<$BlogRSDUrl$>

20 mars 2004

Vinna, framtíðin og myndir. 

Vinnan:
Ég held að það sé kominn tími til að blogga smá, þó að það séu örugglega allir hættir að koma á þessa síða því ég hef verið svö löt við að blogga undanfarið. Málið er bara að ég er alltaf svo þreytt þegar ég kem heim úr vinnunni, og oft næ ég bara rétt að borða áður en ég þarf að fara í finnskutíma. Eftir tíma kem ég heim og þarf þá að elda, eftir kvöldmat er svo kominn háttatími. Dagarnir hjá mér eru því þröngt setnir. Ég er komin með yfir mig nóg af þessari ógeðslegu vinnu. Ég er alltaf ónýt af þreytu og get ekkert gert skemmtilegt. Á kvöldin er ég alltaf alveg ónýt, verkjar allstaðar, í bakið, axlirnar, hendurnar, lappirnar, hausinn o.s.frv. Um helgar fæ ég (stundum) tíma til að slappa af. Um seinstu helgi vorum við til Lahti og fórum á gönguskíði og helgina þar á undan vorum við í Lapplandi og þar var sko ekkert slappað af. Núna eru því þrjár vikur síðan ég hef slappað eitthvað af og ber líkaminn þess augljós merki. Ég er alltaf standandi í vinnunni og þarf að labba rosalega mikið og er því nauðsynlegt að hvíla lappirnar um helgar, sem ég hef ekki alveg verið að gera undanfarið. Ég vissi því varla hvað snéri upp og niður þegar ég var búin að vinna í gær ég var orðin svo þreytt. Ég steinsofnaði þegar ég kom heim úr vinnunni en var samt syfjuð restina af kvöldinu. Í dag, laugardag, fékk ég loksins að sofa út en þó ég sé búin að sofa vel er ég samt ennþá þreytt. Allt pepsi-ið sem ég er búin að drekka í dag hefur þó hresst mig aðeins. Undanfarið hef ég oft verið með hausverk+svima og stóran part dagsins er mér hálf óglatt. Hvert einasta skref er sárt og ég er öll marin og blá á fótum, lærum, höndum, baki og síðu. Þetta er nú meiri þrælavinnan. Í þokkabót fæ ég svo ekki nema um 70 þús krónur útborgaðar á mánuði (eftir skatt) svo að mér finnst þetta varla ver þess virði. Ég á sem betur fer bara eftir að vinna í tvær vikur enn. Við vorum í búðinni áðan og það er greinilegt að heilinn er greinilega farinn í helgarfrí því að ég ráfaði eitthvað um búiðina með innkaupamiðann í hendinni og vissi ekkert hvað ég var að gera. Við sáum fljótt að það væri skynsamlegra ef Jens væri með miðann því þá gat ég bara elt hann, það réði ég við. Þegar maður vinnur svona leiðinlega vinnu finnst mér ekki sanngjarnt að hún eyðileggi fyrir manni þann tíma sem maður er ekki í vinnunni.

Eins og ég var búin að segja byrjaði ný stelpa í vinnunni og ég þarf að kenni henni, sem by the way mér fyndist að ég ætti að fá borgað fyrir. Þetta er ágætis stelpa. Það er samt ótrúlega erfitt að þurfa að útskýra svona mikið á finnsku, þegar ég kem heim eftir vinnu er ég alveg komin með nóg af finnsku, en hvað þarf ég þá að gera? Jú, fara í finnskutíma. Það er samt einn galli við þessa stelpu. Allt sem hún gerir, gerir hún alveg rooooosalega hægt. Hún er geðveikt lengi að þrífa allt og veldur það mér töluverðum vandræðum. Frá kl 6 til 8:30 (þá förum við í pásu) þarf að klára að þrífa visst mikið. Allar stofur þurfa að vera tilbúnar því að kennsla byrjar 8:15. Kaffistofur kennara þurfa sömuleiðis að vera tilbúnar. Það er því mjög mikilvægt að þetta klárist allt fyrir kaffi hjá okkur. Þegar ég þríf með einhverjum öðrum er það ekker tmál, ekkert stress við að ná að klára þetta þó að maður geti ekkert drollað. Þetta þýðir að við eigum í miklum vandræðum með að klára morgunhringinn (eða næturhringinn eftir því hvernig á það er litið). Á fimmtudaginn tókst það ekki þó að ég þrifi alveg eins og brjálæðingur. Á föstudaginn var starfsmannafundur sem þýddi að við höfðum styttri tíma til að klára verkefni dagsins. Það var því mjög mikilvægt að ná að klára morgunhringinn á réttum tíma og helst meira ef tími gæfist til. Með einhverjum öðrum hefði þetta ekki verið neitt mál. Ég útskýrði tvisvar fyrir stelpunni hvernig málum væri háttað í dag og að við þyrftum að vera mjög fljótar. Allt kom fyrir ekki, hvatingarorð mín höfðu engin áhrif. Það rétt tókst að klára morgunhringinn en til að ná því þurfti ég að þrífa hraðar en nokkru sinni fyrr. Ég var orðin móð og kófsveitt undir lokin. Ég var sko alveg ónýt þegar ég fór í pásu, en hún bara nokkuð róleg. Þetta þýðir líka að ég er alltaf með rosalega mikið rusl en hún nánast ekki neitt. Á einni hæðinni var verkaskiptingin þessi: Hún þreif 1 kennslustofu og var hálfnuð með aðra á meðan ég þreif 3 stofur, stóra kaffistofu, kvenna- og karlaklósettin og ganginn. Það finnst mér ekki alveg sanngjarnt!!! Það er ekkert skrítið að líkaminn sé farinn að kvarta enda er þetta ekki með nokkru móti eðlileg meðferð á líkama. Ég veit ekki alveg hvað ég á að gera í þessu, því ég er búin að biðja hana að þrífa hratt. Það er ekki gott ef hún venst á þessa rútínu og að ég þurfi að þrífa svona hratt það sem eftir er af vinnunni.


Framtíðin
Eins og gefur augaleið er þetta ekki mitt framtíðarstarf, ónei. Planið hjá mér var (þangað til fyrir rúmri viku) að hefja M.Paed nám í frönsku næsta haust. Þetta nám er blanda af kennslufræði og frönsku og veitir kennsluréttindi í framhaldsskólum. Það gerir mig að frönskukennara, sem er nokkuð sem ég hef stefnt á um nokkurn tíma. Þetta leit allt vel út og ég var farin að hlakka til að byrja í náminu. Á miðvikudaginn fyrir 1 og 1/2 viku fékk ég hins vegar email sem að kollvarpaði öllum mínum plönum. Email þetta var frá gamla frönskukennaranum mínum úr MA og var hann að bjóða mér 50% stöðu (sem myndi stækka með tímanum) sem frönskukennari í MA næsta vetur. Þeim var sama þótt ég væri
ekki með réttindi, sögðu að ég gæti tekið það í HA, samhliða kennslunni. Það nám er hvort eð er skipulegt sem hálft nám, eða 7,5 einingar á önn. Þetta hljómar allt voðalega vel en gallinn er sá að mig langar að læra meiri frönsku og langar því ekki að sleppa alveg náminu í HÍ. Ég fór því að senda email út um allar trissur og reyna að finna leið til að gera þetta allt saman. Það gekk bara vel og er staðan þannig í dag að ég er búin að taka starfinu og hef að öllum líkindum nám í kennslufræði við HA næsta haust. Í M.Paed náminu þarf ég að taka 15 einingar af kennslufræði og geri ég það á Akureyri. 15 einingar eru svo rannsóknarverkefni og það get ég ennig gert á Akureyri þó ég verði með leiðbeinanda í Reykjavík. Þá á ég eftir 15 einingar í frönsku og það lítur allt út fyrir að þær geti ég tekið í fjarnámi. Þetta virðist því allt ætla að blessast og erum við bæði mjög ánægð með þetta.

Þar sem að mig langar að verða frönskukennari og okkur langar bæði að búa á Akureyri í framtíðinni tel ég þetta atvinnutilboð vera sem happdrættisviningur fyrir mig. Reyndar kom þetta ekki alveg á þeim tíma sem ég hefði viljað en þó virðist allt ætla að ganga upp og ég þarf ekki að "fórna" M.Paed náminu fyrir starfið. Þegar við flytjum frá Finnlandi til Akureyrar í vor erum við því mjög líklega komin til að vera, þó að ég hafi lært að framtíðarplön geta breyst snögt og án mikils fyrirvara. Þegar ég hef verið að þrífa skólastofur undanfarið hugsa ég oft hvað mig langar miklu meira að standa fyrir framan töfluna og kenna heldur en að vera að þrífa þær, en þó reiknaði ég ekki með að vera í þeirri stöðu svona fljótt. Mér finnst ég allt í einu vera orðin fullorðin sem að hræðir mig að vissu leiti því að ég var búin að plana einhver námsár í viðbót. Ég er þó farin að hlakka mjög mikið til að búa aftur á Akureyri og að fara að kenna. Næsta haust veðrur Jens hjá Landsvirkjun á Akureyri að skrifa lokaverkefnið sitt svo að þetta hentar honum líka vel og hann er mjög ánægður með að vera að flytja til Akureyrar.

Ég vildi ekki blogga um þetta fyrr en þetta væri farið að skýrast allt saman og því skrifaði ég ekkert um þetta fyrr. Þetta hefur þó kostað mig töluvert umstang því að umsóknarfresturinn í HA rann út mánudaginn 15. mars (ég ákvað þetta ekki endanlega fyrr en föstudeginum áður) og varð ég því að faxa umsóknina fyrst og senda hana svo í pósti til að hún næði á réttum tíma. Þetta blessaðist þó allt og er þungu fargi af mér létt því að mér fannst þetta mjög erfið ákvörðun.

Myndir
Ef einhver hefur nennt að lesa þessa færslu til enda þá er smá umbun hérna í lokin. Ég er búin að setja myndirnar frá Lapplandi inn á myndasíðunu mína og hvet ég ykkur til að skoða þær.

17 mars 2004

Rugludallar! 

Tíhí, nú verð ég að segja ykkur fyndið! Það byrjaði ný stelpa í vinnunni í dag og haldiði ekki að yfirmaðurinn hafi beðið MIG, já moi, að kenna henni, af því að hún sagði að ég talaði svo "góða" finnsku, hehehe. Þið hefðuð nú bara átt að sjá svipinn á stelpugreyinu þegar ég var að reyna að útskýra þetta allt fyrir henni, ekki öfundaði ég hana allavega. Hún er samt fín, sem er ágætt, því að ég á eftir að vinna með henni þangað til ég hætti, eftir 2 vikur og 2 daga, jeij!

14 mars 2004

Erfið vika 

Þessi vika er búin að vera alveg rosalega erfið og mjög margt er búið að gerast. Ég nenni ekki að útskýra það allt núna, skrifa betur um það þegar málin eru komin á hreint.
Annars er vert að benda á að lítill gaur kom í heiminn fyrir um 2 veikum og ráðlegg ég ykkur öllum að kíkja á hann!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?