<$BlogRSDUrl$>

06 febrúar 2004

Helgarfrí 

Þá er ég komin í (lang)þráð helgarfrí. Ég er alveg dauðþreytt en það gengur samt alltaf betur og betur að vakna svona snemma á morgnanna. Ég er líka farin að venjast því að fara svona snemma að sofa. Fékk mér eitt rauðvínsglas í gærkvöldi og þá svaf ég rosalega vel.

Dagurinn í dag var samt frekar skrítinn, eftir hádegi gerði ég eiginlega ekkert af viti, það var einhver verkefnaskortur. Eftir kaffi og fram að hádegi var ég að vinna með stelpu sem er útlensk líka, er ekki viss hvaðan, allavega frá einhverju slavnesku landi. Hún talar ekkert rosalega mikla finnsku og ég á mjög erfitt með að skilja finnskuna hennar. Hún talar ekki ensku. Samskiptin okkar á milli eru því frekar fyndin eins og auðveldlega er hægt að ímynda sér. Viss um að þeim finnum sem heyrðu til okkar fannst þetta fyndið.

Dagurinn leið þó nokkuð hratt og eftir vinnu hitti ég Jens sem hafði verið að læra í skólanum. Við komum við í verslunarmiðstöðinni "Iso Omena" á leiðinni heim og fengum okkur kaffibolla og meðlæta á Coffee house, þeir gera roooosalega gott Café Mocca og ég þurfti á kaffi að halda. Þegar við svo ætluðum að fara var Jens nærri því búinn að gera útaf við sig. Við gengum röskelga út af kaffihúsinu þegar ég skyndilega heyrði rosalega hátt "bammmmmmmmmmm" við hliðina á mér, Jens hafði arkað á glervegg með þeim afleiðingum að skellurinn glumdi um allt kaffihúsið. Ég náttúrulega, eins og góðri og hugulsamri kærustu sæmir, sprakk úr hlátri og var lengi að jafna mig. Ég hef aldrei séð neinn ganga svona harkalega á gler. Glerið brotnaði þó ekki og heldur ekki Jens.

Ég ætla sko að slappa af um helgina og njóta lífsins. Jah, kannski að ég skreppi í ræktina, ég hef enga orku haft í svoleiðis núna. Sjáum til hvað ég verð dugleg. Hef samt áhyggjur af því að núna þegar ég er farin að venjast á að vakna klukkan hálf 5 geti ég ekki sofið langt fram eftir. Þ.e. að líkaminn minn heldur örugglega að hann sé búinn að sofa út þegar klukkan er orðin 8 eða 9 og heimta að fara á fætur. Svo er líka til í myndinni að líkaminn segi "hingað og ekki lengra, ég læt ekki misþyrma mér svona" og leggist í dvala alla helgina. Það verður spennandi að sjá hvernig fer.

Góða helgi!

05 febrúar 2004

Þreyta 

Jæja, þá er vinnudegi númer tvö lokið. Það eina sem mig langar núna er að fara að sofa en það gengur víst ekki. Ég verð að reyna að vera þreytt í kvöld svo að ég geti sofnað snemma, líkaminn er ekki alveg að átta sig á breyttum háttatíma. Það hefur gengið bara vel í vinnunni, mér gengur ótrúlega vel að skilja fyrirmæli á finnsku og geri mitt besta til að tjá mig. Þetta er alveg ofboðslega stór skóli og mikið sem þarf að þrífa á stuttum tíma. Dagurinn líður því nokkuð hratt fyrir sig. Verst að orkubyrgðirnar klárast svo gott sem alveg við þetta allt saman.

Gærdagurinn var samt rosalega erfiður. Ég gat eiginlega ekkert sofið um nóttina því ég var svo stressuð. Ég var hrædd að sofa yfir mig, spennt og smeyk við að byrja í nýrri vinnu, hrædd við að þurfa að taka strætó svona snemma og í kolniða myrkri eitthvað út í buskann. Ég var því ansi langt frá því að vera vel sofin þegar ég svo lagði af stað, klukkan 05:15. Ég tek strætó þá og þarf að skipta einu sinni. Strætósamgöngur eru ekkert svakalega góðar á þessum tíma og þarf ég því að bíða í 20 mín þegar ég skipti, frábært! Þegar ég var búin að vinna þurfti ég að koma við á skattstofunni og græja skattkortið mitt. Það gekk mjög vel nema hvað að ég þurfti að bíða svolítið lengi eftir afgreiðslu. Ég tók svo strætó heim, sem passaði ótrúlega illa þannig að ég var næstum klukkutíma á leiðinni heim. Jæja, heim var ég loksins komin en það var ekki svo gott að ég mætti setja tærnar upp í loft, nei, ég náði að stoppa heima í korter áður en ég þurfti að fara í finnskutíma. Ég get sko sagt ykkur það að einbeitingin var ekki alveg upp á sitt besta. Jæja, ég var búin í tíma hálf 7 og komin heim rétt fyrir 7. Þá fórum við út í búð, keyptum nesti fyrir mig og eitthvað að borða. Þegar við svo vorum búin að elda og ganga frá var kominn háttatími hjá mér og ég gjörsamlega búin að vera. Gat varla gengið ég var svo þreytt í löppunum.

Í dag var skárra að vakna því að ég svaf vel í nótt. Dagurinn leið hratt en lappirnar skánuðu ekkert. Ég skil núna afhverju svona margar af konunum sem ég vinn með hafa undarlegt göngulag. Ég kom heim rétt fyrir 15 og fæ að vera heima til 18 en þá þarf ég að fara í tíma. Hann stendur til 21 sem þýðir að ég er komin heim um hálf 10 sem þýðir að ég þarf að fara beint í rúmið því að þá er langt komið fram yfir háttatímann minn! Ég á ekkert líf! Á morgun er samt föstudagur sem getur ekki verið annað en gott.

03 febrúar 2004

Skúra, skrúbba, bóna... 

Jæja, þá er komið að því. Ég fór í atvinnuviðtal í dag sem gekk rosa vel og ég byrja að vinna á morgun. Kannski ekki mest spennandi starf í heimi en vinna er vinna og peningar eru eitthvað sem mig vantar núna. Allavega, ég fékk vinnu hjá fyrirtæki, sem heitir Engel, við að þrífa í skólanum hans Jens. Þetta er nú svo sem ekki svo slæmt, mér finnst ágætt að þrífa. Það sem mér finnst hins vegar verst við þetta er vinnutíminn, en hann er frá 06:00-14:00. Það þýðir að ég þarf að taka strætó kl. 05:15 sem þýðir að það borgar sig ekki fyrir mig að fara að sofa! Held að þetta venjist samt en það góða við þetta er að ég missi ekki ef finnskukúrsinum mínum. Ef ég væri að vinna 8-16 myndi ég missi dálítið úr. Ég fékk reyndar bara samning upp á 3 vikur því að það er einhver kona í veikindaleyfi eða eitthvað, þetta verður svo endurskoðað að þessum tíma loknum. Það ríkir því bullandi gleði hjá okkur núna og við héldum upp á þetta með að fá okkur pizzu. Svo er bara að sjá hvernig gengur að vakna í fyrramálið! Það er reyndar algengara hérna en á Íslandi að fólk byrji 6 eða 7 í vinnunni en ég hef aldrei byrjað svona snemma í vinnu. Ég þarf að fara að sofa klukkan 10 á kvöldin eða eitthvað!

01 febrúar 2004

Snjór og þorrablót 

Í gær var einn sá íslenskasti dagur sem ég hef upplifað lengi. Þegar ég vaknaði var týpískt íslenskt veður, snjókoma og skafrenningur. Það snjóaði stanslaust allan daginn. Um kvöldið fórum við svo á þorrablót Félags Íslendinga í Finnlandi sem var haldið í hjarta Helsinki. Við bjuggum okkur vel og héldum út í stórrhríðina. Anna, þýsk stelpa sem er með mér í finnsku, kom með og var mjög spennt að smakka allan skrítna íslenska matinn. Þegar við komum fengum við fordrykk og komum okkur fyrir. Við sátum á sama borði og íslensk stelpa sem heitir Tamara og tvær finnskar vinkonur hennar. Fólkið týndist smátt og smátt í salinn og um 19:30 hófst svo borðhaldið. Salurinn angaði allur og var farinn og koma skelfingarsvipur útlendingagreyin sem ekki höfðu kynnst svona löguðu áður. Allir tóku hraustlega til matar síns enda var hvergi skorið við nögl. Ég hafði mjög gaman af því að fylgjast með Önnu gæða sér á sviðum, hrútspungum og öðru slíku. Henni fannst helmingur matarins góður, hinn ekki. Hrifnust var hún af harðfiskinum og rúgbrauðinu, ég er viss um að hún prumpaði í allan dag af öllu rúgbrauðinu sem hún át, ég sagði henni nefnilega ekki frá áhrifum þess. Það var þó óborganlegt að sjá þegar Anna stakk upp í sig hákarlinum, gretti sig fram og til baka og skellti í sig brennivíninu. Sat svo með skelfingarsvip lengi á eftir.

Að matnum loknum hélt sendiherra Íslands í Finnlandi, Jón Baldvin Hannibalsson, ræðu um norrænt samstarf. Ég verð að segja að þetta var ein sú skemmtilegasta ræða sem ég hef heyrt. Hann reytti af sér brandarana látlaust og slakaði ekkert á við að gera grín að norðurlandabúum. Nokkur fleiri skemmtiatriði voru og svo að sjálfsögðu íslenskur fjöldasöngur. Því næst tóku við kaffi og pönnsur, ekki slæmt það. Meðan fólk var að gæða sér á pönnukökunum voru seldir happdrættismiðar. Að sjálfsögðu fjárfesti maður í svoleiðis. Eftir kaffið var svo dregið. Ég var nú svosem ekki að gera mér miklar vonir því að ég venjulega vinn aldrei neitt í svona. En viti menn, haldiði ekki að ég hafi unnið siglingu fyrir 2-4 til Stokkhólms. Ótrúlegt, segi nú ekki annað. Stærsti vinningurinn var flugmiði til Íslands. Það var þó svo írónískt að það var nýbúið að gefa þeim sem unni miðann kveðjugjöf við þau voru að flytja aftur til Íslands eftir langa dvöl í Finnlandi. Það er því spurning hvað þau ætla að gera við miðann.

Þegar formlegri dagskrá var lokið var íslenskum geisladiskum skellt á fóninn og dilluðu menn sér m.a. við Stuðmenn, Sálina og Pál Óskar. Við höfðum salinn þó aðeins til miðnættis en eftir það var búið að skipuleggja að fara á Molly Malones, frægan írskan stað sem var rétt hjá. Skipuleggjendur kvöldsins voru búnir að semja við eigendur staðarins að við hefðum forgang og þyrftum ekki að bíða í röðinni gegn því að gefa upp leyniorðið "Iceland". Við kíktum þar smá stund en að lokum sigraði þreytan og við héldum heim. Þá var orðið illfært um borgina og vorum við í mestu erfiðleikum með að komast frá lestarstöðinni og heim, sem að venjulega er um 10-15 mínútna ganga en tók í þetta skiptið miklu lengri tíma. Það var allt á kafi í snjó og ekkert búið að ryðja eða ganga niður af snjónum. Ég klofaði því snjóinn á háhæluðum stígvélum eins og sönn íslensk kona. Við komumst þó heim að lokum dauðþreytt en ánægð.

Þegar við svo vöknuðum í morgun var allt gjörsamlega komið á kaf og það kyngdi niður snjó ennþá. Það var byrjað að ryðja en enn var allt mjög illfært. Á planinu hérna fyrir utan voru 3 bílar fastir og allir áttu í miklum erfiðleikum með að komast leiða sinna. Við fórum út í göngutúr til að kíkja á ástandið. Það var sannkallaði ævintýri. Það kom mér þó á óvart hve margir voru úti að spóka sig í "góða" veðrinu. Einhverjir voru á gönguskíðum sem að var það eina skynsamlega í stöðunni. Í fréttum áðan var verið að segja frá ástandinu. Flugvöllurinn er lokaður því að snjóruðningstæki hafa ekki undan að ýta og allstaðar eru fastir bílar. Ég kíkti á veðurfréttir áðan og þar sagði að á morgun ætti ekki að snjóa en það heldur áfram að þriðjudaginn. Það verður fróðlegt að sjá hvernig málin þróast.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?