<$BlogRSDUrl$>

14 apríl 2004

Komin á leiðarenda 

Jæja, þetta tókst bara vel. Ferðin gekk stóráfallalaust fyrir sig, það eina sem ég klúðraði var að ég fór einu sinni inn á karlaklósett í flýti. Áttaði mig þó fljótlega á mistökum mínum.

Er frekar þreytt, var strax sett í vinnu út af ráðstefnunni. Tímamunurinn óhagstæður því að ég vaknaði kl 5 á íslenskum tíma (8 á finnskum) og er núna að fara að sofa.

Er alltaf að muna eftir einhverju sniðugu úr ferðinni sem ég gleymdi, segi frá því síðar.

13 apríl 2004

Ferðasaga 

Ég veit að það er langt síðan ég bloggaði síðast en aldrei þessu vant hef ég ekkert samviskubit yfir því og vil ég reyna að útskýra afhverju í stuttu máli.

Eins og ég var búin að minnast á komu Siggi, Ólöf og Tumi í heimsókn. Núna eru þau í Lahti hjá Katri og fara heim á morgun. Á morgun fer ég líka til Íslands svo að ég hef staðið í undirbúningi í dag. Við erum búin að gera margt skemmtilegt saman og allan tímann er búið að vera frábært veður. Fyrstu dagana skoðuðum við helstu túrista staðina í Helsinki. Það var nú ekki slæmt, veðrið lék við okkur og allir skemmtu sér vel. Mér finnst gaman að vera í túristaleik í Helsinki þó að ég sé búin að sjá alla þessa staði áður. Helsinki er samt ekki svona borg þar sem hægt er að skoða margt merkilegt, það er nokkuð stutt síðan hún var gerð að höfuborg og á hún sér því hvorki langa né merkilega sögu. Hún er samt mjög litrík og þar skerast austrið og vestrið á nokkuð táknrænan hátt. Á tveim hæðum í miðbænum standa tvær kirkjur, annarsvegar skjannahvít lúthersk kirkja, dómkirkjan, sem stendur fyrir vestræna menningu og trú. Hin kirkjan er appelsínugul múrsteinakirkja, rússnesk rétttrúnaðarkirkja sem stendur fyrir annars konar heim. Fyrr á öldinni lágu skilin á milli vestur og austur Evrópu í gegnum Finnland, þar mættust rússar og svíar, og ber borgin þess sterk merki.

Eftir bæjarröltið héldum við í siglingu til Tallinn í Eistlandi. Höfnin var í mjög snyrtilegur bæjarhluta, rétt hjá gamla miðbænum. Við þurftum svo að taka sporvagn og strætó til að komast á Youth hostelið sem við gistum á. Sporvagninn var augljóslega klassa neðar en þeir sem eru í Helsinki. Eldgamall og skítugur. Við vorum búin að verða okkur út um miða og reyndum að troða þeim í einhverja maskínu sem við fundum í sporvagninum en ekkert gekk. Jæja, hugsuðum við, skiptir ekki öllu. Það var ekki fyrr en einhver í strætónum sem við tókum næst benti okkur á hvernig þetta virkar. Þetta var nefnilega ekkert sjálfvirkt dót, heldur handvirkt. Maður þurfti að stinga miðanum í gatið og ýta svo einhverju dóti niður sem varð til þess að eitthvað í tækinu gataði miðann. Ekki á mjög fínan hátt, meira eins og gaffli hefði verið stungið í gengum miðan. Einfalt en virkar. Eftir því sem við færðumst nær gistiheimilinu varð allt ófrýnilegra að sjá. Það var allt að morkna, húsin virtust ekki hafa verið máluð í tugi ára, öll málningin var að flagna af eða var hreinlega öll farin burt. Göturnar voru allar götóttar og fólkið tötralegt. Sporvagnasporið lá á miðri götunni svo að þegar maður fór út endaði maður bara á miðri götunni, innan um bílana. Öll skilti voru bæði á rússnesku og eistnesku. Eistland er ekki mjög ríkt land, eins og sást glögglega, og það verður gaman að sjá hvernig málin þróast þegar landið fer í Evrópusambandið í næsta mánuði. Allt var mjög ódýrt og var ég oft lengi að gera mér grein fyrir verðlaginu. Pizza á veitingastað kostaði um 350 kr. bjór á veitingastað kannski 150 kr. Við fórum í matvöruverslun og keyptum okkur eitthvað smotterí, einn 1/2l bjór, vatn, 2 banana, flögur, súkkulaði og eitthvað smá meira, það kostaði rétt rúmlega 200 krónur.

Gamli miðbærinn í Tallinn var þó mjög fallegur og greinilega vel við haldið. Hann er best varðveitti miðaldabærinn í Evrópu, las ég í Lonely Planet bókinni minni. Það eru augljósar leifar af borgarvegg umhverfis gamla bæinn og á hæð í útjaðri gamla bæjarins er dómkirkja og kastali. Allar göturinar og öll húsin eru í svo gott sem upprunalegu útliti og var þetta því eins og að koma í annan heim. Ég hafði rosalega gaman af að rölta þarna um og skoða.

Eftir Tallinn fórum við út í eyju til Atso, frænda Jens. Ég var einhverntíman búin að segja frá eyjunni, en hann á eyju í finnska skerjagarðinum. Lítil einkaeyja með 2 sumarbústöðum og gufubaðsbústað. Þar eyddum við páskunum með gestunum okkar. Dvölin þar var alveg frábær. Veðrið var áfram algjör draumur og það var gott að slappa af þarna. Atso er búinn að smíða viðarkynntan heitapott sem við hituðum og það var nú ekki slæmt sko. Siggi og Ólöf komu með páskaegg frá Íslandi, nokkur egg frá Nóa-Sírius nr 1. Ég fékk 2 svoleiðis, alveg bjargaði páskunum

Ég held að við höfum öll skemmt okkur mjög vel og að gestirnir hafi verið ánægðir með reisuna. Ég allavega er mjög sátt, þetta var allt alveg frábært. Ekki tekur þó minna spennandi við núna. Ég þyrfti meira að segja helst að fara að pakka!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?