<$BlogRSDUrl$>

21 nóvember 2003

Æ mig auma... 

Sko, ég fór í ræktina áðan, sem er nú svo sem varla í frásögur færandi. Áður en ég fór svo heim þurfti ég að koma við í búðinni. Þegar ég geng inn fer þjófavarnarhliðið á fullt. Ég prófa að bakka og fara inn aftur og allt fór í gang aftur. Enginn starfsmaður var nálægt. Einhver kona sem var að kaupa kál sagði einhver ósköp við mig og eina sem á skildi var "kassalle" sem þýðir að kassanum og reiknaði því með að hún væri að ráðleggja mér að fara og tala við einhvern á kassa. Þar voru geðveikar raðir en ég valdi mér eina sem var temmileg. Ég nálgaðist í sífellu kassann en sá að konan við hliðina var að opna. Hún var stelpa ca 25 ára en sú sem var á mínum kassa var svona 50. Ég hugsaði því með mér að það væri meiri líkur á að sú unga talaði ensku svo að ég vippaði mér yfir til hennar. En nei, ekki þóttist hún kunna ensku, þó ég spyrði hana á finnsku. Ég mátti því fara aftur í röðina hjá þeirri gömlu, sem var nú orðin miklu lengri. Hún sagðist kunna ensku en það kom á hana mikill fýlusvipur þegar ég spurði hana. Ég útskýrði mál mitt, hún bað mig um að bíða, sem ég gerði, hún þurfti að klára að afgreiða nokkra. Svo kom hún með einhverja græju og bað mig að taka upp úr töskunni minni, var með fulla tösku af dóti sem ég nota í ræktinni. Á kassanum hjá ungu dömunni var nú komin mjög löng röð, um 10 manns. Allir gláptu á mig eins og ég væri einhver krimmi. Við komumst svo að því að sjampóið mitt væri valdurinn að þessum hamagangi. Það er gamalt, næstum tómt, en þjófavörnin á því var orðin virk aftur. Konan tók sjampóið af mér og ég mátti sækja það þegar ég væri búin að versla. Ég skammaðist mín alveg oní rassgat, það störðu svo margir á mig. Jæja, þegar þessu var svo lokið tók ég mér körfu og ætlaði að byrja að versla, sem gekk frekar illa. Ég var orðin svo stressuð og taugaveikluð að ég var búin að gleyma öllu sem ég þurfti að kaupa og var ég heillengi að rötla um búðina að róa mig og reka augun í það sem ég þurfti að kaupa. Held mér hafi tekist að muna allt en var ótrúlega lengi að finna eggin. Þetta var nú alveg svakalegt, ég þori sko ekki aftur að fara í búðina þegar ég er búin í rætkinni!

Próf og vín 

Huhh, segi ég nú bara. Þetta próf var nú meira fratið. Ég var búin að læra úr mér allt vit og svo var ég 20 mín með prófið og kennarinn tók það ekki einu sinni til baka, við leiðréttum það sjálf. Ég var með 3 pínu ponsu oggo litlar klaufavillur, Jens segir að ég ætti að fá 10 en ég vil halda mig við 9,8 því mig dreymdi það. Ekki það að einkunnin skipi máli, það sem er mikilvægt er að ég kann greinilega alveg það efni sem búið er að fara í fram að þessu.

Í gær var beaujolais nouveau dagurinn, það er alltaf 3. fimmtudagur í hverjum nóvember. Þá koma fyrstu beaujolais vín sumarsins í búðir. Ég hef alltaf gaman af þessu og í Frakklandi er alltaf alsherjar fyllerí þennan dag, allir fara í bæinn og drekka fullt af rauðvíni. Ríkið stendur sig ágætlega í þessu og kaupi ég alltaf að hverju ári vín frá sama framleiðandanum því mér finnst það svo gott, og það fæst bara í nokkra daga á ári. Í gær rölti ég svo full eftirvæntingar í Alko, sem er finnska ríkið. En piff, þeir áttu 2 tegundir af beaujolais. Það fannst mér nú ekki mikið, keypti þær samt báðar. Svo rakst ég á sniðugan bjór, sem er í rauninni eini bjórinn sem ég drekk. Hann er belgískur, heitir Kriek og er með kirsuberjabragði. Smakkaði hann fyrst árið 1995 þegar ég var í Belgíu, en þá hafði ég ekki mikið vit á áfengi skulum við segja, því eftir 1 venjulegan bjór og 1/2 Kriek var ég bara góð sko! Vandaði mig við að labba og svo hjóla heim að partýinu loknu. Allavega, svo smakkaði ég þennan bjór aftur í Frakklandi og var mjög hrifin af honum. Hann er bleiiiikur og svolítið sætur svo að það er ekki hægt að drekka mikið af honum í einu. Ég veit ekki hvort hann fæst í ríkinu, en ef hann er til þá mæli ég með að prófa eina flösku.

Annars ætlum við að prófa beaujolais vín í kvöld, það verður spennandi.

19 nóvember 2003

Nei nú gengu þeir of langt! 

Ég sagði ykkur um daginn frá konu sem var í Heikkoin lenkki (Weakest link) sem hét Auli, fannst mér það nú ekki sniðugt. En í morgun duttu mér allar dauðar lýs úr höfði, það er víst til nafn sem er "Aila" sem er s.s. sagt Æla. Það er nú meira hvað finnar eru miklir rugludallar, hvernig dettur þeim í hug að skýra einhvern Aula eða Ælu. Mér finnst það ekki mjög mannúðlegt.

Annars er ég að fara í finnskuprófið í dag, er þess vegna vöknuð snemma, klukkan er núna hálf 9 og ég er barasta komin á fætur og tilbúin, búin að fara í sturtu, klæða mig og fá mér morgunmat. Á bara eftir að bursta. Mig dreymdi að ég fengi 9,8 á prófinu, gæti alveg sætt mig við það. Annars er einkunnakerfið hérna frekar skrítið. Skalinn er frá 0-5 en það virkar samt ekki þannig að það sé hægt að margfalda með 2 til að fá sambærilega íslenska einkunn. Málið er að 0 á finnska skalanum þýðir fall, 0 nær s.s. yfir 1-4 á þeim íslenska, og 1-5 samsvarar því 5-10. 5-10 er samt lengra bil en 1-5 svo að þetta er ekki eins einfalt og það sýnist en ég nenni ekki að fara að reikna út einhverjar formúlur fyrir þessu.

Á morgun fáum við svo út úr finnskuprófinu og við vorum að spá að allir myndu koma með eitthvað að borða, þar sem þetta er nú síðasti tíminn fyrir jól!! Jahá, ég er sko komin í jólafrí í finnskunni á morgun. Þá get ég einbeitt mér að jólakortaföndi og þess háttar.

16 nóvember 2003

Líkamsræktarstöð fyrir feita hunda 

Þetta er nú með því fyndnara...

Veröld/Fólk | Morgunblaðið | 16.11.2003 | 5:30

Líkamsræktarstöð fyrir feita hunda

Um 60 af hundraði hunda í dönskum borgum og bæjum eru of feitir og þess vegna hefur verið komið upp líkamsræktarstöð fyrir þá á dýrasjúkrahúsi í Kaupmannahöfn, að sögn danska dagblaðsins Berlingske Tidende í gær.

Eftir stutt steypibað eru hundarnir settir í tóman glertank með hlaupabretti á botninum. Brettið færist hægt í fyrstu meðan dælt er 28 gráða heitu vatni í tankinn. Hægt er að stilla hlaupabrettið á allt að 30 km hraða á klst. en gert er ráð fyrir því að hraðinn verði yfirleitt um 15 km á klst. með vaxandi mótstöðu frá vatninu. Eftir allt að tíu mínútna hlaup eru hundarnir þurrkaðir og látnir gera teygjuæfingar.Róleg helgi 

Það hefur nú ekkert mikið aksjón verið í gangi hjá okkur um helgina, ég er að fara í finnskupróf í næstu viku og Jens er að fara í lokapróf í einum áfanga á mánudaginn. Höfum því bara hangið heima og þóst læra, svo sem ekkert slæmt. Fórum reyndar á kaffihús á föstadagskvöldið eftir að hafa rúntað aðeins um borgina, erum nefnilega tímabundið með bíl núna.

Í gær fékk ég ansi skemmtilega upphringingu, var sko með bros á vör allt þar til ég sofnaði. Segi kannski betur frá þessu síðar, ég er nú ekkert séð og heyrt!

Allavega, hef nákvæmlega ekkert að segja annars svo að ég held að ég láti þetta duga.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?