<$BlogRSDUrl$>

07 nóvember 2003

Helgarferð til Lahti 

Núna á eftir, þegar Jens kemur heim úr skólanum, ætlum við að rölta niður á lestarstöð, hoppa upp í lest og bruna til Lahti, þar sem Katri, systir Jens á heima. Planið er eftirfarandi: Í kvöld gerum við frekar lítið því við komum svo seint. Á morgun kemur amma þeirra og við erum öll að fara í heimsókn til mömmu Juha (kærasti Katri). Ég er reyndar ekki með á hreinu af hverju við erum að fara í heimsókn til hennar, finnst það pínu skrítið, en jæja, það ætti að vera í lagi. Seinnipartinn fer amman aftur til Turku. Í kvöldmat ætlum við að gera crêpes, mmmmmmmmm! Hver veit nema við opnum rauðvínsflösku líka. Allavega, að því loknu vorum við að spá í að fara eitthvurt út að skemmta okkur. Öll plön í kringum það eru samt frekar óljós ennþá. Á sunnudaginn er pabbadagurinn svo að Juha er að fara að heimsækja pabba sinn en ég, Jens og Katri ætlum að fara eitthvað út, ein svona útivistarskóg og/eða fönda jólakort. Fer dáltið eftir veðri.

Annars er ég hundfúl núna, það er allur snjórinn að bráðna á Akureyri og plön mín um að fara á skíði um jólin renna hratt niður í ræsið :(

04 nóvember 2003

Grumpy kelling 

Nú er ég sko aldeilis með skrítna sögu handa ykkur. Sko! Í gær fór ég í finnskutíma, eins og aðra mánudaga. Ég kem venjulega fyrst á mánudögum því strætóarnir passa svo illa að ég þarf annaðhvort að vera komin allt of snemma eða allt of seint. Jæja, jæja. Það var frekar hryssingslegt úti svo að ég hlakkaði til að komast inn í hlýjuna, eftir að hafa rölt frá strætóstoppustöðinni. Þegar ég svo kom upp að húsinu var allt harðlæst en ljósin samt kveikt. Ég prófaði að dingla dyrabjöllu sem þarna var en enginn kom til dyra. Eins og venjulega á svona stundum fór hugmyndaflugið á fullt hjá mér. Sérstaklega afþví að það leið og beið og enginn kom. Líkleg skýring fannst mér sú að það hefði verið hringt í alla til að láta vita að það væri ekki tími, en málið er að ég var ekki komin með símanúmer þegar ég skráði mig svo að þau vita ekki símann hjá mér. Ákvað samt að bíða aðeins. Heldur betur varð ég nú glöð þegar ég sá að Laura kom röltandi upp heimreiðina. Ekki kannaðist hún við að það ætti ekki að vera tími í dag. Smám saman týndist svo liðið á staðinn og seinastur kom kennarinn, hann er alltaf frekar seinn. Fjúff, hugsuðum við, loksins komumst við inn, mér allavega var farið að verða soldið kalt. Hann varð hissa í framan, fannst skrítið að við biðum þarna fyrir utan. Við sögðum honum hvernig á þessu stóð og biðum eftir að hann opnaði. Hann varð rosa vandræðalegur og fór að snúast í hringi. Þá komumst við að því að hann er ekki með lykil. Nú voru góð ráð dýr. Kennarinn spurði hvort við værum með bæklinginn frá skólanum þar sem voru gefin upp mikilvæg símanúmer, en nei, enginn með hann. Við stóð um stund ráðalaus og enginn sagði neitt. Allt í einu sjáum við konu, inn í húsinu. Kennarinn byrjar að berja í gluggann af fullum krafti og þegar konan tekur eftir því hleypur hún í burtu. Við urðum öll orðlaus og einhver stakk upp á því að hún væri e.t.v. þjófur og vildi ekki láta sjá sig. Kennarinn fór að skoða í hina gluggana og fann þá, á einhverri skrifstofu, konuna sem flúði áðan. Hann barði á hennar glugga og loksins opnaði hún. Jæja, þá héldum við nú að okkur væri bjargað. Nei, það var víst ekki svo gott. Hún vann s.s. ekki hjá þessu námskeiðadóti heldur hjá einhverju fjölskylduráðgjafafyrirtæki sem er í sama húsi. Hún sagði þess vegna að það væri ekki á hennar ábyrgð að hleypa okkur inn. Hún bara harðneitaði, og fór. Kennarinn stóð eftir alveg orðlaus. Hann tuðaði helling meira í henni, alveg heillengi, þar til hún að lokum féllst á að tala við einhvern sem var uppi og á vegum námskeiðanna. Hún ætlaði að fara og spurja hvort hún mætti hleypa okkur inn. Eftir dálitla bið ennþá komu tvær konur og opnuðu. Þá loksins gat tíminn byrjað! Þetta var nú frekar fyndið allt saman, get nú ekki sagt annað. Margir áttu mjög góð skot þarna. Ein stelpan stakk upp á því að fara hringinn í kringum húsið og leita að opnum glugga. Þá svaraði önnur, frekar hneiksluð, að við værum nú ekki svo desperate. Þetta reddaðist þó á endanum og við gátum lært smá.


P.s. Allir að taka þátt í nýju könnuninni minni :)

03 nóvember 2003

Tungumál, strætó og helgin 

Strætókerfið hérna er alveg ágætt, fyrir utan það að strætóarnir eru oft of seinir. Heimasíðan þeirra er mjög góð, þar er hægt að stimpla inn hvar maður er, hver maður vill fara og annað hvort hvenær maður vill fara eða koma á ákveðinn stað. Þeir gefa manni þá upp þá strætóa sem þarf að taka, kort af leiðinni með stoppu- og skiptistöðvum. Þeir meira að segja reikna með tíma í að labba út á stoppustöð og segja manni hvenær maður á að leggja af stað. Ótrúlega þægilegt allt. Þeir meira að segja bjóða upp á þessa þjónustu á nokkrum tungumálum. Finnsku, væntanlega, sænsku, ensku og "slangi" sem væri slangur er talmál, eða öllu heldur unglingamál. Talmálið hérna hefur miklar sænskuslettur og getur því oft verið nokkuð ólíkt ritmálinu. Svo er fólk sem er á móti sænskuslettum og það þykir ekki fínt að skrifa eitthvað með svoleiðis, svona eins og þið getið ýmindað ykkur. En ég held ég hafi aldrei áður séð vefsíðu sem bíður upp á vera á talmáli. Á íslensku er ekki svo mikill munur á talmáli og ritmáli, en t.d. franska, þar er ritmál, talmál og unglingamál, og það er mikill munur á milli þessara þriggja mála. Við erum að tala um að það eru til 2 þátíðir sem eru bara notaðar í ritmáli! Unglingamálið einkennist af miklum orðaleikjum og útursnúningum og það er erfitt að læra það allt saman, ég oft skildi ekkert hvað unglingarnir voru að tala um sem ég sá úti á götu í Grenoble.

Allavega, það sem ég er að reyna að segja með þessu er að mér finnst þetta ótrúlegt framtak hjá finnunum, reyna að gera þessa síðu skiljanlega fyrir öllum.

Helgin var frekar róleg. Í fyrsta lagi af því að það var allt lokað á laugardaginn og svo líka af því að maður er alltaf latur á sunnudögum. Fórum reyndar í IKEA. Keyptum svuntu á mig (þetta gengur ekki lengur, ég er alltaf útötuð og þarf oft að setja fötin mín í óhreinatauið þegar ég er búin að elda), ljós á eldhúsborðið (það er svo dimmt þar), kerti, 2 rauðvínsglös á útsölu sem kostuðu 25 kr stykkið og perur. Ætlaði að vita hvort þeir ættu jólakort en sá engin. Ég er nebbla aðeins farin að hugsa út í jólakort. Málið er s.s. það að ég vil síður senda öllum jólakort sem eru með fullt af finnskum texta inn í því hann er með öllu óskiljanlegur. Hef ekki enn fundið kort sem eru auð inn í. Er að velta fyrir mér hvort ég eigi að föndra kort eða græja kort frá Íslandi. Kemur í ljós.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?