<$BlogRSDUrl$>

26 febrúar 2004

Mál farin að skýrast 

Nú eru málin hjá mér orðin nokkuð skýr og mest allur tími fram að vori skipulagður. Ég var bara ráðin í 3 og 1/2 viku til að byrja með en nú er ég búin að framlengja samninginn og ákvað ég að vinna bara fram að páskum þó að ég hefði getað fengið vinnu fram á vor. Málið er að það er svo margt spennandi að gerast í apríl sem mig langar ekki að missa af og svo myndi ég sturlast ef ég ynni þarna alveg fram í miðjan maí eða eitthvað.

Um eða eftir páska eru allar líkur á að Siggi, Ólöf og Tumi komi að heimsækja okkur og ekki langar mig nú að vera að vinna þegar þau koma. Það er þó ekki búið að fastsetja þetta eða ákveða dagsetningar. Það ætti þó að koma í ljós fljótlega.

Að því loknu þarf ég aðeins að "skreppa" til Íslands. Málið er að það á að halda alþjóðlega skátaráðstefnu í Laugardalshöll 17.-21. apríl og ég var fengin til að reyna að hafa einhvern hemil á frakkadjöflunum ;) Hehe, neinei, ég á að vera í skráningunni og taka á móti frönskumælandi skátum sem koma því að þeir kunna auðvitað ekki ensku. Ekki finnst mér nú slæmt að skreppa aðeins á frónið, ó seisei nei!

Eftir það byrjar Jens í prófum og er hann búinn 10. maí. Við ætlum að reyna að ferðast eitthvað aðeins áður en við förum heim. Erum allavega búin að ákveða að fara til Rússlands og vorum svo að hugsa um að skella okkur til Svíþjóðar af því að ég á frímiða með Viking Line sem ég vann á Þorrablóti Íslendingafélagsins. Seinast þegar við sigldum til Stokkhólms vorum við með einhvern bónusmiða sem þýðir að það má ekki stoppa, heldur bara sigla fram og til baka. Miðinn sem við eigum núna er ekki þannig og langar okkur aðeins að kíkja á Stokkhólm. Svo vorum við búin að ákveða að fara líka til Tallinn, það er rosalega ódýrt að fara þangað með báti og hægt er að fá mjög ódýra gistingu. Ég var búin að skoða þetta allt, finna ódýrt youth hostel. Ég var búin að reikna út að ef maður færi í miðri viku og gisti í eina nótt þá væri ferða- og gistingarkostnaður um 3500 krónur á mann, sem er nú alls ekki slæmur díll. E.t.v. væri hægt að slá einhverju af þessu saman eins og að fara með Sigga, Ólöfu og Tuma til Tallinn, var búin að minnast á það við þau og þau virtust áhugasöm. Svo er allt rosalega ódýrt í Tallinn, sem sakar ekki.

Annars líður tíminn skuggalega hratt núna. Ég er farin að halda að klukkurnar hérna séu eitthvað skrítnar. Vekjaraklukkan mín a.m.k. er stórskrítin, hún hringir alltaf um miðja nótt ;)

Já, svo erum við að fara á miðvikudaginn næsta (og verðum fram á sunnudag) til Lapplands á skíði með finnsku fjölskyldu Jens. Ég er farin að hlakka rosalega til og verð mjög fegin að fá smá frí í vinnunni. Ég held án efa að mér hafi aldrei leiðst jafn mikið í neinni vinnu áður!


23 febrúar 2004

Örstutt helgarsaga 

Helgin var frábær. Ég slappaði af, kláraði peysuna sem ég var að prjóna, bakaði fjall af bolludagsbollum og eldaði góðan mat. Mikið rosalega er nú gott að sofa út þegar maður er búinn að vakna 5 daga í röð klukkan 4:30!

Mánudagurinn var ekki svo frábær, dauðfegin að hann er að verða búin og hef ekki trú á því að örlögin séu mér svo grimm að morgundagurinn verði jafn slæmur.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?