<$BlogRSDUrl$>

20 febrúar 2004

Rússland og Mr. Bean 

Við vorum búin að vera að velta fyrir okkur að fara til Rússlands áður en við förum heim í vor, sjaldan gefst jafn gott tækifæri og núna til að fara þangað. Það er frekar stutt að fara héðan til St. Pétursborgar og ekkert hræðilega langt til Moskvu. Þetta var því í mínum augum mjög gerlegt. Ég fattaði hins vegar ekki að maður þarf vegabréfsáritun og það kostar nú sitt. Þýsk vinkona mín er núna í Rússlandi og borgaði hún um 4000 krónur fyrir sína áritun. Það er nú svo sem ekkert svakalegt. Hins vegar þekkri Jens strák, belgískan, sem fer bráðlega til Rússlands en hann þurfti að borga 6000 krónur fyrir vegabréfsáritinuna. Ég var nú frekar hissa á þessu en strákurinn hafði sagt Jens að maður þarf að borga mis mikið fyrir áritun eftir því frá hvaða landi maður er, upphæðin ræðst af því hvað viðkomandi land er viðskiptalega mikilvægt fyrir Rússa. Meira ruglið. Hvað þurfa þá Íslendingar að borga segi ég nú bara. Eina sem ég veit um samskipti Íslands og Rússlands er að Sírínovskí vildi gera landið okkar fagra að fanganýlendu og ekki held ég að það sé til þess að lækka gjaldið fyrir vegabréfsáritun. Þetta þarf þó að kanna.

En ef þetta væri eina vesenið værum við í nokkuð góðum málum. Vandamálið er að það má enginn koma inn í Rússland nema að hafa löggilt heimboð, og hvern þekkjum við svo sem í Rússlandi sem getur boðið okkur í heimsókn??? Ef maður þekkir engan austan tjalds er hægt að "kaupa heimboð" af ferðaskrifstofum á litlar 5000 krónur! Ég skil ekki hvaða hálfvita datt þetta í hug, þetta a.m.k. getur ekki verið til að efla túrisma í Rússlandi.

Þýska vinkona mín er sem er í Rússlandi núna fór með einhverjum hóp. Hún þekkir stelpu sem skipuleggur svona ferðir og hún líklega þekkir einhvern í Rússlandi því að hún græjar svona heimboð. Svo talar hún rússkí-karaba-nesku svo að það hjálpar til. Ferðin er frá fimmtudegi til mánudags, farið er bæði til St. Pétursborgar og Moskvu. Gisting og ferðir fram og til baka eru innifaldar en matur og vegabréfsáritun ekki. Þetta kostar ekki nema um 11.000 krónur á mann. Frábært! Svo þekkir þessi stelpa borgirnar mjög vel og segir frá öllu sem skoðað er. Mér skilst að hún ætli að verða leiðsögumaður, kannski er hún að gera þetta sem starfsþjálfun. Það góða við þetta er að það verður önnur ferð í apríl og vorum við að hugsa um að fara ef vinna og skóli leyfa.

Annars er ég hálfgerður Mr. Bean núna. Málið er að í vinnunni, á starfsmannaklósettinu okkar, eru leiðinda vaskar. Þar er rosalega stíft að skrúfa frá og þegar þá svo loksins skrúfast frá kemur vatnið á fullu og slettist yfir mann. Ég lít því oft út eins og ég sé nýbúin að pissa á mig. Það góða við þetta er að við virðumst vera í stíl þarna, ég er ekki ein um að ráða ekki við þvagblöðruna!

16 febrúar 2004

Myndasíða 

Í kvöld var ég einstaklega dugleg og óvenju frumleg því að mér tókst að herma eftir frábæru hugmyndinni hennar Kötu og búa mér til myndasíðu. Það er ekki mikið komið inn á hana ennþá en það stendur til að laga það. Þetta er þó ágætis byrjun en ef þið viljið sjá fleiri myndir mæli ég með myndasíðunni hennar Kötu, þó að þar sé engin mynd af mér :(

En allavega, kíkið endilega á myndasíðuna mína!

Stolt siglir fleyið mitt.... 

Ég hef nú svosem verið frekar löt við að blogga undanfarið, en svona er þetta bara. Um helgina fórum við á Venemessut sem er risastór bátasýning. Í haust fór ég á sama stað á heimilissýningu. Þetta er risastór sýningarhöll sem skiptist í amk 6 sali. Sambyggt henni er hótel og í henni eru líka margir veitingastaðir. Þetta er mjög óraunveruleg stærð fyrir Íslendinga sem bara hafa farið á sýningar í Laugardalshöll. Já, eins og áður sagði er þetta bátasýning og það má segja að það hafi verið sýnt allt sem tengist bátum og siglingum. Í stærsta salnum voru mótorbátar (sumir á stærð við sumarbústað) og hraðbátar. Þar kenndi ýmissa grasa og m.a. var boðið upp má nokkrar gerðir báta af tegundinni Marino, og legg ég hér með til að Marinó fjárfesti í einum slíkum. Við höfðum þó ekki mikinn áhuga á þessum bátum. Spenntust vorum við fyrir seglbátunum sem voru margir rosalega flottir. Þeir stærstu voru fyrir allt að 13 manns en meðal báturinn var fyrir 4-6 manna fjölskyldu. Ég veit svo sem ekkert í þessum fræðum en Jens er mikill áhugamaður um siglingar og gat frætt mig eitthvað um þetta. Ég gat nú vel ímyndað mér að krúsa um miðjarðarhafið á einum svona bát.

Svo var annar salur sem vakti hrifiningu okkar, og það voru kajakarnir. Við erum staðráðin í að fjárfesta dag einn í slíkum gripum og vorum við að spá í að byrja á að kaupa notaða, okkur skilst að það sé venjan, enda kosta þeir sitt. Þeir voru margir rosa flottir og sá stærsti var 3ja manna.

Þetta var þó bara brot af því sem boðið var uppá. Kennt var að elda einvherskonar sjávarrétti, sýnt var allt varðandi fylgihluti og rafmagn í bátunum. Svo voru sýndir gamlir trébátar o.s.frv. Það voru samt rosalega margir þarna enda vorum við á næstsíðasta sýningardegi. Þetta var mikil upplifun þó að við ættum ekki peninga til einu sinni að láta okkur dreyma um neitt af þessu!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?