<$BlogRSDUrl$>

13 desember 2003

Bágt ástand 

Í gær fórum við og borðuðum á Hesburger sem er eins konar finnskur McDonalds, bara betri. Þegar við komum á staðinn fórum við aftast í röðina, eins og lög gera ráð fyrir. Við biðum í rólegheitum og skoðuðum hvað í boði væri. Skyndilega heyrum við eitthvað skrítið hljóð fyrir aftan okkur og litum við því við. Inn á staðinn gekk einn sá fullasti maður sem ég hef á ævinni séð. Hann átti vægast sagt í mjög miklum vændræðum með að ganga og að halda augunum opnum sem hjálpaði ekki til við ganginn. Svo vaggaði hann allan tíman fram og til baka, frá tám yfir á hæla, jafnvægið greinilega ekki alveg í lagi. Hann hafði þó einstaklega gott lag á að svindla sér í röðinni, sem var nokkuð löng í þetta skiptið. Hann kom aftast í röðina. Þar sem hann átti mjög erfitt með að standa kjurr var hann alltaf að rekast í alla, þar á meðal fólkið sem var fyrir framan hann. Það varð til þess að fólk færði sig til og vinurinn vaggaði áfram. Hann byrjaði að finna til eitthvað klink í vasanum en hélt samt áfram uppteknum hætti; vaggaðist fram og til baka og rakst í fólkið fyrir framan sig. Allan tímann röflaði hann eitthvað óskiljanlegt, því ekki gekk heldur vel að opna munninn. Starfsmennirnir voru farinir að ókyrrast og voru greinilega að hringja á öryggisverði. Á endanum komst vinurinn alla leið upp að afreiðsluborðinu og stóð við hliðina á þeim sem var verið að afgreiða. Beið hann þar rólegur, hann má eiga það að hann var ekki með neina ókurteisi. Þrátt fyrir gríðarlegt átak við að komast alla leið að afgreiðsluborðinu heppnaðist leiðangur hans ekki. Hann var aðeins of seinn til því rétt áður en "röðin" var komin að honum slokknaði gjörsamlega á vininum og hann leið hægt og rólega afturábak og endaði á bakinu á gólfinu. Þetta var mjög tignarlegt fall, beinn líkami allan tímann. Eftir lendinguna átti hann smá auka orku eftir til að strjúka á sér hnakkann sem hafði skollið á gólfinu, síðan ekki söguna meira. Ekki ein einast stuna heyrðist frá honum og allt leit út fyrir að búið væri að slökkva á öllum vöðvum líkamans. Stuttu seinna komu öryggisverðirnir og báru hann í burtu. Aldrei fékk hann hamborgarann sinn.

Þannig fór um sjóferð þá...

12 desember 2003

A dream come true 

Jæja, þá er jólaóskin mín orðin að veruleika, á laugardaginn opnar í Hlíðarfjalli. Það lítur því allt út fyrir það að ég komist á skíði um jólin, ekki slæmt það. Annars var ég að ganni mínu að skoða vef Hlíðarfjalls svona eins og ég geri á hverjum degi til að sjá hvað mikill snjór er þar. Hægra megin á síðunni (undir hnöppunum) eru þrjár litlar myndir sem hægt er að klikka á og fá stærri útgáfu af. Efsta myndin fannst mér mjög girnileg og ákvað að skoða hana betur, og viti menn, haldiði ekki bara að þetta sé hann Jens í góðum fíling í fínu púðri. Verst að hann er í skólanum og ég sem er alveg að springa af spennu að sýna honum þetta, verð víst bara að bíða róleg í nokkra tíma enn.

11 desember 2003

Piparkökuhús 

Í gærkveldi setti ég saman piparkökuhús sem ég fékk í jóladagatalinu okkar. Svona tilbúið í einingum, bara eftir að setja saman. Hehe, þetta var sko fyndið. Það átti að bræða 3 dl af flórsykri á pönnu svo að úr varð eitt svakalegasta lím sem ég hef á ævinni notað. Það storknaði á svona 5 sek svo að það varð að vera fljótur að setja saman og stundum var ég ekki alveg búin að setja partana á þann stað sem ég vildi þegar límið sagði "hingað og ekki lengra". Þetta er því ekki fallegasta piparkökuhús sem ég hef séð en þetta er það fyrst sem ég hef sett saman svo að sem frumraun er þetta nokkuð gott.

Erum annars að fara í jólagjafaleiðangur í miðbæ Helsinki í dag. Vorum svo líka að spá í að halda smá litlu jól á subway. Ég ætti því ekki að vera að blaðra hér heldur drífa mig á fætur og til Helsinki.

09 desember 2003

Lenín 

Ég gleymdi að segja frá því í gær að við fórum á Lenin safn í Tampere, því þar dvaldi hann víst eitthvað. Það var frekar kúl. Skildi samt ekki mikið því allar merkingar voru á finnsku eða rússnesku. Við innganginn voru upplýsingabæklingar og voru þeir á öllum heimsins tungumálum nema ensku, samt stóð "please return" á þeim öllum. Skrítið það! Svo var minjagripabúð á safninu, við keyptum tvo eldspýtustokka. Annan með mynd af Lenín og hinn með hamar og sigð. Áhugavert þetta!

Annars á ég nafnadag í dag. Ógisslega gaman. Fékk rosalega fína gjöf frá Jens, ég fékk piparkökumót með bangsímon, grísla og tígra. Nú verða sko bakaðar piparkökur!

08 desember 2003

Lömun og tjara 

Ég er hálf lömuð núna því ég hef ekki tölvu á daginn. Sko, almenn kennsla er búin hjá Jens en hann er núna í intensive-kúrsi; 3 dagar frá 8-4. Þar er reiknað með að nemendur séu með fartölvu og þarf Jens því að fara með tölvuna í skólann. Ég sé núna hvað ég er orðin háð tölvunni, finnst rosa gott að vera lengi að fara á fætur, kíkja aðeins í tölvuna og borða morgunmat í rólegheitum meðan ég skoða blogg og mbl.is.

...meiri rugludallarnir þessir finnar. Ég man ein jólin, ég var heima hjá Jens. Katri hafði komið með ilmefni fyrir gufubað frá Finnlandi. Ilmefnið virkar þannig að það eru settir nokkrir dropar út í vatnið sem er skvett á steinana, nokkuð góð hugmynd það. Mér fannst líka góð hugmynd að lykta af ilmefninu, það reyndist afar slæm hugmynd þegar upp var staðið. Málið var að það var tjörulykt af ilmefninu, já tjörulykt. Finnar eru víst mér eitthvað "thing" fyrir tjöru. Ég hef alist upp við það að tjara sé eitthvað ógeðslegt... En um helgina gengu þeir nú of langt. Eins og áður hefur komið fram fórum við til Tampere um helgina, sem var fínt. Mjög vel var tekið á móti okkur og húsráðendur voru rausnarlegir í alla staði. Eins og góðum mönnum sæmir var boðið upp á fordrykk, á undan kvöldmatnum. Góð hugmynd. Ekki kannaðist ég nú alveg við drykkinn sem fyrir mig var borinn og fannst því góð hugmynd að lykta af honum. Það reyndist afar slæm hugmynd. Jú, viti menn, það var tjörulykt af sullinu. Rammsterkt ógeð með tjörubragði, það finnst mér sko ekki sniðugt. Reyndi að pína ofan í mig smá en gafst svo upp og gaf Jens afganginn (sem fannst þetta gott...). Alveg komin með klígju af tjöru.

Þegar við svo komum heim og vorum að ganga frá lestarstöðinni fundum við þessa líka sterku tjörulykt, ég sem hélt ég væri sloppin. Hún reyndist koma frá veitingastað sem hafði brunnið. Hann var í yfirbyggðum gangi sem var hjá lestarstöðinni. Viðbjóðsleg lykt. Staðurinn alveg í döðlum.

En bæ ðe vei, hugsið ykkur tvisvar um þegar finnar bjóða ykkur eitthvað "lostæti"!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?