<$BlogRSDUrl$>

30 janúar 2004

Itäkeskus, metro og xylitol 

Við fórum í dag í Itäkeskus sem er stæsta verslunarmiðstöðin í Helsinki. Hún var nú svo sem ekki alveg jafn stór og ég hélt en var þó stór. Nóg var sko af búðum og veitingastöðum, ekki hægt að kvarta yfir því.

Til að komast þangað þurftum við að taka strætó niður í miðbæ Helsinki og metro þaðan. Þetta er í annað skiptið sem að ég tek metro í Helsinki, það fyrsta var núna rétt um daginn. Það bara hefur einhverra hluta vegna ekki komið til þess að ég hef þurft að taka metro, almenningssamgöngurnar hérna eru rosalega góðar. Ég hef kynnst metrokerfum í nokkrum borgum og eru þau venjuleg mjög aðveld og aðgengileg. Ég husaði því með mér að þetta ætti ekki að vera mikið mál, við hlytum að redda því að taka rétta línu í rétta átt. Þegar við komum inn á metrostöðina bjóst ég við að sjá skilti með línunum sem kæmu á þessa stöð og hvert þær færu. Svo var ekki heldur kom strax borgunarhliðið, jæja við fórum þar í gegn. Þá tók við rúllustigi langt niður í jörðina. Mér fannst þetta pínu skrítið en hugsaði með mér að það væru örugglega kort niðri. Þegar við svo komum niður var í boði að fara til hægri eða vinstri og var það merkt "austurátt" og "vesturátt". Nújá, hugsaði ég, svo að það er líklega bara ein lína sem kemur á þessa stöð, en hvernig get ég vitað hvort það sé sú lína sem ég þarf að taka. Ég fann kort og sá að þessi lína stoppaði á þeirri stöð sem ég þurfti að fara á. Hún var hins vegar ekkert merkt. Ég komst þá að því að það er aðeins ein metrolína í Helsinki og það er í boði að fara í austur eða vestur. Frekar einfalt kerfi en kom mér rosalega á óvart. Meira að segja í Lyon voru held ég 5 línur. Þetta kemur þó ekki að sök því að það eru líka strætisvagnar, sporvagnar, lestar og ferjur sem að mynda samgöngukerfið í Helsinki.

Í Itäkeskus keypti ég mér tyggjó, sem er nú ekki í frásögur færandi. Ég sá að það stóð Xylitol á pakkanum, eins og er núorðið í flestum tyggjóum. Ég benti Jens á að það var bæði skrifað Xylitol og Ksylitol á mismunandi stöðum á pakkanum, seinni útgáfan er eins og það mundi vera skrifað eftir framburði á finnsku. Jens kíkti þá á pakkann og sá að fyrirtækið Leaf framleiddi þetta tyggjó. Hann benti mér á að það fyrirtæki væri staðsett í fæðingarbæ hans, Turku. Það sem kom mér hinsvega mest á óvart var að það var akkúrat þetta fyrirtæki sem fann um xylitol, ekki amarlegt það!

Þorrablót 

Þorrablót Íslendingafélagsins er á morgun. Ég held að þetta gæti orðið heljarinnar skemmtun og hlakka ég mikið til. Húsið opnar kl 18:00 og borðhald hefst kl. 19:30. Það er búið að panta mat frá Íslandi, hangikjöt, súrmat, harðfisk og þar fram eftir götunum. Eitthvað verður af skemmtiatriðum að ógleymdum hinum hefðbundna íslenska (fyllerís)-fjöldasöng. Það verður líka happdrætti og eru stærstu vinningarnir ferð til Íslands, fer til Tallinn og ferð til Stokkhólms, eru þær tvær síðarnefndu bátsferðir. Við höfum staðinn til miðnættis en eftir það er búið að taka frá fyrir okkur mjög frægan pub sem er rétt hjá svo að hægt verði að halda áfram fram eftir nóttu. Ég segi ykkur betur frá þessu þegar þetta er allt búið.

28 janúar 2004

Sumir dagar eru betri en aðrir 

Úff, segi ég nú bara. Mánudagurinn síðasti var einn skelfilegasti dagur sem ég hef upplifað. Það gekk bókstaflega allt á afturfótunum og allt klúðraðist. Hefði betur sleppt því að fara fram úr rúminu um morguninn. Ég var því dauðfegin að geta farið að sófa enda uppgefinn andlega af öllu þessu veseni. Í gærmorgun vaknaði ég svo klukkan rúmlega 8 við það að síminn minn hringdi og bölvaði í hljóði, hélt að þarna væri kominn annar ömurlegur dagur. Hélt að þetta væri einhver bjáni að hringja í skakkt númer eða eitthvað. Það var þó ekki raunin því að þetta var hin indælasta kona sem var að boða mig í vinnuviðtal, spennandi það. Ég var dugleg að sækja um vinnur um daginn en þetta er fyrsta viðtalið sem ég fer í. En sko, ég tala enn ekkert mikla finnsku, ekki nóg a.m.k. til að vinna á finnsku svo að það er mjög takmarkað sem ég get gert. Ég sótti því bara um skúringadjobb því að ég hélt að ég gæti vel skúrað án þess að tala mikið. Við skulum sjá hvernig þetta fer, ég er sko rosa spennt. Málið er bara að skrifstofan hjá þessari konu er nánast eins langt í burtu frá þar sem við eigum heim og hægt er. Við búum sko í Espoo, sem er eins og Kópavogur. Espoo er alveg samfastur Helsinki, vestan megin og við erum meira að segja mjög vestarlega í bænum. Skrifstofa konunnar er hins vega næstum eins austarlega og maður kemst í Helskinki og það tekur hátt í klukkutíma að komast þangað með strætó og metró. Það er samt eitt jákvætt við þetta, skrifstofan er í Itäkeskus (austurmiðstöð) sem er stæsta verslunarmiðstöðin í Helsinki en við höfum aldrei nennt að fara þangað því það er svo langt. Ég fæ því tækifæri til að kíkja í nokkrar búðir.

26 janúar 2004

Ferðasaga 

Jæja, ætli ég ætti ekki aðeins að segja frá ferð helgarinnar. Á föstudaginn var lagt í'ann. Katri og Juha komu við á Volvonum og tóku okkur uppí á leiðinni til Turku. Volvoinn skilaði sínu og við komust alla leið. Við vorum boðuð í hrísgrjónagraut hjá ömmu Jens svo að fyrsta stopp var þar. Það var engu að síður orðið framorðið svo að við stoppuðum ekki lengi í grautnum heldur héldum fljótlega á náttstað sem var hjá Atso og Tittu, Atso er móðurbróðir Jens. Þar virstust menn ekkert vera á þeim buxunum að fara að sofa, búið var að kynda gufuna og taka til áfengið. Það var því mikið drukkið, spjallað og hlegið þetta kvöldið. Talið barst mikið að barneignum og vorum við Katri hvattar til að fara að eignast börn sem fyrst. Talið barst einnig að ákaflega spennandi efni. Atso og Titta eru mikið siglingafólk og hafa mikið siglt í gegnum tíðina. Nú eru þau að skipuleggja að fara í siglingu á seglskútum um miðjarðarhaf vorið 2005. Þau ætla að leigja tvær seglskútur (komast 16 manns allt í allt) og sigla miðjarðarhaf til vesturs, þ.e. byrja annaðhvort í Tyrklandi eða Grikklandi. Það yrði svo stoppað í einhverjum bæ/borg yfir kvöldið og nóttina svo að það gæfist tími til að skoða sig aðeins um og fara á veitingastað. Það getur enginn neitað því að þetta hljómar eins og draumur í dós, en hér kemur rúsínan í pylsuendanum, þau voru að tala um að við ættum að koma með!!!! Þeim virstist vera nokkur alvara með þessu því að þau voru að tala um að það þyrfti að fara að panta skúturnar bráðlega og ganga frá þessu öllu. Sjáum til hvernig þetta endar!

Laugardagurinn var allur skipulagður út í ystu æsar því það var mikið að gera. Við vöknuðum nokkuð snemma og við Katri fórum og sóttum ömmuna og skruppum í búð. Á meðan fóru hinir út í garð að vinna, það þurfti að saga fullt af við og týna saman sprek. Við Katri tókum svo til við eldamennskuna og þar var á nógu að taka. Ég byrjaði á að baka súkkulaðiköku sem átti að vera í eftirrétt og svo skelltum við riiisastóru og girnilegu lambalæri í ofninn. Meðan lærið steiktist græjuðum við svo allt meðlætið og lögðum á borð og allt var til um klukkan 3 (Finnar borða á skrítnum tímum, ég veit). Það voru 7 manns í mat svo að þetta var ekkert spaug, allt gekk þó vel og allir voru mjög sáttir með matinn. Það fannst öllum lærið rosalega gott, en þess ber að geta að lambakjöt er ekki svo auðvelt að fá hérna í Finnlandi og það þekkist ekki að elda lambalæri. Það voru þó allir sammála um að lærið væri herramanns matur. Að átveislunni lokinni gafst þó ekki tími til að leggjast á meltuna því að við vorum að fara á Íshokkíleik, og engan smá leik. Liðið okkar, TPS, er í öðru sæti deildarinnar og voru þennan daginn sóttir heim af einum af helsinki-risunum, HIFK, sem eru í þriðja sæti deildarinnar. Það var því mikið í húfi fyrir bæði lið. Það voru rúmlega 10.000 manns í höllinni og stemningin rosalega, stuðningsmenn liðanna beggja hvöttu sín lið áfram með dáðum. Fyrsti leikhluti (af þrem) var ekkert rosalega líflegur, HIFK skoraði eitt mark. Við biðum því spennt eftir öðrum leikhluta, vonuðumst eftir að hann yrði skemmtilegri og við urðum sko ekki fyrir vonbrigðum því þegar upp var staðið var þetta einn skemmtilegasti íshokkíleikur sem að ég hef farið á. TPS skoruðu fjögur mörk á svona 6 mínútum og voru því staðan 4-1 að öðrum leikhluta loknum. Í leikhlénu virtust HIFK stuðningsmennirnir vera búnir að gefast upp því þeir þömbuðu bjór sem aldrei fyrr og voru margir þeirra orðnir nokkuð drukknir. Þriðji leikhlutinn var ágætur, TPS skoruðu eitt mark og endaði leikurinn því 5-1 fyrir okkar menn. Sumir virðast þó ekki hafa tekið úrslitunum með jafnaðargeði því að þegar við vorum að fara voru öryggisverðirnir að handtaka einn stuðningsmann HIFK, þeir voru búinir að þvinga hann í gólfið með andlitið niður og voru að reyna að koma á hann handjárnum sem gekk ekki svo vel því hann barðist á móti. Ég hef sko aldrei séð svona, varð bara hálf hrædd sko því að ég þurfti að labba framhjá þeim, var svona kannski meter frá þeim. Það handtók mig þó enginn enda var ég ekki með nein læti.

Við fórum heim að leik loknum og horfðum á finnsku undanekppnina fyrir Eurovision. Lögin voru mis góð en þó var eitt sem stóð uppúr og það var bara alls ekki svo slæmt. Finnar ákváðu þó að senda eldgamlan kall fyrir sína hönd, hann söng ömurlegt lag sem heitir "It takes two to Tango" og er ótrúlega hallærisleg. Ég á því ekki von á því að finnar nái langt í þessari keppni, en það er nú svosem hefð fyrir því!

Sunnudagurinn var ekki minna viðburðaríkur hjá okkur. Við vorum vakin eldsnemma og drifin á fætur. Við fórum niður á bryggju og löbbuðum á ísnum út í eyjuna hjá ömmu Jens. Það veiddum við í gegnum vök á ísnum. Mér fannst samt hundleiðinlegt. Málið var að það sagði okkur enginn að við værum að fara að gera eitthvað svona og við komum því ekki með nein almennileg föt. Það voru allir dúðaðir eins og þeir væru að fara á norðurpólinn og ég var svo gott sem í eins fötum og ég myndi fara í niður í bæ. Ég er viss um að ég hefði annars haft gaman af þessu og ég hefði náttúrulega getað komið með hlýrri föt en ég er hálf fúl að enginn hafi sagt okkur frá þessu. Ég eyddi deginum í að skjálfa úr kulda og þegar við komum til baka fór ég beint undir sæng að reyna að hlýja mér sem gekk frekar illa þó. Við vorum svo kölluð niður í mat og ég hríðskalf við eldhúsborðið, ég var alveg frosin inn að beini. Sem betur fer var gufan hituð svo að ég gat náð upp eðlilegum líkamshita þar. Ég er samt rosalega sár og fúl að svona fór, dagurinn var ónýtur hjá mér, ég hefði haft mjög gaman að því að veiða svona en það lét okkur enginn vita og þessa veiðiferð. Ég verð greinilega að taka allan fataskápinn með næst þegar ég fer til Turku til að lenda ekki í svona aftur.

Í heildina var helgin samt mjög skemmtileg og viðburðarík.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?