<$BlogRSDUrl$>

09 mars 2004

Myndir 

Það eru komnar fleiri myndir á myndasíðuna mína, þó ekki frá Lapplandi. Ég bætti við myndum í möppuna "Jól og áramót" og svo er ný mappa sem heitir "Finnlandsmyndir 2", endilega kíkið á það!

Ferðasaga 

Nú held ég að tími sé til kominn að ég skrifi örlitla ferðasögu af ekki svo lítilli ferð. Myndirnar eru í framköllun og má ég sækja þær næsta mánudag.

Miðvikudagur
Við vorum búin í vinnu og skóla klukkan 2 og sáum strax að ekki myndi gefast tími til að fara heim áður en við áttum að mæta í flugið. Meðan við biðum eftir strætó, sem fór kl 3 fórum við að borða í mötuneytinu í skólanum því við áttum langt ferðalag fyrir höndum og það er gott að vera mettur áður en lagt er af stað í svoleiðis. Við hittum Katri og Juha á flugvellinum og þegar við vorum komin í gegnum tékk-inn-ið hittum við restina af ferðafélögunum, sem höfðu komið með flugi frá Turku stuttu áður. Þetta voru ferðafélagarnir:
Katri, systir Jens
Juha (stóri), kærasti hennar
Atso, móðurbróðir Jens
Titta, konan hans
Juha (litli), sonur þeirra
Tiina, kærastan hans
foreldrar Tittu
Raili, amma Jens og mamma Atso
Sanni, hundur Atso og Tittu
Jere, bróðursonur Tittu

Flugið gekk vel, tók 1 tíma og 40 mínútur og er lengsta innanlandsflugið í Finnlandi. Flugbrautin sem við lentum á var mjög stutt sem þýddi það að aðflugið var mjög bratt og við lentum ákaflega harkalega og svo þurfti flugstjórinn að negla niður. Ég var því hálf fegin þegar við vorum komin út úr vélinni. Það var um 25 mínútna akstur frá flugvellinum að staðnum sem við gistum á. Vinir Atso og Tittu lánuðu okkur þetta hús, sem er rosalega fallegur bjálkakofi. Við gerðum ekkert sérstakt um kvöldið, bara spjölluðum.

Fimmtudagur
Við vöknuðum nokkuð snemma því planið var að fara í skíði. Ég vissi fyrirfram að ekki voru neinir alpar þarna en ég reiknaði kannski ekki alveg með svona lítilli hækkun. Toppurinn á skíðasvæðinu var í um 450 metra hæð og þurfti maður því ekki að beygja oft til að komast niður brekkurnar. Það var engu að síður mjög gaman og útsýnið mjög skemmtilegt. Þetta er rosalega fallegur staður en þó er landslagið nokkuð einsleitt. Tiina greyið átti erfiðan dag því að hún var að fara í fyrsta skipti á skíði. Við þekktum svæðið ekkert og byrjðum óvart á að fara í frekar bratta brekku. Hún varð á endanum að taka af sér skíðin og labba niður (sem var þó ekki langt...). Eftir ánægjulegan skíðadag fórum við heim aftur og í heita og fína gufu. Það er fátt betra en að fara í gufubað eftir svona dag. Um kvöldið fórum við svo út að borða og á pub á eftir. Sumir skemmtu sér þó betur en aðrir þó að ég hafi verið nokkuð róleg, enda þreytt eftir daginn. Jere nokkur, kom heim um miðja nótt og tókst að vekja alla í húsinu. Málið er að hann er nýbúinn að kynnast ungri stúlku sem að hann virtist þurfa að tala ótrúlega mikið við á meðan við vorum þarna. Það má segja að hún hafi alltaf verið að hringja og þá var Jere úr leik í um hálftíma. En allavegana, honum fannst hann þurfa að hringja í hana um miðja nótt, á ber þess að geta að við sváfum 7 á sama svefnloftinu og fór það því ekkert á millli mála ef einhver var að tala. Við heyrðum að hann var að hringja og stundi svo í símann þegar hún svaraði að honum liði illa. Þá kom fát á hann og hann sagði: "Æ, vakti ég þið nokkuð?" og á eftir því eyddi hann löngum tíma í að afsaka sig. Eftir það gátum við farið að sofa aftur.

Föstudagur
Fyrir þennan dag var búið að skipuleggja vélsleðaferð fyrir okkur yngra fólkið. Þegar flestir voru búnir að borða morgunmat fórum við að velta fyrir okkur hvernig væri með Jere, Tiinu og Juha litla, en það voru þau sem höfðu verið duglegust í skemmtanalífinu kvöldið áður. Stuttu seinna kom Jere niður á nærbuxunum einum fata, myglaðri en allt, og rauk beint í ísskápinn og náði sér í bjór. Ég giska á að honum hafi ekki liðið vel og hann virtist kjósa þessa leið til að láta sér líða betur. Við sáum því fljótt að hann myndi ekki vera í ökufæru ástandi þennan daginn. Stuttu seinna heyrðust stunur af loftinu og Tiina sagði "Shit, mér líður eins og einhver hafi barið mig".
Búið var að leigja fjóra vélsleða fyrir okkur og áttu strákarnir að keyra og stelpurnar að sitja aftaná. Það voru hins vegar bara þrír þeirra í ökufæri ástandi þannig að ég tók að mér að keyra fjórða sleðan. Ég verð að viðurkenna að það kom mér á óvart hvað mér fannst þetta gaman. Það eru merktar og troðnar vélsleðaleiðir þarna. Þær liggja í gegnum skóginn út um allar trissur. Á leiðinni fórum við bæði fram úr hundasleðum og hreindýrasleðum, vvrúmmm. Það kom þó að því að við týndum Juha stóra og Jere, sem voru saman á sleða. Við hringdum og þá voru þeir að fara á skíðasvæðið að kaupa bjór handa Jere því honum leið svo illa. Hossurnar virtust ekki laga þynnkuna hjá honum.
Mér fannst soldið gaman að gefa í og fór ég ekkert hægar en strákarnir. Jens var skíthræddur um mig og átti alltaf von á því að sjá för eftir sleða út í skóg og mig klessta við tré, þvílíkt traust sem hann ber til mín!
Eins og síðasti dagur endaði þessi á gufubaði og veitingahúsaferð. Menn höfðu þó ekki orku í partý-stand þetta kvöldið. Ég var komin með álagsmeiðsl, var að drepast í þumalputtanum eftir bensíngjöfina.

Laugardagur
Aftur var haldið á skíðasvæðið og ákvað ég að prófa snjóbretti í fyrsta skipti, og ég get ekki annað sagt en jeee-sús. Ég bara bókstaflega lá í brekkunni allan tímann. Ég var búinn að detta svo mikið að hnén mín voru helaum og rassinn ónýtur. Svo var ég komin með bakverk, hausverk og svima. Ég var nefnilega dugleg við að detta afturfyrirmig niðurímóti sem varð til þess að allur bakhlutinn fékk gott högg sem endaði með því að ég dúndraði hausnum í jörðina. Þetta var hræðilegt. Ég var skrítin í hausnum stóran part kvöldsins, gæti vel trúað því að ég hafi fengið smá heilahristing. Held ég geymi það að gera svona í bráð.
Eftir gufuna fórum við og kíktum í minjagripabúðir því að það fæst margt áhugavert þarna sem einkennir staðinn. Ég keypti hreindýr í Lappa-"þjóð"búning og lyklakippu með parti af hreindýrahorni. Aftur var farið út að borða og ekki urðum við fyrir vonbriðgum frekar en hina dagana.

Sunnudagur
Seinasti dagurinn runninn upp og við ákváðum að nýta okkur vel síðasta tækifærið til að fara á skíði um veturinn. Við Jens vorum bara tvö, hinir voru annaðhvort á gönguskíðum eða of timbraðir eftir gærkvöldið. Ég lét brettið alveg vera og hélt mig við skíðinn þennan daginn. Dagurinn var alveg frábær. Glampandi sólskin, frábært veður og gott færi. Við skíðum heilmikið í púðrinu sem var í skóginum við hliðina á brautinni. Það var sko ekkert spaug, það er nú nógu erfitt að skíða í svona miklu púðri í venjulegri brekku en svo að þurftum við að vanda okkur við að hitta milli trjánna líka. Mér tókst það, Jens ekki. Við vorum því bæði dauðþreytt eftir daginn.
Flugið heim gekk fínt en við vorum þó frekar treg við að fara upp í vélina því okkur langaði ekkert heim. Við kvöddum hin á flugvellinum því að allir nema við, Katri og Juha stóri tóku annað flug til Turku. Við tókum rútu frá flugvellinum. Farangursmálin gengu þó ekki alveg áfallalaust. Þegar við vorum að bíða eftir töskunum tók Katri eftir því að taskan hennar Tiinu var á færibandinu og tókum við hana því og komum henni til skila. Svo munaði hársbreidd að okkar töskur færu til Turku. Málið var að næstum allir í okkar rútu þurftu að skipta um rútu því þau voru að fara til Turku. Það var þannig að önnur rúta lagði við hliðina á okkar og bílstjórarnir færðu töskurnar á milli. Við vorum búin að segjast vera að fara til Espoo og setti bílstjórinn okka töskur sér. Mér fannst samt réttara að hafa vaðið fyrir neðan mig og athuga þetta, og viti menn, okkar töskur voru komnar upp í rútuna til Turku, sem er um 200 km frá Helsinki. Þarna var nú gott að ég ákvað að kíkja á þetta, veit ekki annars alveg hvað við hefðum gert. Við komum heim að ganga miðnætti og varla hefði verið hægt að redda töskunum um kvöldið. Ég þurfti svo að mæta í vinnu morguninn eftir og hefði lent í miklum vanræðum án dótsins.

Mánudagur
Mánudagurinn var hræðilegur. Ég náði bara að sofa í um 4 og 1/2 tíma því við komum svo seint og var ég því frekar syfjuð í vinnunni. Þurfti svo að fara í finnskutíma fljótlega eftir vinnu og náði ekkert að leggja mig á milli. Dagurinn var ótrúlega langur og erfiður og ég dauðfegin að komast að sofa.

Ég er viss um að ég er að gleyma að segja frá einhverju, ég skrifa það þá bara seinna.
En annars var rosalega gaman, við vorum heppin með veður, það var um 10°C frost allan tímann sem var bara fínt, alveg passlegt. Við erum með svakalega strengi eftir allan hamaganginn en það er allt í lagi því þeir minna okkur á hvað við skemmtum okkur vel.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?