<$BlogRSDUrl$>

15 maí 2004

Komin frá Rússlandi 

Jæja, þá erum við komin aftur frá Rússlandi, það var frábært. Blogga betur um það seinna því núna höfum við engan tíma, vorum að koma heim, þurfum að klára að ganga frá íbúðinni, losum hana í dag, förum svo til Turku þar sem við verðum ekki í netsambandi og förum svo til Íslands á fimmtudaginn þar sem við verðum í lélegu netsambandi. Úff! Jæja, vonandi kemst ég einhverntíman í almennilega tölvu til að skrifa um ferðina því það er margt að segja frá. Allavega, við komumst heil til baka og sluppum við magakrampana og niðurganginn sem var búið að lofa okkur.

Bless í bili, sjáumst á Íslandi!

11 maí 2004

Lokaspretturinn 

Við erum búin að vera rosalega dugleg í dag og í gær, heldur betur nóg búið að vera að gera. Það þarf að ganga frá allskonar pappírsveseni svona í lok dvalarinnar, klára að undirbúa Rússlandsferðina, pakka öllu dótinu og senda part af því, þrífa alla íbúðina hátt og lágt, klára að skila bókasafnsbókum o.s.frv. Þetta er sko ekkert spaug get ég sagt ykkur. Ég get líka sagt með nokkurri vissu að ég er komin með hundleið á að flytja á milli landa, enda er þetta í fjórða skiptið!!! Til og frá Frakklandi og Finnlandi. Sem betur fer erum við ekki að flytja nein húsgögn eða svoleiðis með okkur, nóg er þetta nú samt.

Á morgun, miðvikudag, förum við til Rússlands. Komum aftur á laugardagsmorgun og þá flytjum við, þ.e. losum okkur við öll húsgögnin aftur og skilum því dóti sem við fengum lánað. Að því loknu tökum við lest til Turku þar sem við dveljum hjá ömmu Jens svona síðustu dagana áður en við förum. Á fimmtudaginn eftir rúma viku fljúgum við svo til Íslands, frá Turku. Það er ótrúlega stutt þangað til við förum heim, samt finnst mér við vera nýkomin. Það er hellingur sem ég er ekki búin að gera og geri líklega ekki fyrr en ég kem hingað seinna.

Þó að ég sé vissulega glöð að vera að flytja aftur heim til Íslands, meira að segja Akureyrar, og sé spennt fyrir þeim verkefnum sem bíða mín þar get ég ekki annað en verið leið samtímis. Eftir 9 mánaða dvöl hérna höfum við kynnst mörgum sem mér þykir mjög leiðinlegt að kveðja, ekki vitandi það hvenær ég get hitt þau næst, eða hvort það gerist yfir höfuð einhverntíman. Það hjálpar heldur ekki til að um daginn þurfti ég að kveðja 6 mjög kæra "vini" sem ég hef þekkt í 10 ár. Það þótti mér ekki gaman en skil þó vel að þetta verði að enda. En svona er þetta, það er ekki hægt að gera allt, maður verður alltaf að velja og hafna. Ég hef því verið haldin ákaflega undarlegri tilfinningu undanfarið, blöndu af gríðarlegri hamingju og mikilli sorg. Undarlegt þetta líf!

10 maí 2004

Úff 

Ég er alveg að verða gráhærð á þessu pakk-veseni. Mér finnst alveg það leiðinlegasta að pakka, hvað þá allri búslóðinni!! Er mjög dugleg við að finna mér eitthvað annað að gera, eins og að þvælast eitthvað á netinu og blogga eitthvað rugl. Svo er óendanlega heitt hjá okkur sem er ekki að hjálpa til!

Eftir um hálftíma byrjar Jens í síðasta prófinu sínu, heppinn hann. Ekki það að ég er svo sem heppnari, þarf engin próf að fara í...

Jæja, ætli ég ætti ekki að vera dugleg í smá stund í viðbót, þarf svo að skreppa í búðina og fara í síðasta finnskutímann minn :(

09 maí 2004

kjarnorkusumar 

Eins og ég var búin að minnast á er búið að vera nokkuð heitt hjá okkur. Íbúðin okkar er ekki hentug fyrir svona hitamismun. Hún verður ísköld ef það er kalt úti og bakarofn ef það er heitt úti. Það verður s.s. alveg ólíft hérna inni þegar það er heitt og sólskin, allir gluggarnir vísa í suður, stórir gluggar, og skín því sól inn allan daginn. Það verður alveg ólýsanlega heitt hérna sko. Ég átti súkkulaði inn á skáp, og n.b. sólin hafi ekki skinið á það!, sem ég ætlaði að fá mér í gær. Þegar ég ætlaði að brjóta það í sundur brotnaði það ekki heldur beyglaðist bara og kramdist, fáránlegt! Í gærkvöldi galopnuðum við gluggana í von um að nóttinn yrði auðveldara því nóttina þar áður var sængin mín á gólfinu alla nóttina! Okkur urðu hinsvegar á þau mistök að skilja ljósið eftir á líka og því fylltist eldhúsið af allskonar mis girnilegum skordýrum, allt frá feitum ljótum fiðrildum yfir í eitthvað skærgrænt með vængi sem ég veit ekki hvað er, úff, þetta er ekki auðvelt hérna! Það verður mjög heitur dagur í dag en eftir það á að kólna eitthvað. Allt í kringum okkur eru leysingar að valda usla, það er hætta á skógareldum allt í kring og hitinn er farinn að skapa þrumuveður og eigum við von á einu slíku í vikunni. Þetta er alveg ótrúlegt.

Annars er farið að styttast ótrúlega mikið í að við förum í Rússlands og verð ég alltaf kvíðnari og kvíðnari...

This page is powered by Blogger. Isn't yours?