebbla að því að ég á bara einn náttbol sem ég get verið í ef ég nenni ekki að vera í venjulegum fötum, en hann er alls ekki nógu hlýr, kyndingin hérna er ekkert alveg á miljón svo að það er ekki hægt að vera lengi lítið klæddur.

Eftir búðarráp fórum við á Subway, mmmmmmm, algjört æði. Svo tókum við ferju yfir í Suomenlinna sem er eyja rétt fyrir utan Helsinki. Þar er einhver fín höll, þetta er allavega eitthvað svaka merkileg eyja. Ég þekki það bara ekki nógu vel. Þarna er líka skóli fyrir sjóhermenn svo að það var fullt af flottum gæjum á vappi þarna, tíhí. En það var a.m.k. mjög gaman að sjá þetta, skoðuðum eldgamalt virki og röltum um. Mjög heillandi staður, soldið eins og að fara aftur í tíma, gömul hús og mjóar hellulagðar götur.

Þegar við komum aftur í nútímann skruppum við á kaffihús, ég veit ekki hvenær ég gerði það seinast. Allavega allt of langt síðan. Fengum okkur smá kaffi til að ylja okkur, það var nefnilega frekar kalt út. Ferðin var alveg frábær bara og ég var dauðþreytt þegar heim var komið.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?