<$BlogRSDUrl$>

02 mars 2004

Lappland - here I come! 

Nú er ég að fara að sofa á þriðjudagskvöldi sem þýðir að á morgun er miðvikudagur sem þýðir að á morgun fer ég til Lapplands. Ég er búin að vinna kl 14 og á að mæta á flugvöllinn kl 16:15 og ef ég myndi fara heim á milli gæti ég stoppað heima í ca 5 mín og það er nú varla þess virði. Þegar ég fer heim úr skólanum fer ég helling í vestur en flugvöllurinn er langt austan við þar sem ég vinn og er það því hálfgerður tvíverknaður að fara heim fyrst. Ég þarf því að taka allt dótið með mér í vinnuna og við Jens tökum svo strætó þaðan á flugvöllinn. Þetta þýðir að ég get ekkert bloggað fyrr en í fyrsta lagi næsta mánudag, við komum heim seint á sunnudagskvöld og það gæti meira að segja vel verið að ég yrði svo þreytt á mánudag að ég nennti ekki að blogga. Það er nú svo sem ekki áhyggjuefni núna, ég hef meiri áhyggjur af hvað klukkan er orðin margt og ég ætti að vera farin að sofa!

What a day...! 

Nú ætla ég að segja ykkur sögu en til að allt sé á hreinu þarf ég að útskýra smá fyrst. Í skólanum sem ég þríf eru sérstakir rusladallar fyrir pappír, ein tegund fyrir hvítan pappír og önnur fyrir litaðan pappír og dagblöð. M.a. inni á öllum skrifstofum eru tveir litlir pappakassar sem eru gerðir fyrir pappírsflokkun og er búið að prenta á þá hvers konar pappír þar á að fara. Þegar við þrífum skrifstofur tæmum við svo þessa dalla þegar mikið er komið í þá. Á göngunum eru svo stærri dallar, eins og svörtu ruslatunnurnar í Reykjavík nema bæði svartir og grænir fyrir sitthvora tegundina af pappír, og þar setjum við það sem við tæmum af skrifstofunum. Þegar þeir dallar verða svo fullir förum við með þá niður í kjallara sem er ótrúlega erfitt því þeir eru svo þungir. Niðri í kjallara eru risastórir dallar, líka svartir og grænir svo að ekkert misskiljist nú, og þar setjum við það sem kemur úr minni döllunum. Ekki veit ég svo hver tæmir dallana sem eru í kjallaranum en þeir tæmast allavega reglulega. Þetta kerfi er frekar einfalt og ættu allir að skilja það en þó virðist sem þetta brenglist eitthvað í hausnum á einhverjum af þessum prófessorum því að ég hef fundið allskonar sniðugt dót í pappírspappakössunum, en ég ætla nú ekki að fara út í það hér. Jæja, nú ættu allir að skilja hvernig pappírsflokkunin virkar í þessum merkilega háskóla og þá get ég komið mér að aðalatriðinu.

Í dag var ég að þrífa skrifstofurnar í stærðfræðideildinni með stelpu sem heitir Marija og er frá einhverju grozný-bozný landi. Eina af skrifstofunum sem við þrifum á mjög áhugaverður maður. Í útliti og háttarlagi minnir hann mjög mikið á Helga skógarhöggsmann og hljóðfæraleikaraforsprakka nema að hann er yngri, fyrir þá sem hann þekkja. Að þessu sinni var það Marija sem þreif skrifstofuna hans og var ég hálf fegin að sleppa við það því að það er alltaf svo mikið rusl og drasl hjá honum að það er erfitt að þrífa. Allt gekk þetta vel og við vorum duglegara að losa pappírspappakassa, svo duglegar að dallurinn á ganginum fylltist. Í lok dagsins fórum við því og sóttum dallana á þessum gangi og fórum með niður þar sem við losuðum þá. Að því loknu þurfti að ganga frá þeim aftur, að sjálfsögðu. Þetta var það seinasta sem við höfðum að gera um daginn enda vinnutíminn alveg að verða búinn. Þegar við erum að fara að labba niður aftur, dauðfegnar því að vera búnar að vinna, komu tveir menn upp að okkur og var annar þeirra sá sem ég minntist á áðan. Þeir spurðu okkur hvort við hefðum þrifið stærðfræðideildina í dag, sem við gerðum. Þeir spurðu hvort við hefðum losað pappírspappakassa sem var á gólfinu og Marija sagðist hafa gert það. Þá fóru þeir að útskýra að þetta var ekki rusl heldur STÆRÐFRÆÐIPRÓF í mjög fjölmennum stærðfræðikúrsi sem er kenndur í skólanum. Þetta voru s.s. eintökin sem nemendurnir voru búnir skrifa á, en það fylgdi ekki sögunni hvort það væri búið að leiðrétta þau eða ekki. Sem betur fer talaði Marija við þá því ég hefði farið alveg í kleinu, hún snéri vörn í sókn og skammaði manninn fyrir að merkja pappakassann ekki. Hvað annað getum við haldið en að pappír í endurvinnslupappírspappakassa á gólfinu sé rusl! Þeir voru svo sem ekkert að skamma okkur, þeir áttuðu sig alveg á mistökum sínum. Þetta þýddi bara að við þurftum að fara öll niður í kjallara og hella öllu úr stórastóradallinum sem var svo gott sem orðinn fullur af pappír. Ansi var nú skemmtilegt að leita í öllum þessum haug að einhverjum leiðinda stærðfræðiprófum! Það gekk bara vel að finna prófin en þó er aldrei að vita hvort einhver gætu verið að fela sig innan um einhver önnur blöð. Þegar ég fór úr vinnunni voru þeir ennþá að leita og ekki öfunda ég þá! Mér finnst ansi líklegt að þessi kennari kunni núna að nota pappírspappakassana! Alveg get ég líka séð fyrir mér spurningamerkin í andlitum nemendanna þegar þeir fá prófin sín öll krumpuð og ljót til baka, ef þeir þá fá þau, og sauðarsvipinn á kennaranum þegar hann þarf að útskýra hvað gerðist fyrir framan fullan risastóran fyrirlestrarsal af nemendum!

01 mars 2004

Helgin 

...var svo sem frekar ómerkileg. Gerði svo gott sem ekki neitt. Klippti lubbann á Jens og prjónaði vetlinga handa mér fyrir skíðaferðina sem við förum í á miðvikudaginn. Við fljúgum til staðar sem heitir Ivalo og skíðasvæðið er þar nálægt. Hér er kort af Finnlandi svo að þið getið áttað ykkur betur á þessu öllu, ég bý í Espoo (er eins og Kópavogur, nánast höfuðborgin en samt ekki) sem er rétt vestan við Helsinku (syðst) og er að fara til Ivalo (mjög norðarlega) sem er ekki svo langt frá Barentshafi, lengst norður í rassg***, eða um 1000km héðan.

Annars er það að frétta að ég fór með filmu í framköllun svo að það er von á fleiri myndum á myndasíðuna mína. Málið er bara að hérna og í Frakklandi tekur um viku að framkalla ef maður vill fá myndirnar á geisladisk líka en á Íslandi tekur það ekkert lengri tíma, a.m.k. ekki þegar ég fékk svoleiðis um jólin, heima er best!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?